21.03.1957
Neðri deild: 72. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

83. mál, lax- og silungsveiði

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég er samþykkur hv. þm. Borgf. um það, að ekki sé síður ástæða til að hafa vakandi auga á því, að stangveiði verði ekki um of frekar en netaveiði.

Hann taldi, að tæknin í stangveiði væri nú komin á svo hátt stig, að af þeim sökum gæti ánum stafað mikil hætta af því. Ég held, að þetta sé misskilningur hjá honum. Stangveiði hefur yfirleitt ekki tekið miklum tæknilegum framförum síðustu áratugina. Veiðin er stunduð á svipaðan hátt og verið hefur. Hitt er annað mál, að Íslendingar nota jöfnum höndum tvenns konar agn, flugu og maðk. Hins vegar nota Englendingar, eins og kunnugt er, sjaldan annað en flugu.

En það er annað, sem getur verið bergvatnsánum hættulegt. Það er ásetningin á árnar. Það má, eins og hæstv. ráðh. tók fram, setja svo á ár, sem þola lítið álag, að fiskstofninn í ánum verði uppurinn á tiltölulega skömmum tíma. En það er í höndum þeirra manna, sem hafa forstöðu fyrir veiðifélögum bændanna, að ákveða, hversu margar stengur skuli vera heimilaðar í hverri á. Og það er stangafjöldinn í ánum, sem jafnan ræður mestu um það, hvernig með ána er farið.

Það hefur undanfarið verið þannig í þeim ám, þar sem mikill fjöldi stanga er leyfður og margir menn stunda veiði, að í þeim er veitt frá því snemma á morgnana þangað til seint á kvöldin. Með því ákvæði, sem nú er í frv., er komið í veg fyrir, að menn geti veitt í ánni lengur en 12 tíma á sólarhring. Nú mun það ekki óalgengt, að menn fari á fætur kl. 6 á morgnana og veiði þangað til kl. 10 á kvöldin eða jafnvel lengur, því að um mitt sumarið er hægt að veiða fram undir miðnætti.

Það er þetta, sem er í raun og veru hættan af stangveiði fyrir bergvatnsárnar. En það er ekki neitt sambærileg hætta og hættan, sem Borgarfjarðaránum stafar af netaveiðinni í Hvítá, þar eð allur laxinn, sem gengur í bergvatnsárnar, gengur um Hvítá og verður að fara í gegnum allar hindranir, sem þar hafa verið undanfarin ár. Mér er kunnugt um, eftir að ég hef veitt í einni af Borgarfjarðaránum síðasta áratug, að síðustu þrjú, fjögur árin hefur varla komið fyrir, að veiðzt hafi fiskur, sem ekki var með netaförum. En svo er það annað, að tæknin í netaveiðinni hefur aukizt, sérstaklega af því, að nú er farið að nota ný og veiðnari net, nælonnetin. En þessi net hafa skilið eftir sérstakt mark á laxinum, sem gengur um Hvítá. Á miklum fjölda laxa, sem veiðzt hafa í Borgarfjarðaránum undanfarið, hefur bakugginn verið afskorinn eftir nælonnetin. Þetta geri ég ráð fyrir að margir geti vottað, sem hafa stundað veiði í Borgarfjarðaránum. En þetta sýnir, hversu erfiðlega laxinum gengur að komast á sínar stöðvar fram hjá nælonnetunum án þess að vera særður og með netaförum. Enn er eitt, sem er mjög áberandi, að meðalþyngd laxins í Borgarfirðinum hefur á síðasta áratug lækkað úr 9–10 pundum niður í 4–5 pund. Um það má deila, af hverju þetta stafi. En ég hygg, að enginn vafi sé á því, að það stafar af of mikilli veiði.