24.05.1957
Efri deild: 109. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

51. mál, búfjárrækt

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Eins og þetta frv. ber með sér, hefur það fengið mjög rækilegan undirbúning. Það er samið af Búnaðarfélagi Íslands og endurskoðað af búnaðarþingi. Og eins og það ber með sér, er það fyrst og fremst samræming og leiðrétting á búfjárræktarlögunum. Það fylgir málinu mjög ýtarleg grg., en því hefur verið breytt í verulegum atriðum í hv. Nd., þó aðallega þannig, að það hefur verið dregið úr kostnaðinum við þær breytingar og samræmingar, sem gerðar eru á frv.

Aðalatriðin í frv., eins og það liggur fyrir nú, auk nokkurra smærri breytinga, sem aðallega eru gerðar til samræmingar, eru þessi: Héraðsráðunautar í búfjárrækt fái sömu laun og héraðsráðunautar í jarðrækt. Á þessu hefur verið ósamræmi, sem af skiljanlegum ástæðum getur ekki beðið að leiðrétta. Enn fremur er nú í þessu frv., ef að lögum verður, heimilað að greiða félagssamtökum bænda í búfjárrækt fyrir að gera samanburð á einstökum stofnum. Slíkt hefur að sjálfsögðu nokkurn kostnað í för með sér, en talinn er mikill ávinningur, að það sé hægt að gera, og er veittur til þess lítils háttar styrkur. Þriðja meginbreytingin er sú, að það er hækkaður styrkur til sæðingarstöðva, hámarkið úr 15 þús. upp í 20 þús. Er gert ráð fyrir því, að eins og frv. nú liggur fyrir, hafi verið dregið þannig úr kostnaði, að hann nemi eitthvað á þriðja hundrað þús. kr., en var í verulegum atriðum hærri, eins og ég gat um í upphafi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri að þessu sinni og óska eftir, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni og til landbn.