16.05.1957
Neðri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

83. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, þm. Mýr., sagði það hér í ræðu sinni, að ég flytti till. um að friða árnar hálfa vikuna fyrir stangveiði. Hér kemur þetta undarlega fyrir og skil ekki í, að þessi hv. þm. skuli ekki hafa lesið réttara en þetta, því að ég flyt till. um að hafa friðunartímann eins og hann er nú í l., sem er 60 stundir á viku, en að það sé jafnt fyrir stangveiði og netaveiði.

Hv. 2. þm. Reykv. hélt því fram, að það væri sönnun fyrir því, hvað netaveiðin væri hættuleg, hvað margir laxar kæmu með netamerkjum upp í bergvatnsár Borgarfjarðar. Það er nú sönnun fyrir því, eins og ég tók fram áðan, að þeir eru veiddir þar á stöngina, að það, sem sleppur þó gegnum netin, er tekið með stönginni. Annars gat hann þess, sem er vafalaust rétt, að þarna væri aðallega um að ræða smálaxinn, 4–6 punda laxa. En það er einmitt sú tegund laxanna, sem ég vil friða fyrir netaveiðinni með því að ákveða. að það sé haft bil á milli í netriðlinum, þar sem einmitt er hættulegast fyrir þessa fiska. En eins og l. eru núna og eins og frv. er núna, þá er ekkert bil þar á milli silunganeta og laxaneta, því að hinn venjulegi silunganetariðill, sem er 4.5 cm milli hnúta, má ekki vera meiri, ef eingöngu er hugsað um silunganetaveiði, eins og sums staðar er, þar sem laxveiði er bönnuð í net, eins og t.d. í veiðifélagi okkar Vatnsdælinga og Þingbúa. En þar sem eingöngu er hugsað um laxinn, á það að vera ákveðið, eins og ég legg til hér í minni brtt. á þskj. 525, að það sé bannað að hafa netariðil á því bili, frá 4.5 upp í 5.8 em á milli hnúta. Þess vegna er það þýðingarmikið atriði til verndar smálaxinum a.m.k. fyrir veiðinni, að þessi till. verði samþ. Annars verð ég nú að segja það, að það ættu allir hv. þm. að vita, a.m.k. þeir, sem hafa kynnt sér nokkra veiði, að mismunurinn á því, hvað netaveiði er varasöm, fer ákaflega eftir aðstæðum. Það er hægt náttúrlega í mjóum ám og ýmsum stöðum að gera ráð fyrir því, að netaveiðin, þó að farið sé eftir frv., sé mjög hættuleg, en í stórvötnum, eins og við skulum segja Ölfusá, Hvítá í Borgarfirði, Húnavatni, Bjargaósi o.s.frv., þá vita menn, að það er svo stórt svæði milli neta skv. ákvæðum l., að það er mikið frjálsræði fyrir laxinn, þó að net þar séu lögð út frá löndum og megi í hæsta lagi ná út í þriðjung vatns. Þess vegna er það ekki það, sem er hættulegast fyrir lax- og silungastofninn, þó að það sé leyft áfram. Hitt er vitað, að með ótakmarkaðri stangarveiði er hægt að ná í bergvatnsánum og smærri ánum hverjum fiski svo að segja. Annars er það hlutur, sem er hið eðlilega og sjálfsagða atriði í þessu máli, að það sé unnið að því meira en gert hefur verið sums staðar um land, að það séu stofnuð veiðifélög samkv. lögunum og að þau setji sér sínar samþykktir og ákveði það sjálf og hafi heimild til þess að ákveða það sjálf, hvernig hagað er veiðinni á þessu og þessu svæði, því að aðstaðan er svo breytileg, að það verður aldrei hægt í allsherjarlögum að ákveða það svo sem nauðsynlegt væri.