01.03.1957
Sameinað þing: 42. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (2374)

130. mál, lán fyrir Flugfélag Íslands h/ftil flugvélakaupa

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Till. sú, sem verið var að mæla fyrir á þskj. 303, er þess eðils, að sjálfsagt virðist, að hún verði samþykkt, og það er ánægjulegt, að Flugfélag Íslands skuli nú eiga kost á því að fá slíkar flugvélar sem hér eru nefndar, því að vissulega er þörf á því að endurnýja þær flugvélar, sem hafa verið í notkun hjá Flugfélaginu. Enda þótt þær séu öruggar, svara þær ekki lengur kröfum tímans. En ég bjóst við því, að í þessari till. væri einnig farið fram á heimild til þess að ganga í ábyrgð fyrir hitt flugfélagið, þ.e. Loftleiðir.

Við vitum það, að Loftleiðir eiga einnig kost á því að kaupa flugvélar í Bandaríkjunum, sem sérstaklega henta til langflugs á milli Bandaríkjanna og Evrópu. Og það er eins ástatt með Loftleiðir og Flugfélag Íslands, að það félag verður að skipta um flugvélar, ef það á að halda áfram millilandaflugi. Mér hefur skilizt á forráðamönnum Loftleiða, að þeir þurfi nú þegar á ábyrgðinni að halda, ef þeir eigi ekki að missa af strætisvagninum og fá þá samninga, sem þeir eiga kost á í Bandaríkjunum.

Það má vera, að Loftleiðir hafi ekki enn getað til fullnustu svarað þeim kröfum, sem ríkisstj. hefur gert, áður en hún ljær máls á því að veita ríkisábyrgð. En mér þætti fróðlegt að heyra frá hæstv. fjmrh., hvort hann eða ríkisstj. hyggst ekki veita Loftleiðum sams konar fyrirgreiðslu og nú er ákveðið að veita Flugfélagi Íslands, ef Loftleiðir h/f geta boðið eitthvað svipað og Flugfélagið.

Ég teldi það mjög ánægjulegt, ef við gætum nú innan skamms fengið fjórar nýjar millilandaflugvélar, sem svara fyllstu kröfum tímans, og það mætti þá segja, að vel og maklega væri gert við okkar ágætu og dugandi flugmannastétt, sem hefur verið þjóðinni til sóma hvarvetna, sem flugmenn okkar hafa komið. Og það mætti þá einnig segja, að sú byrjun, sem hefur verið hafin í sambandi við flugið, væri ekki til einskis og að þetta væri vottur þess, að Íslendingar hefðu hug á því að verða dugandi farmenn loftsins, ekki aðeins nú, heldur einnig í framtíðinni.