06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (2386)

124. mál, sameign fjölbýlishúsa

Flm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á hv. Alþ. þáltill. þá, sem er á þskj. 271. Till. fylgir allýtarleg grg., sem skýrir að miklu leyti tilgang þessarar þáltill. Ég get þó ekki stillt mig um að fara um till. og mál það, er hún fjallar um, nokkrum frekari orðum.

Það er hv. alþm. kunnara en frá þurfi að greina, hve húsnæðismálin eru orðin stórkostlegt vandamál hjá þúsundum manna og þá sérstaklega hér í þéttbýlinu, Reykjavík og kaupstöðunum við Faxaflóa. Þetta vandamál hefur nú á þrem síðustu árum tekið þann farveg, að til róttækra og skjótra ráðstafana þarf að grípa, ef ekki eiga að hljótast af stórkostleg vandræði.

Flm. þessarar till. er fullkomlega ljóst, að till. þessi, ef samþykkt verður, leysir ekki nema einn þátt þessa vanda, en er þó spor í rétta átt.

Víð setningu laganna um húsnæðismálastjórn og hið almenna veðlánakerfi á árinu 1955, sem var nokkurs konar framhald af lánadeild smáíbúða, var hrundið af stað einni mestu byggingaöldu, sem um getur hér á landi, án þess að nokkur takmörk væru fyrir því sett, hvernig byggt yrði, stórar eða litlar íbúðir, sérstök einbýlishús eða fjölbýlishús. Bjartsýni manna óx skyndilega, eftir nokkurra ára kyrrstöðu í byggingarframkvæmdum. Óheppileg túlkun á lögum þessum mun og eiga drjúgan þátt í því ástandi, sem nú ríkir meðal þessa fólks, því að það er vægast sagt hörmulegt. Flestir munu að sjálfsögðu hafa ætlað sér að fá hámarkslán samkvæmt hinum fyrrgreindu lögum, sem heimiluðu allt að 100 þús. kr. á íbúð.

Hámark þetta var þó fljótlega fært niður í 70 þús. kr., og margir hafa fengið allt niður í 25–35 þús. kr., og sjá allir, hvað mikil lausn það er með núverandi verði nýbyggðra húsa, tryggt með 1. veðrétti í eigninni.

Staðreyndin er svo sú, að um 2000 umsóknir liggja óafgreiddar og hafa enga úrlausn fengíð hjá húsnæðismálastjórn auk alls þess fjölda, er fengið hefur lægri lán en 70 þús. kr. Þetta fólk hefur velflest lagt allt sitt sparifé og fjölmargir einnig sparifé kunningja og frændfólks auk bankavíxla og annarra lausalána í byggingar sínar, sem vegna lánsfjárskorts standa hálfgerðar og jafnvel rétt fokheldar.

Ýkjulaust er óhætt að margfalda þennan umsóknafjölda með fimm til þess að fá þá réttu útkomu, þess mannfjölda, ungra og gamalla, sem í þessum vanda er staddur.

Er þá ótalinn sá kunningja- og skyldmennahópur, sem einnig hefur rúið sig að sparifé til hjálpar hinu nauðstadda fólki í von um lán og þá fyrst og fremst frá hinu opinbera.

Af framansögðu er ljóst, að lán til þessa fólks er ekki að öllu leyti ný fjárfesting, heldur mun verulegur hluti lánanna fara til greiðslu á áföllnum skuldum og til þess að fullgera þann fjölda íbúða, sem legið hafa ónotaðar vegna þess, að fé hefur skort til lúkningar þeirra.

Þótt ekki væri litið á þá erfiðleika, sem ástand þetta veldur í lífi fyrrgreindra fjölskyldna, þá er hér um geysilegt þjóðhagslegt tjón að ræða, þar sem hin ónotuðu og hálfbyggðu hús eru.

Með nokkrum sanni má segja, að þessar fjölskyldur búi hver um sig í tveim íbúðum, þeirri, sem þær raunverulega búa í, og þeirri, sem stendur hálfbyggð og ónothæf.

Það verkefni, sem liggur því fyrir nú, er að minni hyggju í fyrsta lagi að fullgera þær hálfgerðu íbúðir og gera þær nothæfar; í öðru lagi að áætla fjárfestingarþol þjóðarinnar til íbúðarhúsa og beina nýbyggingum sem mest inn á byggingu fjölbýlishúsa, sem sannað er að eru mun ódýrari en sérstök einbýlishús og ekkert lakari að gæðum, nema síður sé. Í þriðja lagi þarf og að takmarka stærð íbúðanna, a.m.k. meðan verið er að útrýma stórlega heilsuspillandi húsnæði, sem þúsundir fólks búa nú í.

Í þessum málum má ekki viðhafa neina blekkingarstarfsemi til þess eins að þjóna þankagangi um, hvernig menn helzt kysu að hafa þessar framkvæmdir, þegar vitað er, að óframkvæmanlegt er að hafa þær á þann veg.

Jafnframt þessum ráðstöfunum er og nauðsynlegt að efla afkastagetu byggingarsjóðs verkamanna, sem nú skortir stórlega fé og m.a. kemur fram í of háum framlögum þeirra, er þar eiga rétt til íbúða.

Með ráðstöfunum í þessa átt ættu að verða betri möguleikar á að koma í veg fyrir, að aðrir legðu út í byggingar en þeir, sem möguleika hefðu til þess að ljúka þeim og taka til afnota. Á sama hátt sköpuðust betri möguleikar af hálfu þess opinbera til þess að ná saman endunum milli veittra lána og byggðra íbúða.

Það ófremdarástand, sem nú ríkir, snertir a.m.k. 10–12 þús. manns í Reykjavík einni, þegar meðtalið er það vinnuafl, sem afkomu sína byggir á byggingu íbúðarhúsa. Öryggisleysi eða stefnuleysi í þessum málum er því eitt af okkar stærstu og viðkvæmustu málum. Stórar sveiflur í þeim fram og til baka leiða einnig af sér, að þjálfað vinnuafl til húsbygginga verður vart fyrir hendi, en það hefur aftur í för með sér óvandaðri vinnu. Þess vegna er það skylda valdhafanna á hverjum tíma að segja þjóðinni skýrt og afdráttarlaust, hvers hún er megnug í þessum málum, og haga aðgerðum sinum samkvæmt því.

Í sambandi við þá leið að byggja eingöngu fjölbýlishús heyrast oft raddir um, að fólk sé tregt til að búa í slíkum húsum af ótta við árekstra og heimilisófrið. Þessari till. minni er ætlað að undirbúa gagnráðstafanir gegn slíkum möguleikum. Undirbúin verði heildarlöggjöf um afnot sameignarhluta fjölbýlishúsa. Þannig ætti öllum að verða ljóst fyrir fram, hverjar skyldur og kvaðir fylgja slíkri sambúð, og árekstrar því óþarfir.

Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til þeirrar grg., er till. fylgir.

Það hefur verið ákveðin ein umr. um till., en ég vildi mega leyfa mér að óska eftir því, að umr. yrði frestað á einhverju stigi, sem forseti velur um, og till. yrði vísað til allshn., með ósk um, að n. hraði afgreiðslu málsins svo sem unnt er.