14.05.1957
Neðri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

83. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. meiri hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Frv. til laga, það sem hér liggur fyrir, um lax- og silungsveiði, var flutt í hv. Ed. af landbn. eftir beiðni hæstv. landbrh. Á Alþingi 1955 var frv. þetta lagt fram af þáverandi landbrh., en ekki vannst tími til að afgreiða málið.

Í aths. við frv. er þess getið, að með bréfi, dags. 21. júlí 1954, hafi þáverandi landbrh. skipað n. manna til þess að endurskoða lög um lax- og silungsveiði með hliðsjón af nýjum viðhorfum, sem skapazt hafa í laxveiðimálum, síðan lög þessi voru sett. Það virðist hafa verið vandað allmjög til skipunar þessarar nefndar, því að í henni áttu sæti Pálmi Hannesson, sem var formaður n., Björn Ólafsson, Gizur Bergsteinsson, Gunnlaugur Briem og Þórir Steinþórsson. Allt eru þetta valinkunnir menn og mjög þekktir og menn, sem höfðu mikið kynnt sér þessi mál áður, enda finnst mér, að afköstin eftir þessa nefnd megi teljast í höfuðatriðum viðunandi. Nefndin hafði náið samstarf við veiðimálastjóra, Þór Guðjónsson, sem sat á öllum fundum n., enda kosinn ritari hennar, eins og segir í þessari sömu athugasemd.

Ég gat þess áðan, að það yrði ekki dregið í vafa, að nefndin hefði unnið mikið starf og að flest þau nýmæli, sem eru í frv., séu til bóta frá því, sem áður var.

Það virðist, ef maður athugar þetta mál svolítið aftur í tímann, sem fá mál, sem hafa legið fyrir Alþingi, hafi valdið jafnmiklum deilum sem lög um lax- og silungsveiði frá 1932, sem gengu í gildi 1. jan. 1933. Til ársins 1940 var þessum lögum breytt sjö sinnum, þó eigi í meiri háttar atriðum. 1941 voru svo allar þessar breytingar felldar inn í eða samræmdar lögum frá 1932. En það virðist sem þetta hafi ekki verið talið nægjanlegt, því að frá árinu 1941 og til ársins 1952 var þessum lögum breytt hvorki meira né minna en sex sinnum. Það verður því að teljast nokkurn veginn víst, að Alþ. hafi varið jafnvel meiri tíma í að ræða þetta eina mál en flest önnur mál, sem fyrir Alþ. hafa legið, og að oftar hafi verið gerðar á lögum um lax- og silungsveiði breytingar en flestum öðrum lögum. Þetta er ekki sagt hér til að fella neinn dóm yfir vinnubrögðum Alþ. í þessu máli frá minni hendi, heldur aðeins bent á þessar staðreyndir.

1954 kom enn fram frv. til breytingar á lögunum. Þá sýndist ráðherra tími til kominn að láta endurskoða lögin í heild sinni, einkum vegna þeirrar reynslu, sem fengizt hefur af þeim og framkvæmd þeirra, en jafnframt með tilliti til framfara í veiðitækni, eins og segir í aths. við frv. Þá segir orðrétt í athugasemd I. kafla, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndarmenn urðu á einu máli um það, að lög um lax- og silungsveiði hefðu eigi náð því meginmarkmiði sínu að auka fiskstofn í veiðivötnum. Veldur því öðru fremur, að fastar er gengið að veiði en fyrirsjáanlegt var, þá er lögin voru sett, og með veiðnari tækjum. Er svo komið í ýmsum fiskihverfum, að ákvæði laganna veita engan veginn nægilega vernd gegn ofveiði, sem jafnvel kynni að leiða til auðnar. Telja nefndarmenn brýna nauðsyn bera til að stemma stigu við slíku og hafa í því skyni strangari ákvæði en í gildandi lögum um friðun gegn veiði, stangarveiði sem neta, fjarlægð veiðivéla, stangafjölda, lax- og silungsveiði í sjó.“

Þessi ummæli nm. eru hin athyglisverðustu. Þau undirstrika það, sem reyndar var vitað áður, að á fjöldamögum stöðum var og er enn um ofveiði að ræða, sem nálgast hreint og beint rányrkju. Væri hægt að benda á fjölmargar ár víðs vegar um land, sem fyrir nokkrum áratugum voru sæmilegar veiðiár, aðallega þó silungsár, en nú eru að mestu fisklausar, enda setið um hverja bröndu, sem í árnar kemur. Árnar eru plægðar fram og aftur með ádráttarnetum.

II. kafli grg. er saminn af Þór Guðjónssyni veiðimálastjóra. Þessi kafli er hinn fróðlegasti og hefur inni að halda mikinn fróðleik og upplýsingar. Ég vil benda hér á nokkur atriði.

Veiðimálastjóri telur, að söluverð framleiðenda sé áætlað um 5 millj. kr. árlega. Ég geri ráð fyrir, að þar sé átt við bæði lax og silung. Miklar líkur finnst mér vera á því, að hér sé of lágt reiknað, sem liggur í því meðal annars, að ekki er allur sá fiskur, sem veiðist, settur á skýrslur.

Eftir því sem segir í fasteignamati 1942, hafa 12.1 % jarða á landinu laxveiði og 26.3 silungsveiði. Ekki er mér kunnugt um, hvort hér eru meðtalin hin mörgu og stóru veiðivötn í óbyggðum landsins, en eins og allir vita, er þar um mikla veiðimöguleika að ræða, sem nú eru lítið notaðir nema þá aðallega af fólki, sem leitar til fjalla og heiða í sumarfríi. En þeir, sem telja sig eiga þarna veiðirétt, eru á stundum mótfallnir slíku ferðalagi veiðimanna upp um öræfi og telja, að þeir spilli þar veiði og fuglalífi. Skal ég ekki leggja neinn dóm á það, hvað rétt er í þessu, en einhver brögð munu þó vera að því, að fleira sé veitt í slíku ferðalagi en silungur.

Lax og silungur teljast til náttúruauðæfa Íslands, og það er engum vafa undirorpið, að þessi auðæfi lands okkar er hægt að auka stórlega frá því, sem nú er, ef rétt væri á haldið. Og það er beinlínis skylda þjóðfélagsins og þess opinbera að sjá um, að ekki sé gengið of nærri stofni þessara miklu nytjafiska með of mikilli veiði.

Frá því fyrst að land vort byggðist og fram á þennan dag hafa fjölmörg heimili getað notfært sér þessi miklu hlunnindi að geta sótt í ár og vötn nýjan fisk og þar með getað neytt einnar beztu fæðu, sem völ er á. Það liggja engar skýrslur fyrir um það, hvað mörgum mannslífum lax og silungur úr ám og vötnum á Íslandi hefur bjargað, þegar bjargarskorturinn var við hvers manns dyr, en þau eru ábyggilega mörg, enda margar sagnir frá eldri tímum þar um.

Það ætti öllum að vera það áhugamál, ekki aðeins að viðhalda þessum náttúruauðæfum lands okkar, heldur jafnframt að auka þau stórlega frá því, sem nú er. Ég held við Íslendingar verðum að læra það að leggja niður rányrkju, í hvaða mynd sem er. Í þessu tilfelli verður að stilla veiðinni í hóf, þannig að fiskstofnarnir haldist við, og hins vegar að fiskur sé ræktaður, eins og veiðimálastjóri bendir réttilega á í hinni ýtarlegu grg.

Það er mjög eftirtektarvert, að líklega allt frá stofnun Alþingis að fornu hafa verið í íslenzkri löggjöf ákvæði um veiði og skiptingu veiðar og fyrstu drög til friðunar. Sýnir þetta, ef rétt er, að forfeður okkar hafa kunnað að meta þessi hlunnindi.

Í lögum frá 1932 um lax- og silungsveiði var margt nýrra ákvæða, svo sem um veiðirétt, bann við laxveiði í sjó, gerð og frágang veiðivéla, lengingu vikufriðunar, mannvirkjagerð í veiðivötnum, fiskræktarfélög, veiðifélög, stjórn veiðimála o.fl., o.fl. Öll voru þessi ákvæði til mikilla bóta frá því, sem áður var. En það fór hér sem svo oft fyrr og síðar, að þeir, sem töldu sig bíða fjárhagslegt tjón við setningu laganna, settu sig á móti þeim og fundu þeim flest til foráttu, enda mun það hafa átt sér stað og það í allstórum stíl, að lögin væru sniðgengin, svo að maður ekki viðhafi sterkara orð. Þrátt fyrir það hafa lögin frá 1932 alveg tvímælalaust gert nokkurt gagn og komið í veg fyrir ofveiði að meira eða minna leyti. Eftir því sem veiðitæknin hefur vaxið, hefur hættan á ofveiði vaxið gífurlega. Netin hafa verið stækkuð bæði að dýpt og lengd. Netalagnir hafa fjölgað, og nú síðustu árin hafa net úr næloni verið tekin í notkun, en slík net eru að allra dómi, sem til þekkja, talin mun veiðnari en net úr öðrum efnum. Það gæti jafnvel komið vel til mála, að inn hefðu verið sett ákvæði um það í þessi lög að banna að nota nælonnet til slíkra veiða sem lax- og silungsveiða. Þá hefur stangarveiði fleygt stórlega fram, og árlega reyna stangarveiðimenn að fá sér ný og betri tæki. Þó munu flestir sammála um það, að stangarveiði sé ekki eins hættuleg og komi aldrei til með að ganga eins nærri stofninum og netalagnir og ádráttur. Þrátt fyrir það er sjálfsagt að takmarka stangarveiði og lengja friðunartímabilið frá því, sem það var í lögum frá 1932. Aðalbreytingarnar eru líka um aukna friðun, sbr. 19. gr. Daglegur veiðitími með stöng skal ekki vera lengur en 12 klst. Stangarveiði í vötnum, þar sem lax og göngusilungur fer um, verður takmarkaður þannig, að veiðitíminn verði þrír mánuðir í hverju veiðivatni eða jafnlangur og netaveiðitíminn. Stangafjöldi í hverju veiðivatni ákveðst af veiðimálastjóra, — mjög nauðsynlegt ákvæði að mínum dómi, — og stangarveiði má ekki viðhafa á þeim slóðum, þar sem önnur veiðitæki eru notuð. Aldrei má veiða með stöng eða færi frá kl. 10 síðdegis til klukkan 7 árdegis.

Því er haldið fram af þeim, sem einna mest eru á móti stangarveiði og þeim félagsskap, að hér sé um mjög þýðingarlitla friðun að ræða. Ég held, að það sé mesti misskilningur. Ég held, að hér sé um mjög þýðingarmikla friðun að ræða, því að það er vitað, að þegar nótt er björt, þá er hægt að veiða alveg, þá tekur lax og silungur jafnvel allan tímann, svo að það er ekki rétt. Hér er um mikla aukningu á friðun að ræða frá því, sem var áður.

Eins og sést á því, sem hér hefur verið sagt, eru allmiklar hömlur lagðar við stangarveiði, enda sjálfsagt. Hins vegar finnst mér, að stangarveiðimenn geti sæmilega vel við unað, þótt dálítið sé að þeim hert með veiðitíma, stangafjölda í veiðivatni o.s.frv. Það er nú einu sinni þannig, að þarna er um mjög umdeilt atriði að ræða; og ég held, að báðir, bæði þeir; sem nota þetta sport, þ.e.a.s. veiða á stöng, og hinir, sem veiða í net eða ádrátt, verði að skilja það, að hér er svo mikið stórmál á ferðinni, hér er mál, sem getur haft úrslitaþýðingu um það, hvort hægt verður að varðveita þennan stofn, sem fyrir er, og auka hann, þ.e.a.s. auka hann, eftir því sem hægt er, að ég held, að báðum aðilum væri það mestur sómi, ef þeir gætu skilið það, að hér er um stórkostlega hagsmuni að ræða, ekki fyrir þá eingöngu, heldur fyrir landsfólk allt.

Lagt er til, að netaveiði verði takmörkuð meira en áður, vikufriðun lengd um 24 klst., úr 60 í 84. Hv. Ed. fékk sett inn í 19. gr. laganna ákvæði, þar sem segir, að friðunartíma þennan megi stytta í 60 stundir á viku, sé að dómi veiðimálastjóra, veiðimálanefndar og hlutaðeigandi veiðifélags, ef til er, engin hætta á, að um þverrandi fiskstofn sé að ræða á viðkomandi veiðisvæði.

Ekki skal ég draga í vafa þekkingu þeirra aðila, sem hér er bent á. En ég tel nú samt þessa breytingu sízt til bóta, enda mjög hæpin ráðstöfun að gefa yfirleitt slíkar undanþágur eins og þarna er gert ráð fyrir. Hins vegar sáum við okkur ekki fært í n. að flytja eða taka upp fyrra orðalag þessarar greinar, vegna þess að við töldum, að það gæti orðið til þess, að frv. næði ekki fram að ganga, ef Nd. gerði miklar og stórvægilegar breytingar á frv. frá því, er Ed. hefði gengið frá því. Í þessu sambandi má geta þess hér, að þegar svona mál eru á ferðinni og stórmál yfirleitt, þá væru það mjög heppileg vinnubrögð, að nefndir beggja deilda, sem málin fara til, hefðu meiri samvinnu sín á milli heldur en gert er, og það mundi ábyggilega í mörgum tilfellum stytta þingtímann og gera vinnubrögðin betri, ef slíkar starfsaðferðir væru viðhafðar. En það er mjög lítið um það, að slíkt sé gert.

Annars gerði hv. Ed. fjölda breytinga á frv. Eru flestar þeirra smávægilegar, og mun ég ekki ræða þær frekar, nema sérstakar ástæður liggi til þess, vil þó aðeins benda á, að settur var inn nýr kafli, 12. kafli, um álaveiðar. Um aðrar breytingar á frv. frá eldri lögum læt ég nægja að benda á hina löngu og skýru grg., sem prentuð er með frv. frá 1955 og ég hef áður minnzt á. Geta menn þar kynnt sér, í hverju aðalbreytingarnar eru fólgnar.

Þá kem ég að viðhorfi landbn. Nd. til málsins. Landbn. Nd. ræddi frv. á nokkrum fundum sinum og varð ekki sammála um afgreiðslu þess, sbr. þskj. 508. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur athugað frv. og ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu þess. Minni hl., þm. A-Húnv., skilar séráliti. Þeir Ágúst Þorvaldsson, 1. þm. Árn., og Gunnar Gíslason, 2. þm. Skagf., skrifa undir nál. með þeim fyrirvara, að þeir áskilja sér rétt til að fylgja brtt., sem fram kunna að vera bornar. Að öðru leyti leggur meiri hl. n. til að frv. verði samþ. með eftirfarandi breytingum“ — eins og segir á þskj. 508. Rétt er að taka fram, að breytingar þær, sem meiri hluti landbn. flytur við 35. gr. og 97. gr., voru bornar undir veiðimálastjóra, sem gat fyrir sitt leyti samþykkt þær.

Aðalbreytingarnar eru í því fólgnar, að ef um veiðirýrnun er að ræða vegna ákvæðis 35. gr., þó aðallega 3. mgr., frá því, sem nú er, þá skal þeim, er í missir, bætt að fullu samkvæmt mati það, sem er fram yfir 30%. Skal við mat á þessum bótum liggja til grundvallar veiði síðustu 10 ára fyrir gildistöku þessara laga svo og fækkun lagna, er orsakast af ákvæði 1. og 2. málsliðar þessarar málsgreinar. Í 4. mgr. er gert ráð fyrir þriggja manna dómnefnd, sem ráðherra skipar, og skal einn þeirra vera dómari hæstaréttar, — þetta er nú ekki breyting raunverulega frá lögunum, þ.e.a.s. ekki um skipun n. Bætur skulu metnar í eitt skipti fyrir öll og greiðist með jöfnum afborgunum á 25 árum. Ríkissjóður greiði 3/4, en viðkomandi sýslusjóður eða sýslusjóðir 1/4. Matsnefnd skal ljúka störfum eigi síðar en 2 árum eftir gildistöku laganna.

Ég sé nú ekki sérstaka ástæðu til þess að ræða þessa breytingu nánar. Hún skýrir sig alveg sjálf. Það munu vera fáar jarðir, sem þetta ákvæði mun koma til með að fjalla um.

Breytingin við 97. gr. um, að 2. málsl. falli niður, skýrir sig sjálf. 2. liður þessarar greinar hljóðar svo, að á Hvammsfirði skuli svæði, er liggur fyrir innan línu úr ytri enda Skoravikurmúla í Hólmlátursborgir, vera undanþegið banni gegn selaskotum og uppidrápi. Það virðast ekki liggja nein sérstök rök fyrir því, að þessi 2. liður haldi áfram að standa í lögunum. Nefndin leggur því til, að þessi liður sé felldur niður.

Ég vil svo undirstrika það að lokum, að ég vil f.h. meiri hluta n. mæla með því, að frv. verði afgreitt sem lög á þessu þingi, og tel ekkert við það unnið, að afgreiðslu þess verði frestað til næsta þings. Ég vil svo að lokum leyfa mér að leggja til við hæstv. forseta, að málinu verði vísað til 3. umr.