21.03.1957
Neðri deild: 72. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

83. mál, lax- og silungsveiði

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi láta fylgja þessu frv. nú, þegar því verður vísað til landbn.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði að vísu, að þetta frv. hefði nú fengið svo góðan undirbúning, bæði að því er tekur til starfs þeirrar n., sem undirbjó málið fyrir ríkisstj., áður en það var lagt fram hér á Alþ., og auk þess væri málið nú búið að ganga í gegnum meðferð landbn. í Ed. og tekið þar nokkrum breytingum.

Það er nú svo, að þó virðist mér, þrátt fyrir þennan undirbúning, að því er tekur til almennrar friðunar til verndar laxastofninum, að þá séu enn til athugunar nokkur atriði í því sambandi, sem enn gætu stutt betur að því að tryggja það, sem vitanlega er mjög verulegt atriði í þessu máli, að veiði verði ekki beitt þannig, að stofninn gangi til þurrðar. Það er vitað, að Íslendingar eiga með skynsamlegri meðferð á sínum fiskivötnum hér mikið verðmæti fólgið í þeim og verðmæti, sem Íslendingum er mikilsvert, bæði til eigin nota innanlands og til þess að geta einnig notað þessar afurðir til öflunar erlends gjaldeyris, sem virðist í lófa lagið, bæði að því leyti að leigja erlendum mönnum afnot ánna og líka í því að flytja laxinn á erlendan markað. En þær tilraunir, sem gerðar hafa verið í því hér að undanförnu, hafa gefið allgóða raun.

Hér er með þessu frv. að því stefnt að auka friðunina með því að takmarka frá því, sem nú er, netaveiði og einnig a.m.k. í orði, — ég held, að það sé meira í orði en á borði, — að takmarka stangarveiðarnar.

Ég skal ekki ræða um þær takmarkanir eða aukningar á takmörkunum, sem hér eru viðvíkjandi netaveiðinni. En ég skal fullkomlega taka undir um það, að í þessum vötnum, þar sem sjór fellur um, þar sem lagt er ofan í ála, og það er með tilliti til þess, að vitað er af reynslu, að laxinn gengur með fyrsta rennsli inn í þessa ála, að þá sé fullkomlega þess vert að athuga nánar um að gera nýjar ráðstafanir, þar sem svo stendur á, eins og líka að er stefnt með þessu frv. Hitt gegnir töluvert öðru máli, þar sem lagnir eru uppi í vatnsmiklum ám, að þá er ekki veiðin eða netin jafnhættuleg fyrir til þess að hefta göngu laxins þar eins og þar sem lagt er ofan í þrönga ála úti á fjörum í þessum vötnum. En hins vegar er ætlazt til þess í frv., að auknar takmarkanir gildi um hvort tveggja þetta. En það virðist mér vera mál, sem fullkomlega væri ástæða til að hv. landbn., sem nú fær mál þetta til meðferðar, tæki til athugunar. Hin hlið friðunarinnar, sem er að reisa varnir í því skyni, að ekki sé of langt gengið með stangarveiðunum, er líka, eins og nú er komið, fullkomlega athyglisverð. Og ég verð að segja það um þær auknu friðanir í þessu efni, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að þær eru ekki nema að nokkru og ég ætla að takmörkuðu leyti raunhæfar, af því að friðunin á að fara fram einmitt á þeim tíma aðallega, sem útilokað er undir öllum kringumstæðum að nota stangarveiðar, þ.e. allan dimma tíma sólarhringsins. Þá er vitanlega ekki um neina stangarveiði að ræða, af því að laxinn tekur þá ekki. Þess vegna er með þeim ákvæðum, sem þarna eru, mjög skammt og ég vil segja allt of skammt gengið í áttina til þess að takmarka stangarveiðina, og er það mjög mikið athugunarefni fyrir landbn., sem fær nú mál þetta til meðferðar, að taka þá hlið málsins alveg sérstaklega til athugunar.

Eins og kunnugt er, hefur orðið mikil þróun í stangarveiðunum, og ný tækni hefur sagt þar til sín eins og á öðrum sviðum fisk- og silungsveiða. Það er orðin miklu betri aðstaða nú til þess að neyta sín við þessar veiðar í sambandi við ýmiss konar agn, sem notað er við veiðina, og ýmiss konar breytta og bætta aðstöðu í því sambandi heldur en áður var. En þetta veldur því að sjálfsögðu, að það þarf nú orðið að gæta miklu frekar en áður var varhuga við því, að þessum veiðum sé ekki beitt þannig, að fiskstofnum geti stafað hætta af. Og það er það, sem ég vildi leggja alveg sérstaka áherzlu á í sambandi við athugun landbn. á þessu frv., að taka þessa hlið málsins rækilega til athugunar.

Við hljótum allir að vera sammála um, að það þurfi að beita ráðum til þess viðkomandi veiðum í fiskivötnum á Íslandi, svo mikils virði sem þau eru nú, að allrar varúðar sé gætt í því, að stofninn minnki ekki eða gangi úr sér. En menn verða bara að gera sér þess alveg ljósa grein, að stangarveiðarnar, eins og nú er komið, geta ekki síður verið hættulegar í þessu efni en netaveiðarnar. Ég tala nú ekki um að girða fyrir það, að slík óhöpp hendi, sem hent hafa í íslenzkum fiskivötnum, að þar hefur verið farið að sprengja og tortíma laxi og silungi með því að setja sprengjur ofan í þá staði í ám og vötnum, þar sem silungur og lax safnast fyrir. Slíkt hefur að vísu hent, og þarf vitanlega að gæta allrar varúðar víð slíkri tortímingarherferð gagnvart fiskstofninum.

Ég skal nú svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en vænti þess, að hv. landbn. athugi vel og rækilega þetta frv. Og hvað snertir varnað gegn hættu, sem stafað geti af stangarveiðum, þá álít ég, að það eigi töluvert langt í land enn, eins og frv. liggur hér fyrir okkur nú í dag í hv. d., að gera þar á allmiklar umbætur. Og ég vænti, að landbn., sem fær þetta mál til meðferðar, taki það alveg eins og jafnhliða til greina í sambandi við þær friðunarráðstafanir, sem talið er nauðsynlegt að gera með breytingum á þessari löggjöf, því að það er vissulega tímabært að athuga þá hlið málsins, eins og tækninni í veiðiaðferðinni er nú komið og beitingu hennar af hálfu Íslendinga sem alkunnugt er á ýmsum stöðum.