14.05.1957
Neðri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

83. mál, lax- og silungsveiði

Björn Ólafsson:

Ég hristi höfuðið yfir því, er hv. þm. Borgf. (PO) sagði, að stangveiðin væri aukin með frv., og átti ég þar við, að stangveiði væri sízt gefin meiri réttindi en hún hefur í núgildandi lögum. Hins vegar er ég honum sammála um atriði það, sem hann minntist á, í 16. gr. laganna. Þetta er nýmæli og talsverð breyting frá lögum, sem nú gilda. Mig minnir, að tilgangurinn með nýmælinu væri sá, að menn leigi heldur út veiðisvæði í kringum árósa í ám til stangveiði en nota þau til netaveiða, eins og hefur átt sér stað í Hvítá í Borgarfirði. Þar hafa verið lögð net við árósa bergvatnsánna, að vísu, að ég tel, ekki nær en lög heimila. Sumir telja heppilegra, þ. á m. veiðimálastjóri, sem þessum málum er mjög kunnugur, að þessi svæði væru leigð til stangveiða í stað þess að nota þau til netaveiða.

Það er ekki rétt, að við ármynni þeirra bergvatnsáa, sem renna í Hvítá, sé hægt að veiða alveg upp að straumlínu óssins. Það er ljóst, að ef þeir, sem eiga land við Hvítá, geta leigt veiðirétt alveg upp að straumlínu ánna, sem í Hvítá falla, þá er mjög nærri höggvið bergvatnsánum. Hvort mikil hætta er fyrir laxastofninn í sambandi við þetta, skal ég ekki fullyrða, en ég er á sama máli og hv. þm. Borgf. um það, að breyting frá núgildandi lögum á þessu atriði er ekki heppileg. Ég mundi með ánægju greiða atkvæði með því, að þessu sé breytt í frv.

Hins vegar vil ég ekki stefna frv. í neina hættu við að fá fram breytingar á þessu eða öðru, eins og nú er komið. Ég vil heldur fá frv. samþ. eins og það er, þó að mætti vafalaust benda á einhverja ágalla á því. Ég vil heldur fá það samþ. eins og það er en eiga á hættu, að það dagi uppi í þinginu og þessi mál komist ekki á þann grundvöll, sem nauðsynlegt er til þess að verja fiskstofninn, bæði hér sunnanlands og annars staðar. Um það erum við hv. þm. Borgf. fyllilega sammála.