16.05.1957
Neðri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

83. mál, lax- og silungsveiði

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) vísaði í umsögn, er ég hafði við 1. umr. málsins, að laxar veiddust oft með netamerkjum, og vildi hann telja það sönnun þess, að ef laxinn slyppi úr netunum, þá hlyti hann að veiðast á stöng, svo að stöngin væri engu minna ránstæki en netin. Ég sagði, að fjöldi laxa veiddist í uppám Borgarfjarðar nú síðustu tvö árin með netaförum og afskorna bakugga eftir nælonnetin. Þetta eru aðallega fiskar, sem eru frá 4 og upp í 6 pund að stærð og geta með því að skera af sér uggana sloppið úr möskvunum.

En menn geta náttúrlega ekki búizt við því, að ekkert veiðist á stöng, og finnst mér þess vegna ekki sanngirni að ætlast til þess, að hægt sé að leigja bergvatnsárnar fyrir stórfé og að engin veiði komi þar fyrir, heldur ætlast til þess, að öll veiðin verði í netin, sem laxinn getur nú aðeins forðazt með því að fara miklar krókaleiðir.

Hv. þm. taldi einnig sjálfsagt, að sami tími yrði fyrir stangveiði og netaveiði, þ.e.a.s., að árnar væru friðaðar fyrir stangveiði sömu daga og þær eru friðaðar fyrir netaveiði.

Þetta er nokkuð svipuð tillaga og brtt. á þskj. 535, að öðru leyti en því, að hún gengur miklu lengra. Ég vil benda á, að væri eftir þessari till. farið, mundi það rýra tekjur allra bænda, sem bergvatnsár eiga og stofnað hafa með sér veiðifélög. Þetta mundi rýra tekjur þeirra um allt að helmingi, því að ekki mundi nokkrum manni koma þá til hugar að greiða það gjald, sem nú er greitt fyrir árnar, ef svona till. væri tekin í lög. Það þýddi, að samningar yrðu endurskoðaðir, og þeir, sem hafa nú samning um árnar, mundu heimta lækkun á því umsamda gjaldi, sem þeir verða nú að greiða, fái þeir ekki að veiða í ánum nema helming vikunnar.

En ég vil benda enn á ný á það, sem hefur þó verið margoft fram tekið við þessar umr., að friðun laxins fyrir stangveiði er nákvæmlega hin sama og friðun hans fyrir netaveiði. Samkvæmt frv. má ekki veiða laxinn á stöng nema hálfan sólarhring. Hins vegar má veiða laxinn í net allan sólarhringinn þann tíma, sem netin eru í ánni. Hér hallast því ekki á, ef menn vilja með sanngirni líta á þann tíma, sem bæði veiðitækin eru notuð.

Í Borgarfirði eru nú tvær stórár, sem leiga er greidd fyrir, er nemur yfir fjórðung milljónar króna á ári fyrir stangveiði. Ef þetta ákvæði yrði samþ., sem er í brtt. á þskj. 535, mundu þessar tekjur bændanna stórrýrna. Á því er ekki nokkur vafi. Ég býst við, að hv. flm. hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar þetta mundi hafa. Það er hægt að segja sem svo, að menn muni halda áfram að semja um sama verð, þó að veiðitíminn sé styttur. Ég get fullvissað hv. flm. um það, að verð veiðileyfa í stóránum í Borgarfirði er nú orðið svo hátt, að menn mundu ekki taka í mál að borga sama verð og áður, ef tíminn yrði styttur.

Um þá brtt., sem hv. frsm. n. gat um að n. hygðist gera í samræmi við þá till., sem hv. þm. Borgf. (PO) bar hér fram í gær, um ós straumvatns, sem rennur í aðalá, og breyta því í samræmi við það, sem nú er í lögum, þá er ég fylgjandi þessari till. Ég tel ekki, að hún varði verndun fiskstofnsins út af fyrir sig, en hún verndar mjög mikið hagsmuni þeirra manna, sem eiga árnar, er falla í aðalána. Hins vegar vil ég taka mjög ákveðið fram, að ekki er hægt að komast hjá því að nota það undanþáguákvæði, sem þessari till. verður að fylgja, í sambandi við smáárnar, sem falla í bergvatnsárnar, því að þar eru allt önnur skilyrði fyrir hendi. Þess vegna verður að framkvæma lögin á skynsamlegan hátt, svo að verndaður sé réttur þeirra, sem eiga árnar, er renna í aðalána, og að tekið sé fullt tillit til allra aðstæðna, þar sem smáá rennur í bergvatnsá.