14.05.1957
Neðri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

83. mál, lax- og silungsveiði

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Það er nú orðið æði fámennt hér í deildinni, sem virðist bera því vitni, að menn hafa ekki mjög mikinn áhuga fyrir þeim deiluatriðum, sem borin hafa verið fram við frv.

Eitt aðalatriðið í ræðu hv. þm. A-Húnv. var, að það ætti að fresta frv. enn um sinn, svo að hægt væri að hafa á því þá athugun, sem nauðsynleg væri. Frv. þetta hefur nú legið fyrir þinginu í tvö ár. Það lá fyrir þinginu í fyrra, og landbn. Ed. hafði það þar til athugunar, sendi frv. út um allt land, til sýslunefnda og annarra aðila, sem þar höfðu hagsmuna að gæta, til þess að fá þeirra umsögn í málinu. Eftir að þetta þing kom svo saman, hefur umsögn frá þessum aðilum verið tekin til athugunar í Ed., og Ed. hefur því athugað frv. mjög gaumgæfilega, eins og hennar var von og vísa. Ég verð að segja það, að ég tel algerlega þarflaust að fresta frv. enn um eitt ár með því að senda það út um land til hinna sömu aðila, sem áður hafa fengið það til umsagnar.

Það er nú svo, að þetta frv., eða réttara sagt laxa- og silungslögin, er eitthvert flóknasta mál, sem liggur fyrir þinginu, svo að ekki er furða, þótt það þurfi athugunar við. Þetta mál var, eins og kunnugt er, samið af milliþinganefnd. Ég var að vísu í þeirri nefnd. Ég viðurkenni þó fyllilega, að ég var ekki málinu kunnugur, en í nefndinni voru þaulkunnugir menn, sem höfðu fylgzt með þessu máli árum saman, eins og t.d. Pálmi Hannesson rektor og fleiri, sem í n. voru. Ég geri ráð fyrir, að þessir menn séu kunnugri þessu máli í heild en flestir aðrir landsmenn, af þeirri einföldu ástæðu, að sumir þeirra, eins og Pálmi heitinn rektor, hafa lengi verið viðriðnir veiðimálin og fylgzt með þeim gaumgæfilega í mörg ár. Þetta er eitt af þeim málum, sem tiltölulega erfitt er fyrir þingið að bæta eða breyta, ég viðurkenni það. En hitt er svo annað mál, að lax- og silungsveiðilög eru delluefni í hverju landi, hafa verið og verða, og deila um veiðirétt hér á landi hefur vafalaust staðið frá landnámstíð og mun standa enn, þó að þessi lög verði samþykkt og reynt verði að fylgjast með tímanum og breyta lögunum skv. kröfum hans.

Ed. gerði á frv. tiltölulega litlar breytingar. Þó var ein breyting, sem skipti nokkru máli. Hún var á þá leið, að leggja mætti móti lögnum báðum megin við á, ef áin væri þar 100 m breið. Þetta er breyting á gildandi lögum. Ég hygg, að landbn. Ed. hafi haft Ölfusá sérstaklega í huga, þegar hún gerði þessa breytingu. Ég efast þó um, að hún hafi fyllilega gert sér grein fyrir, hvernig þessi breyting verkaði.

Það má segja, að sú eina breyting, sem landbn. þessarar d. geri á frv., sé að breyta þessu ákvæði Ed. En með þessari breytingu gerir nefnd þessarar d. ekki annað en færa þetta atriði í sama horf og það er nú í lögum. Með þessari breytingu, sem nefndin ber hér fram, verður því engin breyting á því ástandi, sem hefur verið og er, meðan þau lög eru í gildi, sem nú eru. En þó er sú breyting gerð í sambandi við þetta, sem ég tel mjög sanngjarna, og það er, að n. leggur til, að bætur verði greiddar, ef talið er, að aðstaða bænda rýrni við ákvæði 35. gr. Ég tel þetta sanngjarnt, og þetta ættu þeir menn a.m.k. að taka til greina, sem halda því fram, að mjög illa sé farið með þá menn, sem netaveiði stunda.

Hv. þm. A-Húnv. sagði, að lítil breyting eða takmörkun sé gerð á stangveiðitíma í ám. Þetta er að vísu ekki rétt. Skv. frv. er bannað að veiða í á meira en 12 tíma á sólarhring. Þetta er nákvæmlega sami tími á viku eins og netaveiði er heimiluð. Þessu til stuðnings skal ég geta þess, að í ám, þar sem ásetning hefur verið mikil og margir menn veiddu í, hefur undanfarið iðulega verið veitt 15–18 tíma á sólarhring. Nú er það ekki lengur heimilt. Þess vegna er mikilsvert atriði að takmarka veiðitímann víð 12 tíma á hverjum sólarhring.

Hv. þm. A-Húnv. sagði einnig, að veiðitíminn væri færður aftur um fimm daga. Það er rétt. Veiðitíminn er miðaður við 1. júní til 20. september í staðinn fyrir núna frá 1. júní til 15. sept. En þrátt fyrir þetta, þó að heimildartíminn sé lengdur, er það þó staðreynd, að veiðitíminn er styttur um hálfan mánuð. Nú má veiða frá 1. júní til 15. sept. Samkv. frv. má ekki veiða nema þrjá mánuði. Þeir, sem vilja veiða til 20. sept., mega ekki byrja veiði fyrr en 20. júní. En þar að auki vil ég benda á, að laxveiðitíminn frá 1. til 20. sept. er oftast lítilsvirði sem stangveiðitími. Ég efast mjög mikið um, að hann yrði mikið notaður, vegna þess að menn munu frekar vilja nota júnímánuð til þess að veiða lax heldur en septembermánuð, svo að það, að tíminn er færður aftur um fimm daga, hefur enga raunhæfa þýðingu. Hins vegar styttir frv. veiðitímann um 15 daga, eins og áður er sagt.

Ég sagði áðan, að deilt væri í öllum löndum um frv. eða lög um lax- og silungsveiði. Það er heldur ekki neitt nýtt fyrirbæri, að hér sé deilt um þessi mál. En þó að um málið sé deilt og eðlilegt sé, að um það sé deilt, þá er hins vegar nauðsyn, að sett séu lög um málið. Þetta er einn þáttur í okkar efnahagslífi, sem snertir marga menn í landinu og hefur valdið deilum. Samt er ekki hægt annað en fylgjast með tímanum og breyta þessum l. eftir því, sem aðstæður breytast og tíminn krefst.

Hv. þm. sagði, og ég vil biðja menn að taka vel eftir: hér er verið að yfirfæra eignarrétt þeirra, sem veiðina eiga, í hendur þeirra, sem stangveiði stunda. — Ég vil nú spyrja: Hvernig er hægt að yfirfæra eignarrétt þeirra, sem veiðina eiga, og í hendur þeirra, sem stangveiði stunda? Hér kemur að því gamla atriði, að ekki er talið, að til séu laxveiðibændur á landinu nema þeir, sem veiða með netum. Ekki er verið að hugsa um þá menn, sem leigja ár sínar til stangveiðimanna fyrir mikið fé. Það er ekki verið að tala um, að hugsa þurfi um þeirra rétt, þeirra hlunnindi eða þeirra eignarrétt. Nei, þá eru það stangveiðimennirnir, sem leigja hjá þessum bændum og eiga allan réttinn. En frá mínu sjónarmiði lítur það þannig út, að með þessari togstreitu af hendi bænda, sem veiða í net, er verið að koma í veg fyrir það, að bændur uppánna geti notið hlunninda sinna óskertra. Ef laxveiði á að teljast til nytja þeirra jarða, sem að veiðiám liggja, þá hljóta þeir hændur, sem búa við uppár og hafa með sér veiðifélög, að hafa sama rétt til þess að vernda nytjar sínar eins og þeir bændur, sem veiða með netum og búa við þjóðbraut laxgöngunnar, ef svo mætti segja. Borgarfjörðurinn og Árnessýslan gætu að líkindum verið beztu veiðisvæði í Norðurálfu, ef skynsamlega væri að farið. En á þessum veiðisvæðum hagar þannig til, að þjóðbrautin, sem laxinn verður að ganga upp í bergvatnsárnar, er eign netabændanna. Það er svo bæði í Hvítá og Ölfusá, og ekki er hægt að loka augunum fyrir því, að bændurnir, sem eiga bergvatnsárnar, hafa alveg jafnan rétt til þess, að þeirra hagsmunir séu verndaðir, eins og hinir, sem búa við þjóðbrautina. En það hefur viljað brenna við, að engin athygli væri veitt hagsmunum þessara bænda, þar til nú allra síðustu árin, að þeir sjálfir eru farnir að rísa upp til þess að vernda hagsmuni sína.

Það er engin leið til þess að vernda fiskstofninn nema með skynsamlegum ráðstöfunum, og þá verða þeir, sem hlut eiga að máli, að sýna fullkomna sanngirni hver gagnvart öðrum, ef vel á að fara. Það er ekki hægt fyrir einn aðilann að taka til sín bróðurpartinn af því, sem raunverulega þeim öllum tilheyrir. Þó að laxinn verði að ganga upp um þjóðbrautina í Hvítá, verður hann samt að fara upp í bergvatnsárnar til þess að hrygna, og ef hann kemst það ekki, þá kemst líka þjóðbrautin í örtröð, áður en langt um liður. Í það horf hefur stefnt, eins og veiðiaðferðum hefur verið hagað undanfarin ár, og þetta frv. er samið með það fyrir augum, að það geti bætt úr þessu, án þess að gengið sé á rétt nokkurs manns, eftir því sem möguleikar leyfa.