16.05.1957
Neðri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

83. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. meiri hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Ég mun ekki lengja umr. mikið frá því, sem orðið er, en á fundi í landbn., sem haldinn var í dag, voru teknar fyrir þær brtt., sem þegar eru komnar fram við frv., m.a. frá minni hl. landbn., og fleiri till. Varð það að samkomulagi í n. að óska eftir því í fyrsta lagi við hæstv. forseta, að nefndin fái málið til nánari athugunar, og líkur eru á því, að n. muni flytja brtt. við 16. gr. með svipuðu orðalagi og er í 15. gr. núgildandi laga.

Þetta gerir n., ef af verður, m.a. til þess, ef hægt væri að fá meiri frið um málið og ef hægt væri að fá frekari tryggingu fyrir því, að málið færi í gegn. Okkur virðist í meiri hl., að það geti verið mikill vafi á því, hvort málið fari í gegn, eins og það er nú, en við teljum, að það sé æskilegt að fá það afgr. á þessu þingi. Og út frá þessum forsendum er það, sem við munum taka málið aftur til athugunar og þá fyrst og fremst 16. gr. í frv., sem er sama og 15. gr. í núgildandi lögum.

Ég vildi skýra frá þessu, svo að hv. alþm. gætu þá athugað það á milli 2. og 3. umr.