18.03.1957
Efri deild: 71. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

83. mál, lax- og silungsveiði

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ég flyt við þessa umr. brtt. á þskj. 346 við frv. það, sem hér liggur fyrir um lax- og silungsveiði. Það gerist nú ekki þörf fyrir mig að fara mörgum orðum um þessa brtt. mína. Ég flutti við 2. umr. málsins brtt. við frv., þess efnis, að friðunartími lax- og silungsveiði hvað netaveiðina snertir skyldi vera óbreyttur frá því, sem bann er nú samkv. gildandi lögum, þ.e. 60 klst. á viku á þeim tíma, sem veiði er annars leyfð.

Ég sýndi fram á, að lenging friðunartímans í 84 klst. á viku, eins og frv. gerir ráð fyrir, mundi valda veiðieigendum, sem netaveiði stunda, hvort sem um lax- eða silungsveiði er að ræða, mjög miklu óhagræði og mundi valda þeim einnig fjárhagslegu tjóni. Ég sýndi fram á, að óréttmætt væri að lengja friðunartímann á þeim vatnasvæðum, þar sem ekki væri um þverrandi fiskstofn að ræða, eins og t.d. á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár í Árnessýslu, sem ég tók sem dæmi hvað þetta snertir. Meiri hl. hv. dm. gat ekki fallizt á þessi sjónarmið og felldi brtt. mína, svo að nú er friðunartíminn ákveðinn 84 stundir á viku hverri undantekningarlaust, en þessi ákvæði er að finna í 19. gr. frv.

Brtt. sú, sem ég flyt nú, er viðvíkjandi friðuninni. Hún gengur í nokkuð aðra átt en brtt. mín við 2. umr., það er að segja, að heimilt verður eftir henni, ef hún yrði samþykkt, að færa friðunartímann í 84 stundir á viku, ef þörf er á. Brtt. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á veiðitíma þeim, er getur í 18. gr., skal lax og göngusilungur vera friðaður gegn allri veiði annarri en stangarveiði 60 stundir í viku hverri, frá föstudagskvöldi kl. 9 til mánudagsmorguns kl. 9.“ Þetta ákvæði er óbreytt eins og er í núgildandi lögum. Þá kemur áfram: „Friðunartíma þennan má lengja í 84 stundir á viku, sé að dómi veiðimálastjóra, veiðimálanefndar og hlutaðeigandi veiðifélags, ef til er, hætta á, að um þverrandi fiskstofn sé að ræða á viðkomandi veiðisvæði.“

Með þessari brtt. er þrætt meðalhófið. Aðalreglan verður, að friðunin sé 60 stundir á hverri viku, sama og er samkvæmt núgildandi lögum, en heimilt að lengja hana í 84 stundir á viku, sé að dómi veiðimálastjóra, veiðimálanefndar og viðkomandi veiðifélags hætta á, að um ofveiði geti verið að ræða á vissum vatnasvæðum. Með þessu á að vera skapað það öryggi, sem felst í aukinni friðun, og friðunin sett á, þar sem hennar er þörf og hún nauðsynleg að dómi færustu manna á þessu sviði. En sé friðunartíminn lengdur undantekningarlaust úr 60 stundum í 84 á viku hverri, kemur það, eins og ég hef sýnt fram á, jafnt niður á þeim vatnasvæðum, þar sem fiskstofn er öruggur eða í vexti, og á þeim vatnasvæðum þar sem um raunverulega og hættulega ofveiði er að ræða. Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um till. Hún liggur ljóst fyrir, og hv. deildarmönnum er ljóst, hvað við er átt og hvaða áhrif hún hefur, ef hún yrði samþykkt, sem ég vona að hv. dm. sjái sér fært að gera.