07.11.1956
Sameinað þing: 6. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (2364)

26. mál, leirverksmiðja í Dalasýslu o. fl

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Mér er að sjálfsögðu ánægja að heyra hina vinsamlegu afstöðu, sem hv. þm. Dal. tekur til þessa máls. Hann er náttúrlega betur að sér í þingsköpum en ég; þannig veit ég ekki satt að segja, hvort venja er að vísa svona till. til allshn. eða fjvn., en það skiptir ekki höfuðmáli.

Þm. Dal. gerði nokkra athugasemd við, að ég hef valið þessari leirverksmiðju stað á pappírnum í Búðardal í Dalasýslu. Það er að sjálfsögðu alveg rétt hjá honum, að leirlög eru víðar fyrir botni Hvammsfjarðar en eingöngu í Búðardal, og fyrir mér vakti að sjálfsögðu að láta kanna þessi leirlög og taka síðan leirinn þar, sem hann væri beztur. En hitt benti ég ýtarlega á, bæði í grg. og framsöguræðu, að Guðmundur Einarsson, sem mest hefur unnið að rannsókn þessara mála, hefur tekið allan sinn leir einmitt úr Búðardal, og sú gróf, sem hann tekur leirinn úr núna, er rétt upp undan sýslumannshúsinu, enda veit ég, að í Búðardal og næsta nágrenni er mikil gnægð af leirlögum, og Guðmundur Einarsson hefur sérstaklega bent á þann stað.

Þó að ég hafi þetta mælt, þá sé ég ekki ástæðu til að einskorða till. algerlega við Búðardal, og að sjálfsögðu væri ágætt og æskilegt, að leirverksmiðja risi upp einhvers staðar í Dalasýslu. En eins og málum er nú háttað, eru allar líkur til þess, að Búðardalur sé langheppilegasti staðurinn.