16.05.1957
Efri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

123. mál, hlutafélög

Frsm. meiri hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Nefndin, allshn., hefur fjallað um þetta frv., en ekki orðið sammála um, hvernig það skuli afgreitt. Minni hl. leggur til, að það verði samþykkt, en meiri hlutinn, sem í eru hv. 1. þm. N-M. og hv. þm. V-Sk. og ég, leggur til, að það verði afgreitt með rökstuddri dagskrá.

Nefndin sendi frv. þetta til umsagnar þriggja aðila og hefur fengið svör frá þeim. Tveir þeirra Samband ísl. samvinnufélaga og bæjarstjórn Akureyrar, leggja til, að frv. verði samþykkt, en í svörum þeirra er þó ekki að finna neinn sérstakan rökstuðning fyrir þeirri ósk. Þriðji aðilinn, sem er stjórn Lögmannafélags Íslands, leggur hins vegar til, að frv. verði fellt.

Gildandi lög um hlutafélög eru frá árinu 1922. Það er því eðlilegt, að endurskoða þurfi ýmis ákvæði þeirra og færa í það horf, er svari kröfum tímans, enda hefur þetta sjónarmið og verið viðurkennt, þar sem fyrir hv. Alþingi hefur áður legið frv. til laga um hlutafélög, en frv. það, sem undirbúið var af nefnd hinna færustu manna, hlaut þó ekki afgreiðslu þingsins.

Í umsögn Lögmannafélags Íslands segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir síðasta Alþingi lá stjórnarfrv. um ný hlutafélagalög í stað þeirra, sem nú gilda. Afgreiðsla á frv. þessu, sem var undirbúið af mjög hæfum mönnum, var frestað til nánari athugunar.

Í nefndu lagafrv., sem væntanlega kemur fram á næstunni, ef til vill eitthvað breytt, eru m.a. ákvæði til þess að tryggja rétt þeirra hluthafa, sem smærri hluti eiga í hlutafélögunum, en vitað er, að allmikið misrétti hefur átt sér stað í ýmsum hlutafélögum, þar sem meiri hlutinn hefur borið fyrir borð hagsmuni minni hlutans af ýmsum ástæðum.“

Enn fremur segir: „Frv. þetta miðar í gagnstæða átt, og verður að teljast óeðlilegt, að farið sé nú að gera breytingar á þessari einu grein hlutafélagalaganna, þ.e.a.s. 31. gr., þegar vænta má, að ný og fullkomnari hlutafélagalög verði samþykkt á Alþingi, áður en langt um liður, og ekki vitað, að brýn almenn þörf sé á breytingu þeirri, sem hér er stungið upp á.“

Enn fremur bendir stjórn Lögmannafélags Íslands í niðurlagi bréfsins á það, að í flestum, ef ekki öllum hlutafélögum, sem vitað er um, séu ákvæði 31. gr. hlutafélagalaganna beinlínis tekin upp í samþykktir þeirra, og virðist þá af því leiða, að þessum ákvæðum verði ekki vegna samningsgildis stofnsamnings og samþykkta þeirra hlutafélaga, sem nú eru til, löglega breytt án samþykkis allra hluthafa.

Svo sem hv. dm. er kunnugt, felst sú breyting í þessu frv., að þar er lagt til, að atkvæðisréttur ríkisstofnana, bæjar- eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða samvinnufélaga sé ekki bundinn við 1/5 hluta atkvæða, þegar þeir aðilar eiga meira en 1/5 hluta hlutafjár, en þessa takmörkun á atkvæðisrétti verða aðrir hluthafar að sætta sig við.

Við, sem skipum meiri hluta allshn., lítum svo á, að ekki sé ástæða til að breyta þessu eina ákvæði þessarar mikilvægu löggjafar, hins vegar sé rík ástæða til að endurskoða lögin öll, taka til athugunar það frv., sem hér dagaði uppi nýlega, og leggja það fyrir Alþ., annaðhvort óbreytt eða í breyttu formi, eftir því sem ástæður virðast liggja til. Þess vegna höfum við í meiri hl. lagt til, að frv. þetta verði afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá, sem ég leyfi mér að lesa að lokum, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti hið fyrsta undirbúa og leggja fyrir Alþingi frv. til nýrrar löggjafar um hlutafélög, telur d. ekki ástæðu til að taka afstöðu til þessa frv. að sinni og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“