06.02.1957
Sameinað þing: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2348)

31. mál, endurskoðun hjúkrunarkvennalaga og laga um Hjúkrunarkvennaskóla Íslands

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir á þskj. 31, er efnislega á þá lund, að Alþingi feli ríkisstj. að láta fram fara endurskoðun á lögum nr. 27 frá 19. júní 1933, svonefndum hjúkrunarkvennalögum, og einnig á lögum nr. 76 frá 20. des. 1944, um Hjúkrunarkvennaskóla Íslands, með sérstöku tilliti til þess að fá bætt úr tilfinnanlegum skorti á starfandi hjúkrunarkonum í landinu, og að niðurstöður umræddrar rannsóknar og till. til úrbóta verði lagðar fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Með till. er því á engan hátt slegið föstu, á hvern hátt lögunum verði breytt í þeim tilgangi að ráða bót á þeim stórfelldu vandræðum, sem flest eða öll sjúkrahús og hæli í landinu eiga við að etja vegna skorts á vel menntuðu starfsliði, heldur einungis gert ráð fyrir, að ríkisstj. feli hinum færustu og kunnugustu mönnum að bera saman ráð sín og gera till. um breytingar á lögunum að athugun lokinni.

Í greinargóðri og ýtarlegri framsöguræðu um þáltill. þessa gerði flm., hv. 1. landsk., svo skilmerkilega og rækilega grein fyrir því vandamáli, sem hér ræðir um, að ég tel litla þörf á að bæta þar við. Hann sýndi þar fram á, að þau stórvirki, sem unnin hafa verið og verið er að vinna í heilbrigðismálum þjóðarinnar, m.a. með byggingu fullkominna sjúkrahúsa og hæla, eru raunverulega sett í hættu og geta ekki svarað tilgangi sínum, ef okkur tekst ekki jafnframt að leysa það verkefni að skipa allar stofnanir heilbrigðisþjónustunnar starfshæfu hjúkrunarliði. Hann benti á, að legið hefði við borð, að loka yrði hælum vegna skorts á starfs]iði, en annars staðar væri ástandið slíkt, að starfseminni væri haldið gangandi með hreinum vandræðaúrræðum, svo sem þeim að ráða jafnvel að meiri hluta erlendar hjúkrunarkonur og að verulegu leyti ófaglærðar konur til starfa. Mega víst allir sjá, að slíkt ástand skapar ótrúlega erfiðleika, og það sem verst er: kemur harðast niður á þeim, sem sízt skyldi, þ.e.a.s. hinum sjúku og hjálparvana, sem eiga líf sitt og heilsu undir þekkingu, hæfni og alúð hjúkrunarliðsins. Þetta leiðir einnig af sér, að gildandi lög frá 19. júní 1933, hjúkrunarkvennalög, eru í reyndinni aðeins pappírslög orðin, en þar er svo fyrir mælt, að ekki megi ráða til sjálfstæðra hjúkrunarstarfa við sjúkrahús, elliheimili, barnahæli og skóla aðrar en fullnuma hjúkrunarkonur, sem stundað hafa nám í Hjúkrunarkvennaskóla Íslands í þrjú ár auk 8 –12 vikna forskóla.

Að sjálfsögðu verður það að teljast vafasamt, hvort unnt sé að fullu og öllu að ráða bót á hjúkrunarkvennaskortinum í landinu að þeirri leið einni að breyta gildandi lögum, sem,. hér skipta máli, enda þótt athygilsverðar ábendingar hafi komið fram um það efni, m.a. frá hv. flm. þessarar þáltill., svo sem að löggilt verði tvenns konar nám, annað skemmra fyrir aðstoðarhjúkrunarkonur, en hitt lengra fyrir þær, sem meiri ábyrgð og yfirstjórn ættu að hafa, og fleira, sem á hefur verið minnzt. En sjálfsagt virðist, að ýtarleg rannsókn og athugun hinna hæfustu manna verði látin fram fara í því efni, svo sem þáltill. ákveður, ef samþykkt verður. Eðlilegt virðist og, að athugað sé, hvort ekki væri æskilegt eða nauðsynlegt að stofnsetja annan hjúkrunarkvennaskóla við eitthvert hinna fullkomnu sjúkrahúsa úti á landsbyggðinni, ef verða mætti til þess að örva aðsókn að þessum starfa eða til að fullnægja eftirspurn eftir skólavist, ef hún er meiri en unnt er að fullnægja, en svo mun nú hafa verið um nokkurt skeið.

Eitt höfuðvandamál í þessu sambandi virðist nú vera það, með hvaða hætti unnt sé að sporna við því, að mikill hluti hjúkrunarkvenna hverfi frá starfi þegar að námi loknu. Vafalaust kemur þar margt til, þótt trúað gæti ég, að léleg launakjör ættu þar sinn stóra þátt. Gefur það auga leið, að starfi hjúkrunarkvenna muni ekki sérlega eftirsóknarverður frá efnahagslegu sjónarmiði séð, a.m.k. ef þær verða að loknu meira en þriggja ára námi að lúta lélegri launakjörum en tíðkanleg eru við störf, sem krefjast engrar sérmenntunar. Þetta hlýtur og að leiða til þess, að lærðar hjúkrunarkonur, sem giftast og stofna heimili, en þær eru að sjálfsögðu margar, sjái sér engan hag í eða möguleika á að stunda hjúkrunarstörf jafnhliða heimilisforsjá.

Til þessa alls og margs annars ber að taka tillit við endurskoðun hjúkrunarkvennalaga og laga um Hjúkrunarkvennaskóla Íslands, en sú endurskoðun krefst víðtækari þekkingar á öllum aðstæðum en unnt er að ætla, að þingmenn hafi til að bera. Því er rétt að hefja undirbúninginn að lausn vandans með þeim hætti, sem þáltill. gerir ráð fyrir.

Allshn. hefur rætt till. á tveim fundum. Hún hefur leitað um hana umsagnar landlæknis, og hefur hann upplýst, að skólanefnd Hjúkrunarkvennaskóla Íslands vinni nú að endurskoðun löggjafarinnar um þann skóla, og kynni það að flýta lausn málsins.

Að athugun sinni lokinni leggur n. til, að till. verði samþ. óbreytt, eins og nál. á þskj. 210 ber með sér.