05.03.1957
Neðri deild: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

69. mál, sjúkrahúsalög

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði, sem mig langaði til að drepa á í sambandi við þessa síðari ræðu hæstv. heilbrmrh.

Hann sagði, að þó að frv. þetta næði ekki fram að ganga, mundi það ekki tefja fyrir byggingu sjúkrahússins. Ég held, að hér sé mælt af nokkrum ókunnugleika. Það, sem við Skagfirðingar höfum óttazt í þessu efni, er það, hve þungur hlutur Sauðárkróki er ætlaður. Þetta er að vísu sveitarfélag upp á 1100 manns, en þetta er fátækt bæjarfélag og hefur, bæði í sambandi við hafnargerðir og margar fleiri framkvæmdir, haft við erfiðleika að stríða, svo að það hefur verið þröngt þar um. Það er þess vegna almenn skoðun fyrir norðan, að það verði alveg sérstaklega örðugt fyrir Sauðárkrók að leggja fram sinn hlut, og gæti vel farið svo, ef ekkert væri að gert, að það yrði beinlínis til þess að tefja fyrir, að sjúkrahúsið kæmist upp.

Þá vék hann að því, að það yrði ekki meira borgað út og það yrði ekki meira fé fyrir hendi, þó að þetta frv. yrði samþykkt. Það kann vel að vera, en ég vil þó minna hæstv. ráðh. á það, að það er allt önnur aðstaða og hefur reynzt talsvert drjúg til fjáröflunar um að fá fé að láni, þegar væntanlegt er, að ríkissjóður greiði lánið. Það er þessi leið, sem mundi verða farin og hefur orðið mörgum slíkum fyrirtækjum, þ. á m. sjúkrahúsi Húnvetninga, að góðu gagni til fjáröflunar í bili, þangað til fé er greitt úr ríkissjóði. Það er þess vegna mikilsvert atriði að hafa slíkt fyrirheit, enda þótt peningarnir séu ekki í hendi þá þegar.