12.03.1957
Efri deild: 68. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

83. mál, lax- og silungsveiði

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara og vil gera grein fyrir, í hverju hann er fólginn.

Það var um 107. gr. í frv., sem ég var ekki sammála öðrum nefndarmönnum, og hv. frsm. drap hér á og taldi, að það væri til óþurftar sú skoðun, sem ég hélt fram um þá grein, þ.e.a.s. að breyta henni í þá átt, sem ég fór fram á í n. og ekki fékkst samkomulag um.

Í 107. gr. segir:

„Nú hefur veiðieigandi, er veiði átti, áður en lög þessi komu til framkvæmda, misst hana með öllu fyrir þá sök, að lögin fyrirmuna honum að nota þá veiðiaðferð, er hann áður mátti einni við koma, og á hann þá kröfu til skaðabóta eftir mati, sbr. 106. gr.

Ég get ekki fylgt þessari gr. óbreyttri, að þeir einir geti fengið bætur, sem missa veiði að fullu. Þó að maður hafi misst t.d. 90% af veiðinni vegna laganna, þá á hann engar bætur að fá, en ef hann hefur misst 100%, má hann fá einhverjar bætur.

Ég vil minna í þessu sambandi á þá brtt., sem n. í heild féllst á að gera við 35. gr. Þar er svo fyrir mælt í brtt., að missi maður veiði vegna ákvæðis 3. liðs í 35. gr., þ.e. bakkaákvæðið, sem ég hygg að langmestum ágreiningi hafi valdið og muni valda í þessu máli, þá skuli slíkur veiðieigandi fá bætur, ef hann missir helming veiðarinnar eða veiðiaðstöðunnar eða meir.

Hv. frsm. gat þess hér áðan, að það hefði nú ekki eiginlega verið að hans skapi, að slík breyting var flutt, og ég veit, að hann segir það satt, en samt varð nú samkomulag um þetta í n. Ég fæ því ekki séð, að það sé nein goðgá að flytja þá líka brtt. við 107. gr., að þeir menn, sem tapa samkv. þeirri gr. allri sinni veiði, fái bætur.

Ég bjóst við, að hv. 2. þm. Árn. mundi flytja um þetta brtt., en sé, að hann hefur ekki gert það. Hins vegar munum við vera sammála um þetta atriði. Ég vil því leyfa mér að flytja hér skriflega brtt. við 107. gr., þannig, að í stað orðanna í 1. málslið „misst hana með öllu“ komi: misst hana að hálfu eða meir, — og sýnist mér þá, að það sé orðið hliðstætt um þessa gr. og 35. gr., að nokkrar bætur eigi að fást fyrir tapaða veiði vegna þessara laga, þótt ekki tapist nema helmingur veiðarinnar. Þetta fyndist mér sanngirnismál og engin fjarstæða og alls ekki til óþurftar.

Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða um þetta mikla frv., sem ég veit að muni valda ágreiningi og ég veit líka að muni koma verulega við hagsmuni ýmissa veiðieigenda hér í landinu, en eftir að ég hef kynnzt þessu frv. mjög rækilega á 16 eða 17 fundum nú að undanförnu, þá sé ég það, að frv. er til mikilla bóta sem veiðivernd í landinu og veiðieigendum yfirleitt hagsmunamál. En hinu er aftur á móti ekki að neita, að þeir, sem veiði eiga við árósa, hafa stundað hana og það með miklum árangri, verða fyrir verulegum skakkaföllum af þessari löggjöf, og það er með tilliti til þess, að ég vil fá þessa breytingu á 107. gr. og studdi þannig fast í n., að breyting yrði gerð á 35. gr., sem fékkst fram, en þessi breyting aftur á móti ekki.

Ég vil því leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. í þeirri von, að hún fáist rædd um leið.