12.03.1957
Efri deild: 68. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

83. mál, lax- og silungsveiði

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ég get sagt það um þá skriflegu brtt., sem var nú að koma fram við frv., að ég er henni fylgjandi, ef hennar verður þörf. En ef brtt. mín við 35. gr. verður samþykkt, verður þessi skriflega brtt. óþörf, en verði mín brtt. felld, þá er skriflega till. til bóta, og þá mun ég fylgja henni.

Frv. það um lax- og silungsveiði, er hér liggur fyrir, má um sumt teljast og þó að nokkuð miklu leyti til bóta frá því, sem nú er í lögum um þetta efni, en þó í einstökum atriðum, sem miklu varða, svo gallað, að eigi verður við unað. Má í því sambandi benda á, að mjög er þrengt að kosti bænda, sem enn stunda að einhverju leyti netaveiði, hvort sem um er að ræða lax- eða silungsveiði. Þá er annað atriði það, að veiðimálastjóra er fengið svo mikið vald, að nærri liggur, að hann sé einráður í öllum veiðimálum, svo að segja má, að hann geti hagað sér að eigin geðþótta í þessum málum yfirleitt. Virðist viðurhlutamikið að fá einum manni svo mikið vald í jafnþýðingarmiklu máli og hér er um að ræða.

Eftir að ég hafði kynnt mér frv. og álit ýmissa veiðieigenda á því, varð mér ljóst, að það yrði að taka miklum breytingum, til þess að það mætti heita viðunandi lausn eða til bóta á gildandi lagaákvæðum um veiðimál. Ég gekk því ásamt meðnm. mínum í landbn. að því að fara rækilega yfir það og með því að gera tilraun til að lagfæra það, eftir því sem kostur var.

Afleiðing af þessu starfi n. var það, að hún stendur öll að 37 brtt. við frv., og eru þær á þskj. 324 og hefur nú verið lýst rækilega af frsm. n., 1. þm. N-M. Eins og hann tók fram, eru nokkrar af þessum till. aðeins leiðréttingar og til samræmingar innbyrðis í frv., en aðrar snerta efni málsins, og verð ég að segja, að þær eru flestar eða allar til bóta, þó að ég hefði í mörgum tilfellum óskað eftir, að þær gengju lengra í réttlætisátt en raun er á.

En um nokkrar veigamiklar breytingar, sem ég tel, náðist ekki samkomulag innan n. Ég flyt því fjórar brtt. á þskj. 327, og tel ég a.m.k. eina þeirra mjög þýðingarmikla og mikilvæga og kem að því seinna, en ég legg áherzlu á að gera tilraun til að fá þær allar samþykktar. En þó að brtt. mínar verði felldar nú við þessa umr., mun ég samt sem áður fylgja frv. til 3. umr. og mun þá ef til vill á milli umræðna gera tilraun til að koma fram nokkurri breytingu, sem aðallega á við hinn lengda friðunartíma, sem frv. fjallar nú um og hefur inni að halda, en ég tel með því allt of langt gengið í þá átt að þrengja kosti þeirra manna, sem veiðarnar stunda og þetta ákvæði kemur mest við.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um brtt. mínar á þskj. 327.

Fyrsta till. er við 13. gr., að 1. töluliður falli niður. Þessi töluliður, sem ég legg til að falli niður, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hver sá, sem kaupir lax eða silung, veiddan innanlands, til sölu innanlands eða utan, og svo gistihús, matsöluhús, sjúkrahús og þess háttar stofnanir, er kaupa þessar vörur, skulu á mánuði hverjum gefa skýrslu um þessi kaup. Ráðherra setur nánari reglur um slíka skýrslugerð.“

Eins og frsm. n. tók fram, flytur n. einnig brtt. við þessa grein, og hún er í því fólgin, að upphaf 1. tölul. orðist svo: „Ráðherra er heimilt að fyrirskipa,“ — m.ö.o., að það er ekki gert að beinni skyldu að gera þessar skýrslur, heldur er það heimild fyrir ráðherra að láta gera þær, og lýsti hv. frsm. sjónarmiði n. viðvíkjandi því.

Ég vil segja það, að verði brtt. mín felld, mun ég að sjálfsögðu fylgja till. n., en ég var ekki ánægður með að hafa það á þann hátt, heldur álít ég, að hér sé um slíkt mál að ræða, að það sé ástæðulaust að hafa það í frv.

Samkv. 12. gr. frv. er hver sá, sem veiði stundar, skyldur að gefa skýrslu um veiðina. Þetta eru hinar venjulegu skýrslur, veiðiskýrslur, sem alltaf hafa verið gefnar og eru gefnar, að sá, sem veiðir, er skyldugur að gefa skýrslu um sína veiði. Eru það hinar lögákveðnu veiðiskýrslur. En í 13. gr. er það nýmæli, að þeir, sem kaupa lax eða silung, skuli nú einnig gefa skýrslu, en það eru — auk verzlana — gistihús, matsöluhús, sjúkrahús, eins og segir í grg. Hvernig þetta kæmi út og einnig í framkvæmd, sést bezt, ef tekið er dæmi. Við skulum t.d. taka dæmi af manni, sem veiðir 20 laxa. Hann gefur skýrslu um það, að hann hafi veitt þessa fiska og gefið skýrsluna eftir því, sem hann er skyldur til. Nú selur þessi veiðimaður þessa 20 laxa í verzlun. Verzlunin á að gefa skýrslu um, að hún hafi keypt þennan lax. Verzlunin selur aftur 10 laxa gistihúsi og 10 laxa til sjúkrahúss. Báðir þessir aðilar gefa einnig skýrslu um það, að þeir hafi keypt þennan lax. Ég sé ekki annað en afleiðingin af þessu verði sú, að þarna sé komið á opinberar skýrslur, að veiðzt hafi 20 fiskar, en þeir orðnir 40, þegar fram koma skýrslurnar um söluna á þessum sömu fiskum. Einstaklingar, sem kaupa af veiðimönnum, eru ekki skyldir að gefa skýrslu um sín kaup. — Að þessu athuguðu finnst mér það liggja í augum uppi, að svona ákvæði séu óþörf í lögunum, og legg því til, að ákvæðið verði fellt niður.

Þá kem ég að brtt. minni við 19. gr., á þskj. 327, og brtt. er svofelld: „Í stað orðanna „84 stundir .... þriðjudagsmorguns kl. 9“ í 1. tölulið komi: 60 stundir á viku hverri frá föstudagskvöldi kl. 9 til mánudagsmorguns kl. 9.

Samkv. núgildandi lögum er friðunartími, eftir að laxveiði og silungsveiði byrjar, 60 stundir í viku hverri. M.ö.o.: þeir, sem netaveiði stunda, hvort sem þar er um lax eða silung að ræða, taka upp sín net á föstudagskvöldum og mega ekki leggja þau aftur fyrr en á mánudagsmorgun, þ.e.a.s. eftir 60 klukkutíma. Nú er það samkv. frv., að nú skulu þessir sömu aðilar taka net sín upp á föstudagskvöldum og ekki leggja þau aftur fyrr en á þriðjudagsmorgni, m.ö.o., friðunartíminn er lengdur úr 60 klst. í 84. Þá er það orðinn helmingurinn af víkunni, sem þessi veiðitæki mega ekki liggja. Nú langar mig að fara um þetta nokkrum orðum og athuga, hvort þörf er á þessum friðunartíma, þessari lengingu á friðunartíma, sem ekki er nokkur vafi á að hefur afskaplega mikla fjárhagslega þýðingu fyrir þá menn, sem enn stunda netaveiði, hvort sem um lax eða silung er að ræða.

Lax mun nú aðallega vera veiddur í net í neðri hluta Hvítár í Borgarfirði. Þar veiða bændurnir sjálfir hver fyrir sínu landi. Er þar bæði um að ræða veiði frá bakka árinnar og í álum á ósasvæði hennar.

Þór Guðjónsson veiðimálastjóri ræðir um þetta í ritgerð sinni, sem fylgdi frv., sem nú er til umr. hér, eins og það var lagt fyrir s.l. þing, en fylgir því ekki núna, eins og hv. frsm. tók fram, þar sem hann talar um veiðiálagið á laxastofnana, og ræðir hann þá um Hvítá í Borgarfirði. Þessi kafli í ritgerð veiðimálastjóra er um veiðiálagið á laxastofnana. Þar gerir hann fyrst grein fyrir því og skýrir frá því, að á þeim 17 árum, sem þessi skýrsla nær yfir, sem hann talar um, þ.e. frá 1936 til 1942, sé veiðiálagið í efri hluta Elliðaánna — en þar er eingöngu veitt á stöng 35.25% af stofninum, en þetta mun vera eina veiðisvæðið á landinu, þar sem hægt er með nákvæmni að segja um, hvað veitt er mikið af stofninum, vegna þess að fiskurinn, sem í þetta svæði fer, er talinn og sömuleiðis eru haldnar skýrslur um allt, sem veiðist. Þarna er veiðiálagið sem sagt að meðaltali 35.25%, allt tekið á stengur. Hæst hefur þetta farið í 57.8% og minnst 26.9%.

Þá segir veiðimálastjóri, að þetta megi teljast hófleg veiði, vegna þess að talið sé, að óhætt sé að taka allt að helmingi fiskstofns úr ám, án þess að um ofveiði sé að ræða.

Þá segir hann enn fremur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í flestum öðrum ám, þar sem stangarveiði er stunduð eingöngu, eru líkur fyrir því, að veiðin sé einnig hófleg, þó að gögn séu fá þar um.“ Þetta vill segja, að á öðrum veiðisvæðum, þar sem veiði er eingöngu stunduð á stöng, er ekki hægt að segja um, hve mikið magn er tekið af veiðistofninum, vegna þess að um hann er ekki vitað.

Og áfram heldur veiðimálastjóri:

„En fróðlegt er að athuga, hvernig veiðiálagi er háttað á vatnasvæðum, þar sem bæði er veitt á stöng og í fastar veiðivélar. Vatnasvæði Hvítár i Borgarfirði skal tekið til athugunar í þessu sambandi og veiðiskýrslur þaðan frá árunum 1947–1954 lagðar til grundvallar. Ef gert er ráð fyrir, að álag stangarveiði á laxastofnana í Borgarfjarðaránum sé það sama og í Efri-Elliðaánum, eða 35.25%, þá mundi meðalveiði í Borgarfjarðaránum hafa numið 61% af laxastofninum á árinu 1947–1954, og 39% af þeim hefðu orðið eftir i ánum til að hrygna. Væri stangarveiðiálagið hins vegar 50% af stofninum í ánum, þá næmi meðalveiðin 74.2% og 25.8% fengju tækifæri til að hrygna.“

Og áfram segir:

„Hér var reiknað með meðalveiði 7 ára tímabils, en að sjálfsögðu er hlutfallið milli veiddra laxa og þeirra, sem eftir verða í ánum, mismunandi frá ári til árs, og fer það að verulegu leyti eftir því, hvernig tekst til með veiðina það og það árið. Ástæða er til að ætla, að ef mikið er veitt af litlum árgangi, hrygni ekki nægjanlega margir laxar til að sjá fyrir eðlilegu viðhaldi stofnanna. Afleiðing af þessu verður sú, að afkomendurnir verða fáir og veiðin rýr á slíkum árgangi í einstökum ám á vatnasvæði Hvítár. Þetta gæti verið ástæðan fyrir hinni lítilfjörlegu veiði, sem var í Grímsá 1950 og 1951 og í Þverá 1954.“

Og síðan bætir veiðimálastjórinn við: „Virðist teflt á tæpasta vað með eðlilega viðkomu laxastofnanna á vatnasvæði Hvítár í Borgarfirði með núverandi veiðiálagi.“

Sýnilegt er, að þetta er alveg rétt. Ef ekki má taka nema helming af laxastofni í ám, má veiði ekki komast upp í 74.2%, svo að aðeins 25.8% séu eftir til að hrygna. Ég hef ekki séð, að veiðimálastjóri hafi minnzt á, að um ofveiði á laxi væri að ræða annars staðar en þarna, í Hvítá í Borgarfirði. En það er aftur fróðlegt að bera þetta saman við það, sem mþn. segir í sínum athugasemdum við lagafrv. Nefndin segir:

„Nefndarmenn urðu á einu máli um það, að lög um lax- og silungsveiði hefðu eigi náð því meginmarkmiði sinu að auka fiskstofna í veiðivötnum. Veldur því öðru fremur, að fastara er gengið að veiði en fyrirsjáanlegt var, þá er lögin voru sett, og með veiðnari tækjum. Er svo komið í ýmsum veiðihverfum, að ákvæði laganna veita engan veginn nægilega vernd gegn ofveiði, sem jafnvel kynni að leiða til auðnar. Telja nm. brýna nauðsyn bera til þess að stemma stigu við slíku og hafa í því skyni samið strangari ákvæði en í gildandi lögum um friðun gegn veiði, stangarveiði sem neta, fastar veiðivélar, stangafjölda, lax- og silungsveiði í sjó.“

Af þessu er sýnilegt, að þetta hefur verið sjónarmið n., er hún samdi þetta frv. Og vegna þessa, sem segir hér, að lagaákvæðin, sem í gildi eru, veiti engan veginn nægilega vernd gegn ofveiði, sem jafnvel kynni að leiða til auðnar, vegna þessarar skoðunar eru ákvæðin sett í þessu frv. svo miklu strangari en ég álít vera þörf á, a.m.k. hvað sum vatnasvæði á landinu snertir. Það getur vel verið, að eitthvað þurfi að vernda fiskstofnana á vatnasvæði Hvítár í Borgarfirði, eftir því sem veiðimálastjóri segir hér, en það á ekki við alls staðar.

Þarna er gefið í skyn, að veiðiálagið sé ef til vill of mikið, og skal því kippt í lag á kostnað þeirra bænda, sem netaveiði stunda, með því m.a. að leyfa þeim ekki að hafa net sín liggjandi nema helming af viku hverri, auk annarra kvaða, sem á þá eru lagðar í þessu sambandi. En það er ekkert minnzt á að takmarka stangarveiðina á efri hluta vatnasvæðisins, og er þó seinna dæmi veiðimálastjóra miðað við, að 50% af stofninum sé tekið á stöng. Með þessu finnst mér að veiðimálastjórinn, sá góði maður, gefi í skyn, að stangarveiðiálagið geti orðið nokkuð mikið í hinum grunnu, tæru bergvatnsám veiðisvæðanna, þar sem laxinn er kominn á staðinn til að hrygna. Mér finnst því, að það beri einnig að hafa þetta í huga, þegar verið er að setja lög, sem vernda eiga fiskstofninn fyrir ofveiði.

Annars er vert að benda á, að veiðimálastjóri bendir ekki á fleiri staði á vatnasvæðum landsins, eins og ég tók fram áðan, þar sem tefit sé á tæpasta vað með veiðiálag.

Þetta var það, sem átti við vatnasvæði Hvítár í Borgarfirði. En á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár í Árnessýslu gegnir nokkuð öðru máli en um Hvítá í Borgarfirði og vatnasvæði hennar. Í Ölfusá er ekki um neina ósaveiði að ræða. Veiðifélag Árnesinga nær yfir allt vatnasvæðið. Hefur það haft netaveiðina sjálft undanfarin ár og veitt á nokkrum stöðum og einnig stundum með fyrirstöðum, sem ekki hefur heppnazt vel.

Veiðifriðunartíminn er nú lengdur í 84 tíma á viku samkv. frv., og ef það verður samþykkt, mun félagið tæplega geta haft þessa tilhögun á starfsemi sinni áfram, vegna þess að það verður að hafa fastráðna starfsmenn við veiðarnar, og eins og kaupgjaldi er nú háttað, er dýrt að hafa menn iðjulausa hálfa vikuna. En hætti veiðifélagið, er óvist, hvað við tekur á þessum stað.

Bændur við Ölfusá og Hvítá hafa sjálfir silungsveiðina fyrir löndum sínum, en silungsveiði er góð á þessu vatnasvæði og arðvænleg. Verða bændur fyrir tilfinnanlegum tekjumissi, ef friðunartíminn verður lengdur eins og frv. gerir ráð fyrir. En að þessu athuguðu verður manni að spyrja: Er nauðsynlegt að þrengja kosti þeirra svo sem frv. gerir ráð fyrir? Er fiskstofninn þverrandi, og ef svo er, er þá um ofveiði að ræða? Ég leyfi mér að svara þessum spurningum, hvað þetta veiðisvæði snertir, neitandi.

Í áminnztri ritgerð segir veiðimálastjóri i kafla, þar sem hann ræðir um fiskræktarfélög og veiðifélög, hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Veiðifélög eða fiskræktar- og veiðifélög, sem eru 42 talsins á landinu, hafa flest skipulagt veiði á félagssvæðum sínum og unnið að fiskrækt, og hafa þau yfirleitt orðið til mikils gagns. Veiði hefur komizt í fastar skorður, veiðivötnin hlotið betri meðferð eftir en áður. Við stofnun veiðifélaga hefur verið breytt um veiðiaðferðir, netaveiði hefur viðast hvar verið lögð niður og stangarveiði tekin upp í hennar stað. Jafnframt hefur stangafjöldi og veiðitími verið takmarkaður í samningum og flestar ár leigðar til nokkurra ára í senn. Víðast hvar hefur því verið dregið úr veiðiálagi á árnar og það orðið jafnara en áður, enda var eigi vanþörf á því.“

Þetta, sem þarna segir og ég nú las upp, getur alveg átt við veiðisvæði Hvítár og Ölfusár. Laxveiði í net má segja að sé lögð niður á móti því, sem áður var. Ósaveiði er úr sögunni. Stangarveiði hefur aukizt, vegna þess að veiðifélagið hefur leigt hana út sérstöku félagi. Fiskstofninn hefur aukizt verulega hin síðari ár, eftir því sem veiðimenn víð árnar segja sjálfir og veiðiskýrslur sýna, enda viðurkennt af veiðimálastjóra, þegar hann var beint spurður um þetta atriði á nefndarfundi, á meðan málið var til meðferðar í landbn. hér.

Að þessu athuguðu spyr ég aftur: Hvers vegna á nú að þrengja kosti veiðifélagsins og bænda, sem silungsveiðina stunda, og vega þannig að þeim, sem veiðirétt eiga á þessu svæði, með tveim vopnum í senn? Arður þeirra frá veiðifélaginu rýrist stórkostlega og silungsveiðin einnig. Er þetta ekki að ganga óþarflega nærri eignarrétti manna að þarflausu? Eða er þetta gert vegna hins nýja viðhorfs, sem skapazt hefur með hinni auknu borgarmenningu, sem veiðimálastjóri minnist svo skemmtilega á í ritgerð sinni, þeirri sem ég hef nú nokkrum sinnum vitnað í og prentuð er með frv.? En þar segir svo um þetta, með leyfi hæstv. forseta, — fyrst talar veiðimálastjóri um verðmæti veiðinnar, segir, hve margar jarðir eigi veiðirétt á landinu, sem hv. frsm. kom nú einnig að á fróðlegan hátt í sinni framsöguræðu, — veiðimálastjóri segir einnig:

„Töluverður arður er af veiðinni, einkum laxveiði og góðri silungsveiði. Tekjur af veiði hafa orðið mörgum bændum undirstaða undir umbætur á jörð og húsakosti og bætt afkomu þeirra á annan hátt. Auk þess hefur veiði, þar sem hún er stunduð af bændum og heimilisfólki þeirra, orðið ánægjuleg tilbreyting frá daglegum störfum, samtímis því að hún aflar fæðu.“

Undir þetta skal fúslega tekið hjá veiðimálastjóra, og er vitanlega þungamiðja málsins, hver arður hefur orðið af veiðinni hjá þeim bændum, sem hafa verið svo heppnir að eiga veiðijarðir og veiðirétt.

En veiðimálastjóri segir enn, og virðist þá mega af því draga þá ályktun, að það sé ekki e.t.v. aðalatriðið, að bændurnir hafi sem mestan ágóða af veiðinni, — hann segir:

„Gildi lax- og silungsveiði fyrir þjóðina má meta með ýmsu móti. Þar sem veiðin er til muna orðin tómstundaiðja, hefur hún einnig fengið félagslegt gildi. Með aukinni borgarmenningu og styttum vinnutíma hefur komið fram nýtt vandamál hér á landi á síðustu árum, það, hversu þegnarnir skuli verja tómstundum sínum á gagnlegan hátt. Hið opinbera lætur þetta vandamál meira og meira til sín taka með síauknum fjárframlögum, t.d. til félagsheimila, íþróttastarfsemi og annarrar félagsstarfsemi og námskeiðahalds. Erlendis hefur aðstaða til stangarveiði verið efld af opinberum aðilum í því skyni að leysa umrætt vandamál. Á síðustu árum hefur stangarveiðin hér á landi einmitt beinzt í þessa átt, þar sem fleiri nota tómstundir sínar á sumrin til að veiða á stöng sér til hressingar og hvíldar frá daglegum störfum. Verður því að viðurkenna þjóðfélagsgildi stangarveiði.“

Svo mörg eru þau orð. „Tekjur af veiði hafa orðið mörgum bændum undirstaða undir umbætur á jörð og húsakosti og bætt afkomu þeirra á annan hátt,“ segir veiðimálastjóri alveg réttilega. En nú á með lagasetningu að þrengja að kosti þessara manna mjög verulega og ég segi að þarflausu, þar sem á þessu vatnasvæði, sem ég hér geri að umtalsefni, er ekki um minnkandi fiskstofn að ræða, heldur þvert á móti. Núverandi friðun virðist því vera alveg nægilega mikil.

Ég vil taka það fram, að með þessu á ég ekki við það, að rýra beri sérstaklega eða neitt hlut stangveiðimanna eða þeirra, sem stangveiði stunda í íslenzkum veiðivötnum, þvert á móti.

En ég álít ekki rétt að hefja þá veiðiaðferð til skýjanna á kostnað annarra veiðiaðferða, sem tíðkazt hafa hér á landi allt frá landnámstíð.

Í þessu sambandi má einnig benda á verðmæti lax- og silungsveiði. Veiðimálastjóri ræðir um það í oftnefndri ritgerð sinni og talar þar um útfluttan lax. Hann segir, að mest hafi verið flutt út 1936, eða 44 tonn, síðari árin minna, en alltaf nokkuð. Vitað er, að yfirleitt er hátt verð á laxi á erlendum markaði, en þá verður laxinn líka að vera fyrsta flokks vara, en um gæði laxins og verðmæti hans til útflutnings er fróðlegt að lesa umsögn, sem ég hef í höndum frá netaveiðimönnum, sem athuguðu frv. þetta á s.l. vetri og gerðu við það margar brtt. Í þessari umsögn, sem er frá verzlunarfélaginu Borg í Borgarnesi, segir svo:

„Samkvæmt reynslu okkar í laxverzlun s.l. 20 ár viljum við taka eftirfarandi fram:

Lax, sem veiddur er í net, er miklu verðmeiri, bæði vegna meðferðar á honum og svo hins, að stangaveiddur lax er ekki hæfur til útflutnings. Hafi það komið fyrir, að stangaveiddur lax hafi í ógáti verið látinn með útflutningslaxi, fleygja kaupendur honum og kalla hann „sunfish”. Stangaveiddur lax er því aðeins seljanlegur á innanlandsmarkaði og verður oft lítils virði í góðum veiðiárum.“

Undir þetta ritar fyrir hönd Verzlunarfélagsins Borg Árni Björnsson.

Ég er ekki persónulega kunnugur þessu með útfluttan lax og skal ekki fara fleiri orðum um þetta vottorð, sem þessi kunnugi maður gefur. En það vita allir laxveiðimenn, að bezti laxinn fæst, meðan hann er i göngu, um leið og hann kemur úr sjónum, og bezt að taka hann í gildrur, þar sem hægt er að taka hann lifandi úr. Næstbezt er að veiða hann í net, sé hann tekinn úr sem fyrst eftir að hann ánetjast. Þá er einnig áríðandi, að ekki skíni sól á fiskinn, þegar hann er tekinn upp úr vatninu. Með slíkri meðferð fæst verðmæt vara, sem hægt er að selja á erlendan markað fyrir hátt verð, og vitanlega er það einnig fyrir innlenda markaðinn nauðsynlegt, að fiskurinn sé alltaf vel með farinn og að hann sé veiddur á góðum tíma, þegar hann er beztur, en það er sem sagt þegar hann er að ganga úr sjónum. Þá er hann feitastur og beztur, og þá er hann beztur til allra nota.

Af því, sem ég hef nú sagt, er ljóst, að lenging friðunartímans er skaðleg fyrir þá, sem netaveiði stunda, og óþörf á þeim vatnasvæðum, þar sem ekki er um minnkandi fiskstofn að ræða. Ég vænti því, að hv. dm. samþykki þessa brtt. mína.

Eins og ég drap á áðan, er veiðimálastjóra fengið að mínu áliti of mikið vald í hendur í veiðimálunum með þessu frv. T.d. segir í 27. gr., 5. tölul.: „Nú þykja ákvæði þessara l. um friðun og veiðitæki eigi veita fiskstofni nægilega vernd gegn ofveiði, og er ráðh. rétt eftir till. veiðimálastjóra og með samþykki veiðimálanefndar að fækka föstum veiðivélum í því vatni.“ M.ö.o. er veiðimálastjóra heimilt, eða honum er gefið þarna vald til þess, að hann þurfi ekki að fara eftir því, sem ég kalla hin ströngu ákvæði frv. Honum er þarna gefið allt of mikið vald. Hann einn á að dæma um, hvort þessi l. veiti fiskstofni nægilega vernd. Hann einn getur fyrirskipað, að allri netaveiði sé hætt í veiðivatni, þar með taldar stórár. Ég segi: hann einn, því þó að ráðh. hafi framkvæmdarvaldið og veiðimálanefnd eigi að samþykkja, þá er það ekki mikils virði, vegna þess að líklegt má telja, að bæði ráðh. og fiskimálanefnd fari eftir till. veiðimálastjórans sjálfs.

Ég vil ekki með þessu væna núverandi veiðimálastjóra um, að hann misnoti þetta eða muni misnota þetta vald sitt. En ég álít, að ákvæði þau, sem sett eru í frv., séu það ströng hvað þetta snertir, að óþarfi sé að ákveða, að í vissum tilfellum geti veiðimálastjóri hoppað yfir þau öll og gert það, sem honum sýnist í þessum málum. Ég legg því til, að 5. tölul. 27. gr. sé felldur niður.

Þá kem ég að síðustu brtt. minni, en hún er við 35. gr. og er um það, að 3. tölul. hennar falli niður, en sá tölul. hljóðar svo: „Til lengdar fastrar veiðivélar samkvæmt 1. málsgr. þessarar gr. telst fjarlægð hennar frá bakka straumvatns, hvort sem girt er yfir allt það svæði eða eigi.“

Í 35. gr. er tekið til, að milli fastra veiðivéla skuli vera 100 m bil eftir endilöngu vatni, svo er einnig nú samkvæmt gildandi lögum. Þessi grein tekur til þess, að það skuli vera 100 m millibil á milli veiðivéla, þ.e.a.s. á milli neta, eða fimmföld lengd fastrar veiðivélar. Nú er það svo, að sums staðar, einkum á ósasvæðum Hvítár í Borgarfirði, hagar svo til, að net eru ekki lögð frá bakka, heldur í ála, sem eru á leirum langt frá landi oft og tíðum. Þó að slíkt net, ef við tökum dæmi, sé ekki nema 5 m á lengd, sem lagt er í slíka ála, til að nefna einhverja tölu, þá er það talið veiðivél, sem nái alla leið frá árbakka. Það getur ef til vill verið um að ræða eyri, sem gengið verður um þurrum fótum um fjöru og kannske oftar, 100 m á breidd. Afleiðing þessa ákvæðis verður því sú, að þetta net eða þessi veiðivél verður talin 100 m á lengd og næsta net verður þá að vera í 525 m fjarlægð eða fimmföld lengd veiðivélarinnar.

Ég tók eftir því, að hv. frsm. sagði, þegar hann ræddi um þessa gr., að þetta gæti ef til vill orðið kílómetri á lengd, og ef þetta yrði kílómetri t.d. frá bakka og út að þeim ál, sem net er lagt í, þá er sú veiðivél talin 5 km, þegar á að fara að mæla næstu lögn við.

Af þessu er sýnilegt um þá menn, sem eiga lönd að slíkum veiðistöðum, að svo getur farið, að þó að þeir eigi 5 km meðfram á, þá geti þeir ekki haft nema eina lögn á þessum stöðum. Og t.d. nágranni slíkrar jarðar, ef hann á 2–3 km meðfram á við hliðina á hinum, sem ég nefndi fyrr, og veiðivél hins fyrrnefnda er of nærri hans landamerkjum, þá getur sú veiðivél þess fyrra eyðilagt það fyrir þeim seinni, að hann geti nokkuð notað sér sinn veiðirétt.

Það kom fram við meðferð málsins í n., að með þessu ákvæði væri mestöll veiði tekin af sumum ágætum veiðijörðum á ósasvæði Hvítár.

Ég vil því gera tilraun til að nema þetta ákvæði burt úr l., því að þarna finnst mér gengið harkalega nálægt eignarrétti manna. En ég vil taka það fram aftur, að verði þessi brtt. mín felld, þá mun ég fylgja skrifl. brtt. frá hv. þm. Barð., sem hann lagði fram hér áðan um skaðabætur til þeirra manna, sem yrðu svo harkalegu úti vegna ákvæða þessara laga.

Ég hef þá lýst brtt. mínum, þeim sem ég stend einn að. Ég hef sagt áður, að ég fylgi öllum brtt. n., eins og um var talað, þegar þær voru mótaðar, og ég tók það fram áðan, að þrátt fyrir það að þær gangi skemmra í réttlætisátt en ég hefði óskað eftir að ýmsu leyti, verð ég að segja það, að þær eru til bóta. Ég mun því fylgja þeim, og geri ráð fyrir því, að hv. deild samþykki þær allar, og ég vil þá einnig vona, að menn líti á brtt. mínar, þessar sem ég flyt einn, með sanngirni og viðurkenni, að þær hafa mikinn rétt á sér og eiga að samþykkjast.