21.03.1957
Neðri deild: 72. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

83. mál, lax- og silungsveiði

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vildi aðeins segja örfá orð til að taka undir með hv. þm. Borgf. um þetta atriði. Það er enginn efi á því, að það er rétt og nauðsynlegt að athuga friðunina í stangveiðiánum líka, og sennilegt, að það verði að búa um það betur, ef hægt er, heldur en gert er í þessu frv. Það mætti meira að segja svo fara, ef séð væri um þann hluta málsins, að þeir menn, sem telja sig verða fyrir nokkrum skaða með meiri friðun í netaánum, bæru engan halla, nema síður sé, af því, að friðunartíminn er lengdur og hert á friðuninni að öðru leyti með því að afnema svokallað ákvæði eða skilninginn, sem hefur verið á um bakkaákvæðið, því að vitað er það, að með friðun uppeldisstöðvanna eykst vitanlega laxgengdin og gangan, sem þangað fer á hverju ári gegnum netárnar eða jökulárnar, þar sem er venjulega veitt með netum.

Það er ástæða til þess að athuga þetta, vegna þess að víst er það svo, að sumar ár eru ekki í neinni hættu fyrir ofveiði, þó að veitt sé með stöng. Þær eru svo misjafnar, bæði að því er vatnsmagn snertir og einnig að því leyti, að laxinn tekur misjafnlega í ám, og það er nú horfið það sjónarmið, sem var ofarlega á döfinni, þegar Englendingar voru að velja sér hér laxá, þá fóru þeir um allan Borgarfjörð og reyndu það, hver væri tregust, og völdu síðan þá á, þar sem erfiðast var að ná laxinum og hann tók verst. En í sumum ám tekur laxinn mjög ört, og ég tel það alveg vafalaust, að í þeim ám, þar sem laxinn tekur mjög ört, geti þær verið í hættu fyrir stangarveiði að verulegu leyti. Þess vegna — án þess að orðlengja þetta frekar — tek ég undir það, að ef landbn. í samráði við veiðimálastjóra sér sér fært að búa betur hér um hnútana, þá er það vel farið. Raunverulega er það svo, að þessi veiði í ám, þar sem staðið er frá morgni til kvölds og hver tekur við af öðrum, er ósiður, sem þarf að leggjast niður af mörgum ástæðum, friðunarástæðum og öðrum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta og tók aðeins til máls til þess að taka undir með hv. þm. Borgf. um þetta atriði.