12.03.1957
Efri deild: 68. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

83. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þeim, sem voru hér á síðasta þingi, er kunnugt um aðdraganda þessa máls og reyndar líka þeim, sem nú sitja hér, því að í nál. var nokkuð rakin saga málsins, en hún er í stuttu máli sú, að fyrrv. landbrh. (StgrSt) skipaði n. manna til að endurskoða gildandi ákvæði um lax- og silungsveiði. Hann mun hafa leitazt við að hafa í n. menn með nokkuð ólík sjónarmið til þess að reyna að bræða saman ólíkar skoðanir, en í henni voru, eins og ykkur er kunnugt, Pálmi sálugi Hannesson rektor, sem var sá hérlifandi manna, sem hafði, að menn telja og ég held með réttu, mest yfirlit yfir laxveiðina í landinu í heild vegna þess starfs, sem hann um langt skeið hafði haft með höndum sem formaður veiðimálanefndar og þar að auki lærður náttúrufræðingur. Honum hefur þá sjálfsagt í n. verið ætlað það sérstaka hlutverk að bræða úr og veita upplýsingar um ólíkar aðstæður, sem víða eru í landinu, og hann var víst líka formaður nefndarinnar. Annars vegar var svo í henni Þórir Steinþórsson skólastjóri í Reykholti, sem um fleiri ár var búinn að vera formaður fyrir veiðifélaginu í Hvítá í Borgarfirði, sem nær yfir eitt af okkar stóru veiðisvæðum, og hafði þess vegna yfirlit yfir veiðina þar, bæði þá, sem stunduð er með netjum, og þá, sem stunduð er með stöng og öðrum veiðarfærum. Og svo í þriðja lagi Björn Ólafsson, sem um margra ára skeið hefur stundað stangarveiði að sumrinu og þekkir kröfur og óskir stangarveiðimanna vel. Þessir þrír menn hafa þess vegna átt að leggja til reynsluna og aðstæðurnar á ýmsum ólíkum stöðum. En svo voru með þeim tveir lögfræðingar, dómari í hæstarétti, Gizur Bergsteinsson, og Gunnlaugur Briem stjórnarráðsforstjóri.

Þannig er þetta frv. til komið, sem hér liggur nú fyrir. Í fyrra fylgdi því ákaflega greinileg grg. með teikningum, sem útskýrði ýmis sérfræðileg orð, sem hér eru notuð og táknuð eru í frv. til að byrja með, útskýrt, hvað hvert heiti meinar. Það hefur ekki verið prentað með frv. eins og þeir senda okkur það núna, en það hafa menn sjálfsagt kynnt sér, a.m.k. þeir, sem hér voru í fyrra og fengu frv. með greinargerðinni.

N. í fyrra og n. núna, báðar landbn. hafa lagt í þetta mjög mikla vinnu, yfirfarið þetta ákaflega rækilega. Ég held, að það sé óhætt að segja það alveg fortakslaust. Það munu vera komnir í frv. milli 40 og 50 fundir bæði árin. N. hefur haft með sér á fundunum venjulega Þór Guðjónsson, það er undantekning hafi hann ekki verið með henni til að gefa henni upplýsingar, og afleiðingin af þessu öllu saman er sú, að nú liggur hér fyrir nál. og brtt. á þskj. 324, brtt., sem n, stendur öll að.

Áður en ég fer út í þær, vil ég benda á það, að löggjöf um þetta efni er alveg sérstaks eðlis. Hún er látin ná yfir lax- og silungsveiðina í öllu landinu, og hún hefur verið og er vitanlega enn sett vegna þess, að það hefur sýnt sig áþreifanlega, að ýmsar þær veiðiaðferðir, sem menn hafa notað og hvernig menn hafa notað þær, hafa orðið þess valdandi, að veiði hefur horfið alveg úr sumum ám og stórminnkað í öðrum. Þess vegna höfum við með þessari löggjöf leitazt við að skapa reglur, sem eiga að verða til þess, að veiðin haldist við eða vaxi, og þó jafnframt verði til þess, að sem fæstir og sem minnst verði beittir því, sem kalla mætti misrétti, heldur að veiðin, sem úr ánum fæst, skiptist sem jafnast og réttlátast milli þeirra, sem hana stunda eða eiga. En hve margir það eru, getið þið séð á því, að mér taldist svo til á sunnudaginn, þegar ég var að fara í kringum landið í huganum, að það væru liðlega 70 ár á landinu, sem laxveiði væri stunduð í og undir svo ólíkum staðháttum, að frá því að árnar væru margra kílómetra breiðar, eins og t.d. Ölfusá neðan til og Hvítá í Borgarfirði, úr því að kemur niður fyrir Hvítárós, sem kallað er, eða Hólminn, þá eru þær niður í það, að menn geta stokkið yfir þær og stiklað á þurru á steinum, ef ekki eru sérstök flóð. Svo misjafnar eru þessar ár. Og þegar þess vegna á að byggja upp lagafrv., sem á að skapa ramma utan um veiðina í öllum þessum ám og tryggja, að þar verði ekki útrýmt laxinum, þá hljóta þau ákvæði, sem sett eru í frv., að vera meira og minna óákveðin og breytileg eftir staðháttum.

Þess vegna reka margir í fyrstu augun í það, þegar þeir lesa þetta frv. yfir, að það er ákaflega margt, sem sett er á vald ráðh. og sett á vald veiðimálastjóra. En þetta er alveg óumflýjanlegt, þegar selja á eina löggjöf um svona óskaplega breytilega staðhætti eins og hér er um að ræða. Það verður í þeim að vera mikil teygja. Í öðru lagi getum við fengið yfirsýn yfir, hvað marga þetta snertir, með því, að mér taldist til lauslega, að það mundu vera eitthvað á þrettánda hundrað bændur, sem ættu veiðiland að þessum ca. 70 ám, sem laxinn er veiddur í, og þegar á að setja löggjöf, sem snertir þá undir svona ólíkum skilyrðum, er ekkert undarlegt, þótt sjónarmiðin geti orðið dálítið misjöfn, þegar menn líta á staðhættina á hverjum einstökum stað, og sérstaklega þegar menn þekkja ekki annað og hafa ekki yfirlit yfir annað en það, sem er þeim næst og þeir eru aldir upp við.

Á þetta vil ég leggja áherzlu og biðja ykkur að hafa í huga, þegar þið farið að athuga einstakar brtt. okkar, og miða þær ekki eingöngu við þá staðhætti, sem þið kannske hver um sig eruð kunnugir á þessum eða hinum staðnum, heldur reyna að líta á málið frá sjónarmiði heildarinnar, sem hér á hlut að máli og er óskaplega breytileg eftir því, hvar er í landinu.

Nú kann að líta svo út sem þessar brtt. okkar séu ákaflega margar og miklar. Þær eru, ef ég man rétt, 37 og margar af þeim með fleiri stafliðum.

Ég mun nú ekki fara í hverja einstaka brtt. út af fyrir sig, heldur reyna að taka þær meira saman, þær sem snerta sama atriði, og gera grein fyrir þeim þannig lagað.

Fyrsta brtt. er við 2. gr. og er í tveim liðum. Fyrri brtt. tekur það fram, að þegar ráðh. úrskurðar, hvort heimilt sé að selja veiði undan jörð, þá skuli leitað álits veiðimálastjóra um það. Þetta er ekki gert af neinu vantrausti við neinn ráðh„ heldur er það gert af því, að við viljum koma ráðh. undan því að hafa beint og endalaust nagg einhverra manna, sem langar til að kaupa veiði undan einhverri jörð, og láta veiðimálastjórann vera nokkurs konar öldubrjót, sem slíkt nagg bitnar á, þegar um það er að ræða.

Önnur till. við þessa gr. er ekki annað en leiðrétting. Það er vitnað í aðra grein síðar í lögunum, sem þarf að lesa samhliða henni og hefur láðst að taka upp af n.

Þá vil ég næst benda á þrjár brtt., sem allar eru sama eðlis, þó að þær séu sín við hverja gr. Ein er við 3. gr., önnur er við 45. gr. og sú þriðja er við 54. gr. Allar þessar brtt. eru þess eðlis, að þær gefa manni, sem býr á ríkisjörð og hefur erfðafestu á henni, sama rétt og eigendum jarða er annars gefinn.

Við lítum þannig á, að erfðafesturétturinn, sem maðurinn býr við á þessum jörðum, skapi manninum alveg sama rétt eins og hann ætti jörðina sjálfur og þess vegna sé rétt, að hann mæti og hafi sama rétt á fundum og við ákvarðanir í því fiskræktarfélagi eða veiðifélagi, sem hann er í, eins og eigendur jarða annars hafa.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að tala um þessar 3 breytingartillögur. Þær eru allar um það sama, að gefa erfðaleiguhafa sama rétt og eiganda.

Næstu brtt., sem ég minnist á, eru þrjár og eru við 3., 46. og 66. gr. Þær eru allar þess eðlis, að eins og núna er í frv., er atkvæðisréttur manna á fundum í veiðifélagi eða fiskræktarfélagi bundinn við jarðir, sem eru í fasteignabók frá 1932 eða eldra mati. Nú er fasteignamatinu þannig komið, að jarðirnar breytast, ein er lögð undir aðra, önnur fer í eyði o.s.frv., og þegar nýjar jarðir koma, kemur á þær millimat, svo að það er alltaf til í landinu gildandi mat um allar jarðir, sem til eru. Þess vegna þótti okkur réttara að miða atkvæðisréttinn í þessu tilfelli ekki við það, þótt eitthvert kot hefði verið í byggð og talið í Johnsens-jarðatali eða Jarðabók Árna

Magnússonar, og það væri ekki til lengur sem jörð, heldur þær jarðir einar, sem væru sérmetnar í gildandi fasteignamati, og breytingarnar við 3. gr., 46. gr. og 66. gr. eru um þetta. Ég sé enga ástæðu til að fara út í hverja sérstaka þessara brtt. út af fyrir sig. Hér veitur á, hvort menn líta þannig á, að atkvæðisrétturinn eigi að bindast við þær jarðir, sem sérmetnar eru og eru til sem jörð á því augnabliki, sem atkvæðið er greitt, eða við einhverjar jarðir, sem einhvern tíma hafa verið sérmetnar sem jörð og til eru, þó að þær séu komnar inn í aðra jörð eða horfnar með öllu.

Ég bygg, að öll d. sé sammála um, að það sé réttara að miða hér við gildandi mat en við gömul möt, sem horfin eru, og jarðir, sem líka eru horfnar.

Þá vil ég næst minnast á tvær brtt., sem eru við 5. og 9. gr. og báðar eru um sama efni, þ.e. 3. og 4. brtt. n. Þær hníga báðar að því, að þegar búið er að stofna veiðifélag einhvers staðar, þá sé heimilt fyrir þá, sem lönd eiga að vötnunum, sem um ræðir, þá stjórn, sem þá stjórnar því, að leyfa öðrum að veiða í vatninu, eins og gerist og gengur með önnur vatnsföll. En eins og það er í frv., er búendum einum leyft að veiða í slíkum vötnum og þó ekki meira en þeir þurfa til síns heimilis. Þetta gildir um vötn á afréttum og inni á öræfum, þar sem margir bændur og heil hreppsfélög eiga land að. Eins og frv. var, þá var óleyfilegt að veiða í þeim öðrum en bændunum sjálfum og óleyfilegt að veiða meira en þeir þurftu til sinna búa. Eins og frv. er núna, ef okkar brtt. verður samþ., þá er, þegar búið er að stofna veiðifélag við slíkt vatn, stjórn þess heimilt að leyfa mönnum, t.d. héðan úr Reykjavík eða einhvers staðar að, að fara í það með stangir og veiða í því fyrir borgun eða eitthvað, eftir því sem þá um semst. Þessar brtt. hníga báðar í þessa átt og breyta frv. að þessu leyti, en þetta var ekki hægt eftir frv. eins og það liggur fyrir núna.

Þá vil ég minnast á 5. brtt. n., sem er við 13. gr. Þar er dálítil breyting frá því, sem er í frv., og þar mun minni hl. leggja til, að það ákvæði falli alveg niður, 1. tölul. 13. gr. En hún er um það að reyna að fá sem beztar upplýsingar um veiðina á hverjum stað, til þess að veiðimálastjórinn, sem á að hafa yfirsýn yfir allt land, geti sem allra bezt fylgzt með, hvort veiðin sé að minnka eða vaxa á einhverju ákveðnu vatnasvæði eða einhverri ákveðinni á. Ég held, að þetta sé alveg nauðsynlegt, og það var eiginlega til að reyna að koma á samkomulagi við minni hl. n., sem hér er lagt til að breyta þessari gr. og breyta henni á þann hátt að hafa þetta ekki beina fyrirskipun, heldur gefa ráðh. heimild til að fyrirskipa þær skýrslur. Þetta byggist á því, að við vorum ekki óhræddir um það, sem minni hl. n. taldi, að það mundi verða mjög erfitt að afla þessara skýrslna og fá þær, það gæti verið, að hann hefði eitthvað fyrir sér, og þess vegna væri rétt að hafa þetta ekki skyldu, heldur heimila ráðh. að reyna þetta. Ef það gengi vel, yrði haldið áfram með það, en ef það gengi illa og hefðist ekkert upp úr því, þá væru þær aftur lagðar á hilluna. En meiri hl. var þetta ljóst, og ég held, að minni hl. sé það reyndar líka, — ég held, að ástæðan til þess, að hann lagði til, að þessi stafliður félli niður, sé einungis þetta, að hann hafi ekki trú á, að þessar skýrslur komi að gagni. Við erum ekki alveg vissir um það og viljum þess vegna láta reyna það og hverfa frá því aftur, ef það reynist ekki fært, þess vegna setja það sem heimild inn, en ekki sem beina skyldu.

Þá koma nokkuð mörg ákvæði, þar sem við rýmkum á möguleikum til veiðinnar frá því, sem var í frv. Þar vil ég fyrst nefna, að bæði með 8. till. okkar, b, og 8. till. okkar, e, er bætt inn í, að líka megi veiða með færi á viðkomandi stöðum. Það er rýmkun, sem ekki skiptir miklu máli, en þó virðist vera sjálfsögð.

Þá höfum við bætt inn í við 35 gr., sem takmarkar nokkuð mikið, eins og hún er orðuð, hvað langt megi vera á milli lagna almennt séð. Við höfum bætt því inn í hana, að ef um mjög breiðar ár er að ræða, sé heimilt að leggja frá báðum bökkum, sem liggja andspænis hvor öðrum, eins og t.d. í Ölfusá neðan til. Eins og frv. kemur til okkar, er ekki heimilt að leggja frá bakka ár veiðitæki út í vatn, nema það séu minnst 100 metrar á milli, og þetta gildir jafnt beggja vegna, þó að það væri heill kílómetri á milli bakkanna. Við breytum þessu á þann hátt, að ef áin hefur ákveðna breidd, megi leggja frá báðum bökkum, þó að skemmra sé eftir ánni, mælt upp eftir henni endilangri, heldur en 100 metrar á milli lagnanna, sem liggja sitt hvorum megin. Mér virðist þetta ákvæði alveg sjálfsagt í sambandi við stórárnar, en það kemur ekki til mála við litlu árnar, sem eru þær minnstu ekki nema agnarlítið brot af breidd þeirra stærstu.

Þá eru við 78. gr. líka brtt. hér um. Þar er ráðh. gefin heimild til að rýmka á ýmsum þeim takmörkunum og bönnum, sem annars eru í lögunum og nauðsynleg eru og engum dettur í hug að slaka til á; þegar um er að ræða smáár, en oft getur verið sjálfsagt að slaka meira eða minna til á, þegar veiðifélag á í hlut og um er að ræða stórár.

Loks er svo rýmkun enn viðvíkjandi 15. gr., 2. tölulið, og það er kannske mesta rýmkunin, sem felst í okkar till. Eins og greinin er nú, þá er svo ákveðið, að ekki megi veiða nær ósi ár en 1000 metra. En í blóra við þetta ákvæði hafa svo menn við árósa á nokkrum stöðum á landinu haft net í sjó út frá árósunum og veitt í þau lax, sem annars er óheimilt að veiða í sjó. Netin hafa talizt silunganet, en að minnsta kosti sum þeirra sums staðar verið útbúin sem laxanet og netaeigendur selt úr þeim mikið af laxi. Þetta er í alla staði óheimilt, og sjálfsagt hefði verið hægt að sækja menn til sekta fyrir þessar veiðar. Það hefur nú ekki verið gert, en nú föllumst við á að koma á móti þessum mönnum, sem ekki vilja missa sinn rétt, sem þeir kalla, og ekki viðurkenna, að þeir veiði lax, heldur séu þeir að veiða silung. Við leggjum nú til að minnka svæðið niður í 500 metra, en þá jafnframt setja inn í l. ákvæði um það, að veiðimálastjóri skuli hafa eftirlit með veiðitækjunum, möskvastærðinni og öðru, sem tilheyrir netunum, sem þarna eru lögð, og ganga úr skugga um, að það séu silunganet, en ekki laxanet, sem þar eru notuð.

Um þessa gr. veit ég ekki annað en hafi orðið samkomulag. Þetta snertir mjög ýmsa menn í Árnessýslu við ósa Ölfusár, og minni hl. n. var tilleiðanlegur til þess að fella þetta ákvæði alveg niður. Það var gersamlega ófært að gera það vegna minni ánna hér og þar um landið. En við féllumst á til samkomulags að stytta svæðið niður í 500 metra og setja inn í l. bein ákvæði um, að veiðimálastjóri skyldi athuga gerð veiðitækjanna, um möskvastærð netanna og annað, sem að því lyti.

Þessi ákvæði öll ganga í þá átt að rýmka til, og mætti fljótt á líta, að þau væru í þá átt að auka ekki friðun í ánum, heldur hið gagnstæða. En þau eru sem sagt til orðin vegna þess, að þarna þarf að sigla meðalveg og reyna að gera öllum sem réttast undir höfði sem hlut eiga að máli.

Þá minnist ég næst á þrjár brtt., þ.e. 7, 8,a og 9,b, sem allar lúta að því sama, að fyrirskipa, að þegar vissar framkvæmdir eru gerðar, sem geta virzt draga úr veiði á einhverjum stað, skuli leita um það álits veiðimálanefndar og stjórnar viðkomandi fiskræktarfélags eða veiðimálafélags, ef til er. Þetta hefur að vísu alltaf verið gert, en það gat litið svo út sem ætti að hætta því að hafa það ekki í l. og veiðimálastjóri og ráðh. ættu að vera alveg einráðir um slíkar framkvæmdir. Með þessu er það fyrirbyggt. Þarna er tekið fram, að það skuli leita álits viðkomandi stjórnar veiðifélags eða fiskræktarfélags, þegar slíkar ráðstafanir eru gerðar.

Þá minnist ég næst á brtt., sem eru tölul. 10, 12, 14, 22 og 30. Þar eru nánast orðaðar um greinar og gerðar skýrari án þess að breyta nokkru verulegu í efni frumvarpsins. Þó er það nú ekki alveg.

Um 10. brtt., við 27. gr. Það var skilyrðislaust bannað öllum að taka upp veiðivélar, sem legið hefðu niðri í 5 ár. Það þótti okkur ekki hægt. Það gat eyðilagzt lögn á einum stað og myndazt góð lögn skammt frá, og það mætti þá ekki taka upp aðstöðu á þessum góða stað, sem hefði komið fram. Það töldum við ekki hægt að banna. Sömuleiðis er það um ár, sem lengi hafa verið leigðar, eins og t.d. Langá í Mýrasýslu, en nú eru að koma aftur í hendur eigendanna. Í þau mörgu ár, sem eru miklu fleiri en 5, sem hún hefur verið leigð, hefur ekki verið veitt neitt í henni nema á stöng. Að eigendunum þá væri óleyfilegt að taka upp aðrar veiðiaðferðir eða búa til lagnir, ef þeir ekki leigðu hana út aftur, eftir að hún er komin í þeirra hendur, væri vitanlega alveg óviðunandi. Þess vegna var því líka bætt inn í, að ef einhver veiðiaðferð hefði legið niðri, hvort sem það væri lengur eða skemur en 5 ár, væri leyfilegt að taka upp aftur sams konar veiði og á sömu stöðum og áður hefðu verið í viðkomandi á.

Þá er það líka viðvíkjandi 12. liðnum. Þar er um ofur litla breytingu að ræða frá því, sem er í frv.; aðra en bara orðabreytingu. Þar er um þá breytingu að ræða, að núna stendur í frv., að eigi megi stunda veiði í straumvatni nema með einni ákveðinni aðferð, það má ekki á sama stað stunda netaveiði og t.d. stangarveiði. Við setjum þarna inn í ákvæði um, að það skuli aldrei vera skemmra en 100 metra millibil með árbakkanum, þar sem slíkar veiðar eru stundaðar. Ef lögn er út frá ákveðnum stað, þá má, eins og frv. er núna, stunda stangarveiði alveg á sama stað, standa bara á kláfnum og vera með stöngina þar. Því breytum við þannig, að það verður að vera 100 metra frá, hann má ekki vera nær lögninni en 100 metra með sína stöng, og það má segja, að það sé líka rýmkun á veiði frá því, sem í frv. er.

Hinar þrjár brtt., 14., 22., og 30., eru bara umorðun á greinum og breyta ekki efni.

Það er á nokkrum stöðum, sem eru breytingar, sem leiðir hverja af annarri, eins og reyndar sumar af þeim, sem ég hef nefnt, og eru til samræmingar við það, sem er annars staðar í frv. Þannig má segja um 29. gr., sem eru tvær brtt. víð, bæði a og b, að fyrri brtt. er ekki innifalin i öðru en því, að 3. töluliðurinn, sem við leggjum til að falli niður, er tekinn upp í 1. gr. Það er eiginlega engu breytt. Og brtt. 13, 14,a og 14,b eru allt brtt., sem gerðar eru til að hafa samræmi á milli þessara greina í frv. og annarra gr., sem ákvæði eru komin inn í áður og er ekki neitt sérstakt um að segja.

Þá er brtt. við 35. gr., 15,b. Það er brtt., sem var líka fallizt á til samkomulags við þá, sem töldu, að eins og ákvæðið er núna í frv. væri gengið um of á sinn rétt. Við leggjum til, að 3. tölulið 35. gr. verði breytt með brtt. okkar 15,b. Ég þarf eiginlega að athuga alla greinina, til þess að þið fylgizt með þessu ákvæði, sem við setjum þarna inn og er mikilsvert mjög.

Greinin er í mörgum liðum, 35. greinin, og í henni eru hin svokölluðu bakkaákvæði m. m. Það er ákveðið þar, að fyrst og fremst skuli telja lengd veiðivélar frá bakka og teist netið lagt frá bakkanum, þótt það sé lagt í ár langt frá bakka, og næsta lögn megi ekki vera nær en 100 metra og þó aldrei nær en 5-föld lengd næstu veiðivélar. Þessu breytum við nú og höfum þannig, að ef lagnir eru andspænis hvor annarri í mjög breiðum ám, megi vera beint á móti, þó að það séu ekki 100 metrar eftir ánni upp og ofan á milli bilanna. Þar er líka ákvæði um það, að leiðarar, sem liggi út frá lögn eða út frá neti, teljist sem hluti af lögninni, og enn fremur, að það megi ekki vera nær lögn en 100 m upp og ofan ána. Afleiðingin af þessu er sú, að þegar lagt er ekki út frá bakka árinnar, heldur yfir einhverja kvísl, sem er einhvers staðar í ánni, þá á lögnin að teljast frá bakkanum alla leið. Það, sem á milli er, eru þá venjulega eyrar, sem upp úr standa um fjöru. Þessa veiði er eingöngu um að ræða, þar sem sjór fellur upp í árnar nokkuð langt og mikill hluti af árfarveginum er þurr, þurrar eyrar, um fjöruna, þó að það sé sjór yfir því öllu eða vatn yfir því öllu um flóðið.

Annað ákvæði í frv., sem við höfum ekki lagt til að breyta, er það, að það megi ekki vera styttra bil á milli lagna en þessir 1000 m, sem ég er búinn að nefna áður, og þó aldrei styttra en nemi fimmfaldri lengd veiðivélanna. Nú er það svo, að þegar þessar veiðivélar eru komnar út í miðjan Borgarfjörð, mitt á milli t.d. Hvanneyrar og Einarsness, þá er leiðin frá bakkanum, sem veiðivélin telst frá eftir frv., og til hennar og leiðara orðin svo löng, að það er langt upp eftir ánni, þangað til næsta veiðivél má koma. Þetta leiðir til þess, að ýmsir af þeim, sem stundað hafa veiði sérstaklega í Borgarfirði og verið með netin þvert og endilangt um kvíslarnar, sem vatn er í á fjörunni, hingað og þangað um fjöruna, stundum meira en kílómetra frá bakkanum, sem veiðivélin telst frá, — þetta leiðir til þess, að ýmis af þessum netum, sem þarna liggja, hverfa. Og eigendurnir, sem hafa stundað þar veiði, missa þar með möguleikana á að stunda hana áfram. Ég skal ekki fara með neinar tölur um, hvað margir þessir staðir eru, það mun ekki fullrannsakað enn, og líklegt er, að það komi ekki eins mikið að sök, að menn missi þarna veiði, eins og ýmsir ætla. Engu að síður verður það alltaf svo, að nokkrar lagnir þarna eða nokkur net þarna verða að hverfa.

Nú föllumst við á það, að ef það reynist rétt við rannsókn málsins, að við þetta missi menn meira en helminginn af sinni veiði, skuli þeir fá bætur fyrir og þær bætur fara fram eftir því, sem fyrir er mælt í 106. og 107. gr.

Nú vil ég að vísu segja það, að ég féllst á þetta og fylgi því þar af leiðandi. En ég tel mjög hæpið samt sem áður, þó að ég geri það, að það sé rétt. En ég geri það samt. Og það stafar af því, að mikið af þessari veiði er tiltölulega nýtt og mennirnir hafa ekki á neinn hátt keypt sínar jarðir fyrir verð, sem svarar til þess, að þessi hlunnindi væru til, og því ekkert lagt fram fyrir þessa veiði, sem er sem sagt mjög nýlega til komin. Það er því mikil spurning, hvort þeir eiga nokkurn siðferðilegan rétt á að fá bætur, þó að þeir missi þarna veiði, sem þeir hafa ekki keypt, og enn er spurning, hvort þeir eigi ekki að geta fært þær nær bökkunum í aðra ála og haft eins mikið gagn af þeim þar og þeir hafa núna. En það er ekki því að leyna, að þessi veiði þarna í Borgarfirðinum er talin af öllum - og það sýnir sig líka á þeirra laxinnleggi — taka mikinn hluta af laxinum, sem á að fara upp í árnar, og er þar með útilokað að hrygna og halda stofninum við. Með tilliti til þeirrar nauðsynjar, að sem mest af laxinum komist upp á sína hrygningarstaði og nái að hrygna þar, hef ég fallizt á það, og nefndin er sammála um það, — kannske misjafnlega ánægð með það, en sammála samt að leggja til, að þarna séu veittar bætur, ef það sannast með mati, að þeir missi helminginn af sinni veiði, sem ég veit að verður ákaflega erfitt fyrir hvern sem það metur að gera, því að það kemur svo margt þar til greina. Það er misjöfn fiskgengd frá ári til árs. Það er nú eitt, sem kemur til greina. Enn er það, að enginn er kominn til að segja, hverju þeir geta náð upp aftur með tilfærslu á lögninni og að færa hana nær landinu, þannig að hún komi ekki í bága við þetta bakkaákvæði. Þá er þessi veiði dýr, að vera með þessi net og þessar fyrirstöður úti um allan fjörð og þurfa að vaða kvíslar og ár um fjöruna í hvert sinn til að vitja um; það er ákaflega erfitt og dýrt. Og þó er það allra verst, að þegar flóð koma, eins og koma stundum í Hvítá, þá er allt saman farið og menn verða að byrja á nýjum stofni með allt saman aftur og aftur úti um allan fjörð, og það er dýrt.

En sem sagt, það er í þessari till. okkar fallizt á, að þarna sé lagt til að bæta aflatjón, sem af þessu stafar, séu þau það stór, að helmingur veiði tapist. Bæturnar hlíta að öðru leyti ákvæðum 106. og 107. gr. í frv., sem gera ráð fyrir því á öðrum vettvangi, að það geti komið fyrir, að það þurfi að bæta missi af veiði.

Næstu tvær till., sem ég minnist á, 17,b og 27,b, eru dálítið svipaðs eðlis og þó ekki nema að nokkru leyti. Fyrri till. er sett inn eftir ábendingum frá Mývetningum. Þar er það venja, að allir, sem búa í sveitinni, hafa rétt til að dorga upp um ís á vatninu á veturna, og eins og frv. er, gat litið svo út sem þessir menn hefðu rétt til að sitja alla félagsfundi og taka þátt í atkvgr. um öll mál, sem félagið varðaði. Þar sem þeir ekki hafa annan rétt til veiði í vatninu en þennan eina, dorgveiðina að vetrinum, þótti okkur ekki rétt að láta þá hafa atkvæðisrétt um önnur mál á félagsfundum en það, sem hana snerti. Þess vegna takmörkum við atkv. þeirra við dorgveiðina eina.

Hitt er það, að í frv. vantaði ákvæði um, hvernig fara ætti að, þegar samin yrði arðskrá og menn gætu ekki orðið á eitt sáttir. Það eru ákvæði um það, að til þess að arðskrá öðlist gildi, — en arðskrá er það, sem farið er eftir, þegar úthlutað er arði eða félagsveiði og reyndar líka þegar lagður er á félagsmenn kostnaður, sem kann að verða einhver og verður oft einhver, — þá er það ákveðið fyrst venjulega af einhverri nefnd, sem gerir till. um það, svo fer það á félagsfund, og þar er það samþykkt, ef 2/3 hlutar eru með samþykktinni. En aftur vantaði ákvæði um, hvernig fer, ef ekki nást 2/3 á fundi og hún fæst ekki samþykkt, fundur er ekki nógu vel sóttur eða eitthvað i veginum, og þá bætum við inn í till. um það, að aftur skuli boðað til fundar á sama hátt og yfirleitt er ákveðið að boða til fundar, til þess að löglegt sé, og þar megi einfaldur meiri hluti ráða. Ef meiri hluti næst þar með arðskránni, öðlast hún gildi. Um þetta vantaði ákvæði í frv., og þetta er þess vegna tekið þarna upp.

Þá kem ég að nokkrum brtt., þ.e. tölul. 17,c, 19 og 25, sem eru við 45., 48. og 65. gr. Tvær brtt., 17,c og 25, eru ekki í öðru fólgnar en því, að við ákveðum, að i staðinn fyrir að boða fund skriflega, þá sé líka löglegt að boða hann með símskeyti. Það má kannske segja, að boðað með símskeyti sé alltaf skriflegt boð, en í mæltu máli er nú dálítið annað skilið við það samt að boða fund með símskeyti heldur en að boða hann með bréfi. Þess vegna er þessu bætt inn og öðru ekki.

Viðvíkjandi 48. gr. er aftur á móti nokkuð annað að segja. Það er nú svo, að þegar stofna á veiðifélag, geta fylgt því, bæði veiðifélagi og fiskræktarfélagi, dálítil útgjöld, og þá gerði frv. ráð fyrir því, að eigandi jarðarinnar væri alltaf boðaður. Ég er áður búinn að nefna það, að við gerðum ekki ráð fyrir því, að eigandinn sé kallaður, ef það er erfðaleiguhafi, sem býr á jörðinni. Hér gerum við líka ráð fyrir því, að það geti komið umboðsmaður í staðinn fyrir eigandann, og gerum þó ráð fyrir því, að bæði jarðeiganda og ábúanda sé boðaður fundurinn og að yfirleitt gefi svo eigandinn einhverjum umboð til að mæta fyrir sína hönd. En ef hann gefur engum umboð og liggur ekkert fyrir um það, þá fari ábúandinn með atkvæðisrétt á fundinum. Þessi brtt. felur þetta í sér og annað ekki. Ef jarðeigandi hefur gefið skriflegt umboð til að fara með atkvæði sitt á stofnfundi eða fundi í fiskræktarfélagi eða veiðifélagi svo og ef ábúandi, sem ætti að mæta á slíkum fundi, gæfi öðrum umboð til þess að mæta fyrir sig, má það ekki vera eldra en þriggja mánaða. Það virðist engin ástæða til þess, að maður fari með atkvæði manns ár eftir ár, þó að ólík málefni liggi fyrir til úrlausnar hvort árið. Þess vegna setjum við inn ákvæði um, að umboðin skriflegu megi aldrei vera eldri en þriggja mánaða.

20. og 21. og 28. og 29. töluliðir snerta fastara skipulag á staðfestingu samþykkta ráðherra á reglum og samþykktum félaga um fiskrækt og veiðifélög. Það er vefengingarréttur og málskotsfrestur, sem þar er um að ræða.

Þá var dálítið breytt 70. gr. með till. okkar 27,a. Það er að vísu ekki mikið, en það er nú samt gert til þess að þeir, sem þar eiga hlut að máli, fái dálítið rýmri hendur. Þetta snertir samningu arðskrár. Það hefur verið svo í samningu arðskrár undanfarið, að það hefur verið langmest tillit tekið til veiðanna á hverri einstakri jörð, og þá hefur komið tvennt til, sem gerir þetta nokkuð hæpið, annars vegar að það hafa legið fyrir misréttar upplýsingar um það, hve mikil veiðin hafi verið síðustu árin eða 10 árin eða hvað menn hafa nú viljað miða við, og það atriði er þó út af fyrir sig, því að það er atriði, sem viðkomandi mönnum er sjálfum að kenna, ef þeir hafa stolið svo eða svo miklu af veiði undan framtali og þess vegna kemur jörð þeirra í skökku ljósi fyrir þá, sem eiga að semja arðskrána. Hitt er aftur miklu alvarlegra, og það er það, að veiðifélagsstofnun á einhverjum stað, sem svo á að fara að semja sína arðskrá, getur orðið þess valdandi, að veiði á einhverri jörð, sem kannske áður hefur veitt eitthvað þó nokkuð, við skulum segja í ádrátt, þar séu engir stangarveiðihyljir til og líkindi fyrir því, ef á að taka t.d. stangarveiði víðkomandi ár, þá geti sú veiði ekkert nýtt hana, — og öfugt geta beztu stangarveiðihyljirnir, sem menn helzt vilja veiða í, verið á stöðum, þar sem annars eru hrygningarstaðir og ekki bar að veiða á. Þess vegna var þetta í greininni ákveðið þannig, að þegar arðskrá væri samin, skyldi taka tillit til aðstöðu við netaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni og til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða. Svona er greinin. Það var fellt alveg út úr henni að taka tillit til veiði áður fyrr. Það var fellt út úr henni að taka tillit til veiði síðustu fimm ára eða síðustu 10 ára o.s.frv., en ætlazt til, að það væri fyrst og fremst tekið tillit til þessa, eftir því sem matsmönnunum þætti við eiga á hverjum stað. Þetta var þannig. Við leggjum til, að sett sé framan við netaveiði o.s.frv., að þeir skuli taka afstöðu m.a. til þessara hluta, sem upp eru taldir. Það er gefið í skyn, að meira rúmist í því heldur en upptalningin ein segir og þar með geti þeir, sem í slíku mati eru og eiga að framkvæma það, tekið tillit til veiðinnar undanfarin ár, eftir því sem þeim þykir ástæða til og við eiga.

Þá eru breytingar við 93. gr., 94. gr. og 95. gr. Þær eru allar eins að efni til, um það, að samhliða því sem veiðimálastjóri á að hafa eftirlit og tillögur um innflutning á lifandi fiski eða hrognum, skuli yfirdýralæknir líka koma til. Það hefur verið framkvæmt svo undanfaríð, en þótti réttara að setja það inn í lögin sjálf.

Þá er settur nýr kafli inn um álaveiðar, sem við færum til, setjum á annan stað en ætlazt var til í frv. Þetta byggist á því, að okkur fannst eðlilegra, að hann væri þarna. En að þessi álaveiðikafli er kominn inn í frv., stafar aftur af því, að álaveiði er að byrja hér á landi og það er hægt að nota við hana net, sem jafnframt veiða lax.

Það þykir þess vegna rétt að hafa kaflann þarna inni, til þess að hægt sé, ef ástæður þykja til, að grípa inn í og stöðva þær veiðiaðferðir við álinn, sem líklegar þykja til þess að spilla laxveiðinni.

Þá er loks brtt. við 101. gr. Það er svo ákveðið nú, að í veiðimálanefnd eigi sæti stjórnskipaður maður með sérþekkingu, sem reyndar er nú enginn núna, því að Pálmi Hannesson hefur fallið frá, sem var það áður, og einn maður kosinn frá Búnaðarfélagi Íslands og annar frá Fiskifélaginu, Í lögunum er svo fyrir mælt, að ef það verði stofnað samband fiskiræktar- og veiðifélaga, skuli menn koma frá þeim í nefndina. Okkur þótti réttara, ef þessi félög mynduðu ekki bæði samband samtímis, að þá væri tekið fram í lögunum sjálfum í staðinn fyrir hvorn hvor þessara tveggja manna kæmi. Breyting okkar er ekki önnur en sú, að við erum að reyna að slá varnagla við því, ef annað félagið verður stofnað og annað ekki, þá sé ákveðið, í staðinn fyrir hvorn hvor skuli koma, sem annars hefði náttúrlega legið á valdi ráðherra og kannske ekki þurft sérstök ákvæði um, en okkur þótti það samt sem áður réttara.

Við sjáum á þessu, að þó að þessar till. séu 37 talsins, eru þær margar afleiðing hver af annarri og um sama efnið og ekki veigamiklar að neinu leyti, þó að ég haldi sjálfur, að þær séu allar til bóta.

Við leggjum til, að frv. sé samþykkt með þessum brtt., og erum sammála um það. Einn nm., hv. 2. þm. Árn., gerir við þetta meiri brtt. Hann er hér með fjórar till. á þskj. 327 og gerir sjálfsagt grein fyrir þeim. Ég skal ekki fara út í þær nú, enda þótt ég hafi, vegna þess að við erum með brtt. við eina gr. líka, orðið að minnast á hana jafnframt, en heyri á hans framsögu.

Annar nm., Sigurvin Einarsson, þm. Barð., hafði tilhneigingu til að vera með einni till., sem síðari þm. Árn. talaði jafnvel um að flytja. Ég sé, að hún hefur ekki komið hér fram, og þykir vænt um það, því að hún var að mínum dómi til óþurftar. Að öðru leyti skal ég ekki um hana tala. Hún liggur ekki fyrir.