05.03.1957
Neðri deild: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

69. mál, sjúkrahúsalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er áreiðanlega rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði hér rétt áðan, að það er enginn ágreiningur um nauðsyn þess að reisa nýtt sjúkrahús á Sauðárkróki. Sjúkrahúsið, sem þar er nú starfandi, er búið að starfa frá því laust eftir aldamót, og það er í gömlu, litlu timburhúsi, og má gegna hinni mestu furðu, að skuli hafa gengið slysalaust að reka það sjúkrahús í þeim húsakynnum við þá aðstöðu.

Ég tel því, að Skagfirðingar hafi farið knúðir af brýnustu nauðsyn til þess að undirbúa byggingu nýs sjúkrahúss, og tel, að ekkert megi það gera í málinu, sem stöðvi þá í því að ljúka þeirri framkvæmd.

Ég vil líka í sambandi við það taka fram, að þó að löggjöf yrði óbreytt eins og hún var, þegar þeir undirbjuggu þessa framkvæmd, — og við gildandi lög hljóta þeir að hafa miðað, — þá getur það varla leitt til þess, að þeir hætti við byggingu sjúkrahússins. Þeir hafa áreiðanlega ekki séð svo í hendi vissu fyrir því, að löggjöf yrði breytt, þannig að aukin ríkisframlög kæmu til, og þeir þannig eingöngu miðað við það, að þeir kæmu sjúkrahúsbyggingunni fram, ef svo yrði. Nei, ég tel, að sjúkrahúsbyggingin á Sauðárkróki mundi auðvitað ganga sinn gang og henni verða lokið á eðlilegum tíma, þó að engin lagabreyting yrði, enda vandséð, hvort Skagfirðingar fengju meira fé frá ríkissjóði að breyttum lögum, af því að þeir mega jafnvel búast við því að fá ekki með fullum skilum á réttum tíma það, sem nú stendur til samkv. lögum að þeir fái, enda voru þeir, þegar við heimsóttum þá í haust, undirbúnir undir það, þar sem ríkið stæði nú í vanskilum og mætti búast við að það kæmi til með að standa í vanskilum að óbreyttum lögum. (Gripið fram í.) Ég var þá á þeim sama degi kominn úr heimsókn frá hinu stórglæsilega héraðshæli Austur-Húnvetninga og var þar að skýra þeim frá því, sem þeir vissu auðvitað mætavel, að skuld ríkisins enn í dag við þá stofnun vegna byggingarkostnaðar er slík, að það má halda vel á, ef hægt verður að greiða það til fulls á næstu tveimur árum, en sú stofnun er nú þegar tekin til starfa og hefði auðvitað þurft að fá ríkishlutann greiddan í þann mund, sem byggingu var lokið. Þannig eru vanskilin þar vestan fjallgarðsins, og ég gerði þeim ljóst, að þeir mættu því miður búast við, að ekki yrði hægt að greiða að fullu það, sem ríkinu bæri, til sjúkrahússins á Sauðárkróki, því að í mörg horn væri að líta, vanskilahorn, sem yrði að halda áfram að útrýma, eins og t.d. hjá Austur-Húnvetningum.

Það er hins vegar ekkert óeðlilegt, að héraðshæli Austur-Húnvetninga sé nefnt í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, því þegar Húnvetningar voru að byggja það, var nefnilega eins farið að. Þá var gerð breyting á lögum til að breyta hlutfallinu, af því að sveitarfélög ættu þarna í hlut og ekki kaupstaður, og talið rétt að veita meiri styrk til sjúkrahúsbygginga, þegar ekkert bæjarfélag stæði að byggingunni. Nú aftur kemur það, að það þarf aftur að lagfæra hlutfallið, þó að bæjarfélag eigi í hlut, af því að bæjarfélagíð sé svo lítið. Og það er sannarlega fámennt út af fyrir sig, með rúmlega þúsund manns.

Þannig hefur þessi þróun verið koll af kolli, að fyrst er verið að létta á og laga lögin, af því að sveitir eigi í hlut, svo þarf næst að laga, af því að þá er talið viðeigandi, að bæjarfélögin sætu við annað hlutfall óbreytt. En nú þarf að laga með því að taka litlu bæjarfélögin út úr og segja: Þau þurfa að fá sömu reglu og sveitarfélög, sem ekki eru bæjarfélög. — Og þá blasir fram undan eitt sveitarfélagið enn, sem er nú að undirbúa sjúkrahúsbyggingu, Siglufjarðarkaupstaður, sem verður að standa einn að sinni sjúkrahúsbyggingu, með 2700 manns. Það verður næsta lagabreytingin. Við sjáum það alveg í hendi, ef hún verður ekki afgreidd ásamt þessu máli. Og svo yrði þá sennilega næst þar á eftir, að bæjarfélögin yndu því ekki, að það væru mismunandi reglur í lögum um bæjarfélög eftir því, hvort þau væru stærri eða smærri, og alltaf hægt að teygja það og toga og deila um, hvar mörk ætti að setja.

Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði hér áðan, að umsögn landlæknis var um sjúkrahúsmálin í heild fyrr og nú og ábending til Alþingis um það, hvert stefndi með þessu, sem sé að ríkið yrði þá að taka að sér að annast alveg stofnkostnað og sennilega innan stundar rekstur allra sjúkrahúsa og sjúkraskýla í landinu, því að með þessu áframhaldi eru alltaf gerðar breytingar nákvæmlega i sömu áttina, bara út frá nýju og nýju sjónarmiði, nýrri og nýrri röksemd, að það verði í þessu tilfelli að hækka svolítið hlutfallið, af því að það standi svo illa á þarna í þessu tilfelli. Og það getur alltaf staðið illa á í einhverri svolítið annarri mynd, þegar næst er byggt sjúkrahús.

Hitt er rétt, að ef þessu frv. yrði ekki sinnt nú, það fengi ekki afgreiðslu, en t.d. ákveðið að skipa nefnd til þess að koma á einhverri heildarskipan um fjárveitingar til sjúkrahúsbygginga, þá má búast við, að það tæki alltaf ár og kannske tvö ár, eins og hv. 1. þm. Skagf. sagði hér áðan. Það yrði svo sem ekki búið að koma fyrir kattarnef sjúkrahúsmáli Skagfirðinga með því. Það væri þannig, að þeir yrðu þá að búa við óbreytt lög, það hlutfall, sem nú er ákveðið i lögum, þangað til slíkar till. um heildarskipulag á þessum málum lægju fyrir.

Ég skal ekki taka neina afstöðu til þess, hvort það er svo nauðsynlegt að skipa nefnd í þetta mál nú og ákveða þegar að taka öll þessi mál til endurskoðunar. Sú nauðsyn er þá í raun og veru löngu til komin, og Alþingi verður að skera úr því, hvort það vill nú stíga eitt skref í viðbót við þau skref, sem áður hafa verið stigin í þessa átt, að hækka sífellt hlutfall ríkissjóðs í framlögum til sjúkrahúsa og sjúkraskýla, sem þýðir það, að ef það á að bæta nokkuð úr og ekki auka aðeins á vanskil ríkissjóðs, þá verða menn að muna eftir þessu við afgreiðslu fjárlaga. Þá verða menn bara að ætla meira fé til sjúkrahúsbygginga og sjúkrahúsmála yfirleitt heldur en gert var á þessu þingi, því að það er nákvæmlega upp á krónu það sama og síðasta Alþingi ákvað, og hafa þó byrðarnar aukizt í þessu efni. Að öðrum kosti kemur viðkomandi stöðum, — í þessu tilfelli Skagfirðingum — að engu gagni breyttur lagabókstafur, ef fjárveitingarnar eru ekki auknar. Þá gefur það aðeins vonir og skapar vonbrigði á eftir.

Þetta vildi ég aðeins segja við þessa umr. Hitt er rétt, að ég hef heitið Skagfirðingum því að láta þá njóta fulls réttlætis í sambandi við greiðslur úr ríkissjóði, meðan ég á að sjá um þær vegna þessarar sjúkrahúsbyggingar, sem þeir hafa nú undirbúið og eru að byggja, því að ég álít, að fáir staðir á landinu háfi brýnni nauðsyn til að koma upp nýju sjúkrahúsi en þeir, sem hafa haft lítið sjúkrahús um langan tíma og nú um sinn orðið algerlega ófullnægjandi.