07.11.1956
Sameinað þing: 6. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (2363)

26. mál, leirverksmiðja í Dalasýslu o. fl

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég bjóst við, að þessi till. mundi fara til allshn. eins og aðrar þær till., sem hliðstæðar eru, en ég ætla samt ekki að gera það að minni tillögu. En þar sem ég reikna með, að till. fari til fjvn., vildi ég taka það fram strax, að ég mun flytja brtt., sem er þess efnis að binda ekki þessa rannsókn eingöngu við Búðardal. Þótt vitað sé, að þar sé allmikill leir í jörðu, þá er hitt einnig vitað mál, að leirlög eru allvíða í jörðu innan Dalasýslu. Og það eitt út af fyrir sig að binda þessar rannsóknir við Búðardal gæti leitt til þess, að það kæmi aldrei leirverksmiðja í Dalasýslu, þótt möguleikar væru á því ella. Þess vegna tel ég ekki rétt að binda þessar rannsóknir við Búðardal einan saman, heldur að þessi rannsókn á byggingu leirverksmiðju verði bundin við héraðið sem heild, og ýmis önnur skilyrði að sjálfsögðu koma þar til greina, eins og hv. 11. landsk., flm., benti á. Mun ég síðar flytja brtt., sem ég vænti að hv. fjvn. taki til athugunar samhliða því, sem hún fjallar um þetta mál.