11.02.1957
Sameinað þing: 28. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (2357)

108. mál, kjörbréf varaþingmanns

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Þessar umr. eru nú nokkuð farnar á víð og dreif, eins og þegar hæstv. forsrh. lætur sér hér sæma að ráðast annars vegar á gamlan kennara sinn, Einar Arnórsson prófessor, og bera honum öll möguleg brigzl og hins vegar á gamlan samstarfsmann í ríkisstj., Jakob Möller, og leggja á hann þungar sakir. Hæstv. forsrh. veit ofur vel, að þingrofið 1931 var talið ólöglegt af Einari Arnórssyni, sem þá var tvímælalaust fremsti stjórnlagafræðingur Íslands, og að Einar Arnórsson hafði sett þá kenningu fram, að þingrof með þessum atvikum væri ólöglegt, áður en þau atvik gerðust, sem að höndum bar 1931. Það má vel líta þannig á, og ég er einn þeirra, sem telja, að Einar Arnórsson hafi þarna ekki haft rétt fyrir sér. En það er með öllu ómaklegt af þessum fyrrv. lærisveini Einars Arnórssonar, hæstv. forsrh., að ráðast nú á hann látinn og segja, að hann hafi þarna verið fenginn til þess að halda einhverjum kenningum fram, sem Sjálfstfl. komu vel, vegna þess að Einar Arnórsson hafði sett þessar kenningar fram löngu áður, þannig að þær voru ekki miðaðar við atburðina, eins og ég þegar sagði.

Við sjálfstæðismenn lítum hins vegar á hvert mál eftir því, sem rök standa til, og víst var það eðlilegt, að margir féllust á þær skoðanir, sem Einar Arnórsson hafði haldið fram og fært rök að og kennt við Háskóla Íslands. Eins og ég segi: Þær kenningar voru umdeilanlegar, og persónulega hef ég nokkuð um það rætt í fræðilegri ritgerð og tekið fram þau atriði, sem ég tel þar skipta miklu máli. En víst skiptir það ekki minnstu máli varðandi skýringu á ákvæðunum um þingrof, að atburðirnir gerðust 1931, þingrofið var þá framkvæmt með þeim hætti, sem raun ber vitni um. Alþ. tók til starfa, var viðurkennt af alþjóð sem löglegt Alþingi Íslendinga, og þar með má segja, að úr þessari deilu hafi verið skorið í eitt skipti fyrir öll. Aftur á móti ef andstæðingar þingrofsins hefðu unnið meiri hluta á Alþ. 1931, — þeir fengu að vísu yfirgnæfandi meirihlutastuðning alþingiskjósenda, en Framsfl. varðar ekki svo mikið um það út af fyrir sig, bara ef hann getur fengið þingsætin, og víst er það lögum samkvæmt, — ef kosningar 1931 og áframhaldandi saga landsins þar með hefði orðið með öðrum hætti en hún var, þá er mjög sennilegt, að ýmsir mundu nú telja, að Einar Arnórsson hefði reynzt hafa rétt fyrir sér í þessu deilumáli frá 1931. Varðandi umdeilanleg lagaákvæði vita allir lögfræðingar, að það sker úr, að ef ákveðin venja er komin á, ákveðið fordæmi, sem náð hefur fram að ganga og allsherjar viðurkenningu, þá deila menn ekki lengur um það atriði, heldur segja: Um þetta var deilt, þangað til þessir atburðir gerðust, þangað til þessi atvik voru fyrir hendi, en með þeim atburðum var úr þessu skorið. — Þetta ætti ekki að þurfa að vera að segja hæstv. forsrh., hann sem dómsmálaráðherra og margra ára dómari veit manna bezt, hvernig hann hagar sínum störfum. En að hann skuli koma hér upp með þeim hætti, sem hann gerir, og tala á þann veg, sem hann gerir, sýnir sannast sagt betur en flest annað, hversu veikur hans málstaður er, enda segir hæstv. ráðh.: Þm. Sjálfstfl. halda því fram, að Gylfi Þ. Gíslason sé eini réttkjörni varaþingmaður Alþfl. — Þetta sagði hann hér berum orðum áðan, að við héldum því fram, að Gylfi Þ. Gíslason væri réttkjörinn varaþingmaður Alþfl. Svo byggir hann mál sitt á því að sýna fram á, hvílík endemis fjarstæða þetta er. Hæstv. forsrh. veit ósköp vel, og hann getur ekki einu sinni huggað sína annars ekki svo mjög árvökulu samvizku með slíkum blekkingum, — hann veit einmitt ósköp vel, að við höldum því fram, að Gylfi Þ. Gíslason sé ekki varaþingmaður Alþfl. Við höldum því fram og höfum sýnt fram á það með ótvíræðum rökum, að samkvæmt d-lið 31. gr. stjórnarskrár lýðveldisins er Gylfi Þ. Gíslason réttkjörinn 1. uppbótarþingmaður Alþfl., og næsti maður honum á listanum er 1. varaþingmaður Alþfl. Þetta er samkvæmt ótvíræðum fyrirmælum stjórnarskrárinnar, eins og hún er nú. Það hefur engum dottið annað í hug en þetta ætti svona að skiljast. Svo kemur hæstv. forsrh. og byggir sinn málflutning á því, að við höfum haldið fram allt öðru, þveröfugu við það, sem við höfum sagt og stjórnarskráin segir ótvírætt til um.

Hæstv. forsrh. leyfir sér hér að segja, að yfirkjörstjórnin hafi beðið Alþ. um að segja sér að gefa út kjörbréf, og hann endurtók þetta núna í tilvitnun sinni í bréf yfirkjörstjórnarinnar áðan. Það er ómögulegt fyrir þá, sem ekki voru inni í málinu, annað en að halda, að eitthvað þessu svipað stæði í bréfi yfirkjörstjórnar, en þar stendur:

„Yfirkjörstjórnin taldi ekki fært með hliðsjón af 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 117. gr. kosningalaganna, að gefa út formlegt kjörbréf til Eggerts G. Þorsteinssonar, og tilkynnti hún þá flokksforustu Alþfl. þessa niðurstöðu.“

Þetta er það, sem yfirkjörstjórnin segir. Hún taldi þetta ekki fært. Hún hefur ekki beðið Alþ. um nokkurn skapaðan hlut. Hún segir að vísu hér áfram:

„En þar sem kjörinn þm. flokksins hér í Reykjavík, Haraldur Guðmundsson, er í þann veginn að hverfa af landi burt, en enginn varamaður fyrir hann, þá telur yfirkjörstjórnin rétt, svo sem mál þetta horfir nú við og með hliðsjón af 46. gr. stjórnarskrárinnar, að senda málið til hins háa Alþ. og að það taki ákvarðanir um það, hvort Eggert G. Þorsteinsson geti talizt löglega kosinn varaþingmaður fyrir Alþfl. fyrir yfirstandandi kjörtímabil.“

Yfirkjörstjórnin neitar að gefa út kjörbréfið, segist ekki telja það fært. Hún segir, að Alþ. eigi að taka ákvörðun um þetta samkv. 46. gr. stjórnarskrárinnar, og það er alveg rétt tilvitnun í 46. gr. stjórnarskrárinnar þetta varðandi.

Hér er komið upp deilumál, sem samkv. ótvíræðum bókstaf 46. gr. stjórnarskrárinnar heyrir undir Alþ. að skera úr um, og yfirkjörstjórnin réttilega vísar málinu til Alþ. Hún neitar að gefa út kjörbréfið. Hún segir, að Alþ. eigi að taka ákvarðanir um þetta. Með þetta fyrir framan sig, með þetta í fullri vitund og minni, því að ekki er hann orðinn svo minnislaus, að hann muni ekki það, sem hann var að ljúka við að lesa sjálfur, leyfir hæstv. forsrh. sér að segja við þingheim Alþingis Íslendinga, að yfirkjörstjórnin hafi beðið Alþingi um að segja sér að gefa út kjörbréfið. Það er hægt að sanna ýmislegt með slíkum málflutningi. Það kann að vera, að slíkt dugi gagnvart þeim, sem einhliða lesa Tímann, þeim, sem einhliða vilja, að valdið nái fram að ganga, að nú sé kné látið fylgja kviði og lög og réttur að engu haft, en Alþ. Íslendinga er ekki aðeins óvirt með því að bera fram slíka till. og slíkt frv. sem nú er komið fram frá hæstv. forsrh., heldur er óvirðingin kórónuð með því að bera fram slíkar rökleysur og vísvitandi blekkingar eins og hæstv. forsrh. leyfir sér að gera. Ég hefði sannast sagt ætlað honum margt, en ekki það, að hann gengi svo langt í málafylgjunni sem raun ber nú vitni um, vegna þess að það er hvorki samboðið stöðu hans né þeirri veglegu stofnun, Alþingi Íslendinga, sem hann er nú staddur innan.

Svipað er það, þegar hæstv. forsrh. kennir mér um löggjöf, sem sett var að tilhlutun Jakobs Möllers 1942. Ég drap á það áðan, að þessi löggjöf er einmitt sett að tilhlutan ríkisstj., sem hæstv. forsrh. var sjálfur forsrh. fyrir. Jakob Möller gat ekki borið fram, hafði ekki heimíld eftir stjórnlögum landsins til að bera fram þetta frv. nema með atbeina og samþykki hæstv. forsrh. Ég var þá ekki þm. Ég hafði ekkert um þetta frv. að segja. Það var ekki undir mig borið og ekki að neinni minni tilhlutan fram sett. En hafi frv. verið hæpið og sé hæpið að samþykkja það, og víst er það alltaf mjög hæpið að setja löggjöf eftir á um atburði, sem þegar eru skeðir, þá er sá maðurinn, sem ber mesta ábyrgð á þessu af öllum núlifandi Íslendingum, sami maðurinn, Hermann Jónasson, sem ber ábyrgð á þeirri löggjöf, sem nú er verið að bera fram, en hér eins og ella reynir hann að skríða bak við náinn, sá virðulegi herra.

Það er stundum sagt, að skamma stund verður hönd höggi fegin, og ég segi það hiklaust, að bæði væri hæstv. forsrh. sæmra að sjá sig enn um hönd, áður en hann traðkar meira á lýðræði, lögum og rétti í þessu landi, og eins væri þm., sem margir vita og skilja fullvel, að hér er of langt gengið, sæmra að segja: Hingað og ekki lengra. — En veikleikinn er hjá þessum mönnum sjálfum. Á fimmtudaginn er tilkynnt í kjörbréfanefnd: Sama dag á að bera fram frv., sem sker úr málinu. — Þegar fram kom, að mér virtist þetta allfurðulegur boðskapur, þá hafði hinn varfærni og vitri þm. N-Þ. þá varúðarreglu, það kom nokkurt hik á hann, en hann lét bóka, að sér skildist eingöngu, að forsrh. ætlaði að láta skera úr málinu með þessu móti. Hann vildi sem góður flokksmaður og góður drengur taka skellinn af forsrh., ef þetta reyndist frumhlaup.

Það var ljóst, að í umr. á fimmtudag var nokkurt hik komið á forsrh. Hann tók ekki til máls til staðfestingar því, að þennan boðskap ætti að lögfesta, þrátt fyrir það að þess væri beinlínis krafizt af hæstv. forseta Nd., Einari Olgeirssyni, að lög væru sett. Hæstv. forsrh. þagði þá um það atriði og tók ekki afstöðu til þess. Og það var alkunnugt mál og vitað, að Alþýðuflokksmenn létu það þá eftir sér heyrast, að þeir mundu ekki sætta sig við, að Eggert Þorsteinsson yrði gerður þm. með slíkri löggjöf eftir á, löggjöf, sem sett væri mörgum mánuðum eftir kosningar og þvert ofan í stjórnarskrá landsins. Svo var af skyndingu boðað til fundar hér á laugardag, af svo mikilli skyndingu, að hinn virðulegi þm. V-Húnv., Skúli Guðmundsson, rís hér upp og bendir á, að ekki hafi unnizt tími til þess að kalla til jafneindreginn forustumann þingsins og stjórnarstuðningsmann og hann. Úr því að slíkt var ekki viðhaft við slíka stórhöfðingja, má nærri geta, hvernig um þá minni hefur farið, enda tók annar höfuðstólpi Framsfl., Steingrímur Steinþórsson, undir það hér áðan, að hann hefði ekki fengið fundarboð, og sá, sem á nú mestan framgang í vændum innan flokksins, Eiríkur Þorsteinsson, staðfesti það einnig, svo að eitthvað hefur legið á, úr því að allir þessir höfðingjar voru hvergi til kvaddir. (Gripið fram í.) Já, þm. Reykv., hann gætir vel sinnar skyldu, enda er það sannast bezt að segja, að þessi fundur hefði ekki orðið löglegur, ef við nokkrir sjálfstæðismenn, sem komum hingað niður eftir, hefðum ekki gert það af góðsemi okkar að koma inn í deildina til þess að efna til löglegs fundar. Við sáum, að þeir voru margir daprir og svefnþreyttir, framsóknarmenn, og vildum ekki ómaka þá aftur seinna um daginn til slíks fundarhalds, jafnlítið ánægjulegt og tilefnið var. Þakkirnar fyrir það eru svo þær, að það er sagt í Alþýðublaðinu í gær, að ég hafi verið hér mjög reiður á fundinum. Enginn er dómari í sjálfs sín sök, en blaðið segir, að það hafi undir glotti mínu leynzt reiði. Það er sem sagt ekki einungis, að þegar ég verð reiður, er ég reiður, heldur einnig ef ég er brosandi, er ég líka reiður. Það stendur á sama, hvernig að er farið. Hitt skal ég játa, að þegar það var borið hér upp, að það ætti að fara fram atkvgr. um það, hvernig þessi till. skyldi rædd, þá beindi ég þeirri spurningu til hæstv. forseta, hvort sú atkvgr. þyrfti að fara fram vegna þess, hve till. væri vitlaus. Það er alveg rétt. Ég játa þá sök á mig.

En svona stóð málið á laugardag, að þá átti að leysa málið með þál. Lögin, sem voru boðuð á fimmtudagsmorgun, höfðu ekki séð dagsins ljós. En þá kemur það fram, sem stundum vill verða, að það þarf lítið til þess að æra óstöðugan, og í Morgunblaðinu í gær stóð, að kappinn, hæstv. forsrh., hefði látið heykjast á því að setja löggjöf og skera úr málinu. Þar með hafði hinn ráðagóði Bjarni Ben. dregið upp þá dulu, sem dugði til þess að egna Hermann Jónasson fram, þannig að nú er lögunum skellt fram, eingöngu til þess, að því er á hæstv. forsrh. var að heyra, að ekki sannaðist, að hann hefði látið heykjast í slíku máli. Ef lög þurfti á fimmtudag til þess að skera úr málinu, af hverju var það ekki í gildi líka síðdegis á fimmtudag, þegar greidd voru atkv. samkv. 46. gr. stjórnarskrárinnar? Af hverju var það ekki nauðsynlegt á laugardag, þegar þáltill. var flutt? Af hverju var þáltill. nóg á sunnudag, þegar stjórnarblöðin segja með mikilli gleði frá þessari nýju leið, sem nú sé fundin til þess að leysa þetta vandamál? Af hverju er það fyrst eftir að hæstv. forsrh. les Morgunblaðið á sunnudag eða í dag, að hann vaknar aftur til vitundar um það, að það verði nú endilega ofan á þáltill. að skera úr um þetta með lögum, en þvert ofan i það, sem Alþingi er búið að ákveða með atkvgr. s.l. fimmtudag? Þar var skorið úr málinu í eitt skipti fyrir öll. Þá var fellt að taka kosningu þingmannsins gilda. Hæstv. forsrh. segir: Það kom annar þingvilji í ljós með grg., sem upp voru bornar. — En grg. eru ekki sama og atkv., og ef hann á ekki skeleggari stuðningsmennina en svo, að þeir vilji ekki standa með honum í atkvgr., þá getur hann hvorki breytt þeirri atkvgr., sem fram er búin að fara, eftir á með lögum né þingsályktun.

Þá gerði hæstv. forsrh. mjög úr því, að samkv. 128. gr. kosningalaganna væri flokksstjórn heimilt að ákveða að bæta varaþingmönnum við, svo mörgum sem vildi eða þyrfti. Ég bið hv. alþm. að veita því athygli, að hæstv. ráðh. sagðist ekki skyldu verja þetta ákvæði, það bara væri fyrir hendi og þm. Sjálfstfl., ég og aðrir, hefðum aldrei neitt að því fundið fyrr en núna allt í einu, að við værum farnir að finna að því.

Ég vil fyrst minna á það, að hér sem stundum ella heggur sá, er hlífa skyldi. Þeir, sem áttu meiri hluta á Alþingi, þegar kosningalögin voru sett, voru einmitt sömu flokkar sem nú eru að burðast við að koma hinum ágæta manni, Eggert Þorsteinssyni, inn í þingið. Það voru Framsfl. og Alþfl., sem þá höfðu meiri hluta á Alþingi og umfram allt bera ábyrgð á löggjöfinni, ef hún er hæpin. En svo vill til, að ég hef þegar og fyrir nokkuð mörgum árum látið uppi álit um þetta atriði, sem hæstv. forsrh. gerir nú að meginmáli í sinni kenningu, og það er 1935, fyrir 22 árum. Einu ári eftir að þetta ákvæði kosningalaganna var sett, gaf ég að nýju út ágrip af íslenzkri stjórnlagafræði, sem Einar Arnórsson hafði samið í fyrstu og ég bætt inn í þeim atriðum, sem miðuðu að nýrri löggjöf, og segir, með leyfi hæstv. forseta, í þessari bók, sem er gefin út fjölrituð 1935 og hefur síðan verið stofn þess, sem um þetta hefur verið kennt í háskólanum: „Ef ekki eru nógu margir efstir á lista þingflokks, til þess að full tala þingmanna og varaþingmanna fáist af listanum, nefnir hlutaðeigandi flokksstjórn til menn, sem koma neðst á listann, eftir því sem þarf til viðbótar á listanum (128. gr., 3. mgr.).“ Svo heldur áfram: „Flokksstjórnin sýnist ekki vera bundin við frambjóðendur, þegar hún tilnefnir slíka menn, og geta þeir þannig orðið þingmenn eða varaþingmenn, sem alls ekki hafa boðið sig fram við kosningarnar. Er þessi tilnefningarheimild flokksstjórnanna allhæpin, vegna þess að á Alþ. skulu eiga sæti samkv. 26. gr., 1. mgr. stjórnarskrárinnar þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegum kosningum, en erfitt sýnist vera að heimfæra þar undir menn tilnefnda af flokksstjórnum eftir þær eiginlegu kosningar. Verður því væntanlega að telja fyrri mgr. 128. gr. kosningalaganna brjóta í bága við stjórnarskrána, og verður þá sá flokkur, sem eigi hefur næga menn í öll uppbótarsæti samkv. framansögðu, að vera án uppbótarsæta, að svo miklu leyti sem mennirnir hrökkva ekki til.“

Þetta skrifa ég 1935. Hæstv. forsrh. segir hér: Ja, sjálfstæðismenn hafa hingað til aldrei haft neitt á móti þessu. Það kemur ósköp einfaldlega af því, að það er rétt, sem ég segi svo í næstu setningu á eftir: Praktískt er þetta vitanlega ekki. — Þetta er ekki praktískt, vegna þess að það eru ætíð svo margir fallnir frambjóðendur til hjá flokkum, að þetta ákvæði hefur enga raunhæfa þýðingu. En á þessu ákvæði, sem búið er að kenna yfir 20 ár í háskólanum og ég einmitt bendi fyrstur manna á að ekki fái staðizt samkv. stjórnarskránni, byggir hæstv. forsrh. mikinn hluta af sinni rökleiðslu hér í hv. Alþingi og leyfir sér meira að segja að halda því fram, að sjálfstæðismenn hafi aldrei haft neitt við þetta að athuga, þegar það liggur fyrir í heimild, sem hann gat ósköp vel aflað sér og átti að afla sér. Áður en hann fór að kveða upp um þetta slíkan fræðilegan og embættislegan dóm sem hann hefur viðhaft hér i dag, átti hann að afla sér upplýsinga um það, hvernig hefur verið litið á þetta, hvað hefur um þetta verið kennt, t.d. í háskólanum. Þvert ofan í það segir hann einfaldlega og fullyrðir og nefnir mig, að ég hafi aldrei haft neitt við þetta að athuga. Með slíkum rökum er auðvitað hægt að sanna ýmislegt, og ég segi það eins og er, að ég óttast, að hv. þm. séu nú búnir að láta binda sig svo mjög í þetta mál, að það verði ekki leyst með rökum. Ég er hræddur um það. Ég er hræddur um, að hér verði flokksvaldið látið ráða. Ég sé það á svipnum á hv. þm. V-Húnv., að hann tekur það mjög nærri sér að eiga að gera hér rangt, en hann hefur sem betur fer nokkra æfingu í því, svo að ég vonast til þess, að það verði honum ekki til aldurtila, en hitt er ég viss um, að þetta verður ekki hv. þm. til sæmdar, og þetta er mjög til áfellis tryggð þeirra og trúmennsku við þingræðið og þær lýðræðis- og lagareglur, sem þeir hafa unnið eið að að halda.

Um þetta væri ýmislegt fleira hægt að segja og mörgum fleiri rökum hægt að koma að. Vera kann, að mér gefist tækifæri til þess síðar, en vegna þess að það er sérstaklega eitt atriði, sem ég hef ekki haft færi á að kanna og get ekki kannað, nema með því að verja til þess nokkrum tíma, vildi ég mega mælast til þess að mega halda ræðu minni áfram eftir fundarhléið, vegna þess að ég á ekki kost á því að koma með athugasemd siðar við umr. — [ Fundarhlé.]

Herra forseti. Um þetta mál mætti auðvitað tala lengi enn, en ég skal stytta mál mitt, enda mun ég gera till. um það, að málið gangi til n., ef því verður ekki vísað frá. En ég vil þó bæta við nokkrum atriðum, sem mér vannst ekki tími til að víkja að áðan.

Ég vitnaði skýrt til þess í þeim orðum, sem ég sagði um þau ákvæði um varaþingmenn uppbótarþingmanna, sem hæstv. forsrh. vitnaði til og lagði mjög ríka áherzlu á að heimiluðu flokksstjórnum að velja uppbótarmenn, að sjálfur hefði ég þegar fyrir 22 árum látið það uppi í rituðu máli, að það ákvæði fengi ekki staðizt samkvæmt stjórnarskránni. Og ég vil benda á, að Einar Arnórsson, sem allra manna bezt var að sér í íslenzkum stjórnlögum, var einnig á sömu skoðun, því að í Réttarsögu Alþingis, útgáfunni frá 1945, segir hann berum orðum á síðu 633: „Verður ekki betur séð en að þetta fari í bága við ákvæði stjórnskipulaga.“ Þannig liggur þetta meginatriði, sem hæstv. forsrh. byggði mjög málflutning sinn á, alveg ljóst fyrir, bæði með því, sem ég hef áður sagt, og því, sem aðrir hafa um það ritað á fræðilegum grundvelli.

Þá vil ég aðeins drepa á það, sem hæstv. forsrh. vitnaði til og var einmitt gott að rifja upp í þessu sambandi, að á sínum tíma var Gísli Sveinsson skipaður sendiherra. Er hann hafði verið skipaður sendiherra, varð vitanlega að fara fram aukakosning í hans kjördæmi, og Framsfl. sýndi ekki Sjálfstfl. þá tilhliðrunarsemi og ætlaðist enginn til þess af honum, að hann léti vera að bjóða fram á móti okkar fulltrúa þar, þótt við ættum þm., heldur buðu þeir fram og unnu kjördæmið með örfárra atkvæða mun. Ef þeir hefðu þá viljað fylgja slíkri sanngirnisreglu sem þeir vitna svo mjög til í þessu sambandi, þá hefðu þeir vitanlega látið vera að bjóða fram. Slíkt gerðu þeir ekki, heldur fóru að eins og venja hefur verið, ef þingsæti losnar. Þá er kosið um manninn að nýju, og allir aðilar verða að sætta sig við þau úrslit, sem ofan á verða.

Hitt er fjarstæða, þegar hæstv. forsrh. heldur því fram, að vegna þess að Jakob Möller, Gísli Sveinsson og Sigurður Nordal hafi verið gerðir að sendiherrum, hafi þeir þar með verið sendir í svipaða útlegð og Haraldur Guðmundsson á nú að fara í. Það vita allir, að atvik voru mjög ósambærileg um alla þessa ágætu menn. Vitanlega eru til sendiherrar, sem ekki eru í útlegð í þeim skilningi, sem við tölum um hér, en Haraldur Guðmundsson varð fyrir því óhappi að taka, að því er stjórnarflokkarnir telja, of skýrt fram í síðustu útvarpsumræðum fyrir alþingiskosningar, að Alþfl. og Framsfl. mundu alls ekki vinna með Alþb. eða kommúnistum, og vegna þess að á móti þessu loforði hans var brotið, hefur verið talið nauðsynlegt að losna við þennan ágæta mann af Alþingi, og ráðið til þess er, að hann er settur í stöðu, sem meiri hluti núverandi stjórnarflokka hefur allt þangað til nú talið að væri óþörf og ætti að leggjast niður, það mætti vel vera án sendiherraembættisins í Osló. Ég hika ekki við að fullyrða, að slík sending er forsending og ekki líkjandi við neitt annað en útlegð.

Þá hélt hæstv. forsrh. áfram að vitna til einstakra ákvæða stjórnarskrárinnar án þess að vilja viðurkenna, að þau ákvæði verður vitanlega að skilja í samræmi hvert við annað, alveg eins og ég hef þegar sagt, að ef Alþfl. átti rétt til uppbótarþm. á annað borð, þá var Gylfi Þ. Gíslason auðvitað sá, sem fyrstur Alþýðuflokksmanna átti að taka við því sæti, og að því leyti réttkjörinn. Það er alveg eins og ef sú setning er tekin ein út af fyrir sig, að ég segi: Gylfi Þ. Gíslason er rétt kjörinn 1. uppbótarþingmaður Alþfl., að því sé haldið fram statt og stöðugt, að nú sé ég búinn að viðurkenna, að Gylfi Þ. Gíslason hafi verið rétt kjörinn 1. uppbótarþm: Alþfl., og væri það eftir öðrum málflutningi að fara nú að halda því fram, þó að þau ummæli mín verði auðvitað að skiljast í samræmi við það, sem ég hef alltaf fyrr og síðar haldið fram, að Alþfl. ætti ekki rétt á neinum uppbótarþm. Og ef sá skilningur hefði orðið ofan á, að Alþfl. ætti ekki rétt á neinum uppbótarþm., þá hefði Gylfi auðvitað orðið fyrsti varaþm. Alþfl. En einstakar setningar verður vitanlega að skilja í sambandi við málflutninginn í heild, og ætti ekki að þurfa að ítreka það.

Að öðru leyti skal ég ekki á þessu stigi lengja mál mitt. Ég tel óhjákvæmilegt, að ef þessu máli á að halda til streitu, þá beri að vísa því til kjörbréfanefndar til athugunar þar.

Ég tel hitt þó réttara, að Alþ. láti nú þegar uppi þá skoðun sína, að málíð sé ranglega upp tekið, og leyfi mér því að bera fram og afhenda hæstv. forseta svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

„Yfirkjörstjórn hefur þegar neitað að veita Eggert G. Þorsteinssyni kjörbréf sem varaþm. Alþfl. í Reykjavík, og Alþingi hefur samkvæmt 46. gr. stjórnarskrárinnar fellt að taka hann gildan sem réttkjörinn varaþm., enda mundi þingseta hans bersýnilega brjóta gegn 31. gr. stjórnarskrárinnar. Alþingi telur því till. þessa óþinglega og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ef þessi tili. verður ekki samþ., þá ber ég fram sem varatill., að málinu verði vísað til athugunar kjörbréfanefndar.