23.05.1957
Efri deild: 106. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

182. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. (Björgvin Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt af sjútvn. eftir beiðni hæstv. sjútvmrh.

Eins og hv. dm. er kunnugt, voru l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins á sínum tíma sett til þess að kaupa ákveðna tölu fiskiskipa. Síðan þá hefur d. eingöngu verið innheimtustofnun og ekki veitt nein ný lán.

Með breytingu, sem gerð var á lögunum um stofnlánadeildina árið 1951, var ákveðið að heimila stofnlánadeildinni að veita veðleyfi, þegar skipt væri um vélar í skipum, sem d. átti 1. veðrétt í.

Fiskiskip þau, er keypt voru með aðstoð d., eru nú flest yfir 10 ára gömul. Síðan þau voru smíðuð, hafa komið á markaðinn margar tæknilegar nýjungar, er nú þykja ómíssandi í öll fiskiskip, en voru alls óþekktar þá. Efnahagur útvegsmanna almennt er því miður þannig í dag, að fæstir af þeim, sem eiga þessa báta, geta komið þessum nauðsynlegu tækjum í þá án þess að fá til þess töluverð lán. Það getur einnig komið fyrir, að það þurfi að fara fram meiri háttar aðgerðir á þessum skipum, sem eru svo kostnaðarsamar, að nauðsynlegt er að geta tryggt til þess veðlán.

Að öllu þessu athuguðu og með tilvísun til þess, að þróun almennra peningamála hefur verið slík á síðustu 10 árum, að veðlán stofnlánadeildar sjávarútvegsins í skipum þessum eru aðeins brot af raunverulegu verðmæti skipanna í dag, mælir sjútvn. eindregið með, að mál þetta verði afgr. óbreytt.