18.03.1957
Efri deild: 71. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2400)

134. mál, löggæsla á skemmtisamkomum og þjóðvegum

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem allshn. hv. d. flytur á þskj. 335, felur í sér áskorun á hendur hæstv. ríkisstj. um, að fram fari endurskoðun á lagaákvæðum um löggæzlu á skemmtisamkomum og mannfundum, einkum þar sem ekki er fast lögreglulið, svo sem í sveitum, kauptúnum og smærri kaupstöðum, og enn fremur á ákvæðum um eftirlit með umferð á þjóðvegum.

Allshn. hefur fyrir skömmu haft til meðferðar og afgreiðslu frv. til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 58 frá 1954, á þskj. 43, flutningsmaður hv. þm. Barð., en frv. þetta var á dagskrá í dag hér í hv. deild. Það frv. fjallar um löggæzlu á veitingastöðum og hvers konar mannfundum og allmikla hækkun á ýmsum sektarákvæðum við brotum á áfengislögunum.

Það kom í ljós á fundum nm., eins og raunar þegar hefur verið gerð grein fyrir, að nm. voru að vísu ekki einhuga um afstöðu til einstakra atriða þessa frv., en n. var sammála um að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá á þskj. 334, og sú dagskrártill. fól í sér, eins og kunnugt er, að n. teldi ekki heppilegt að taka út úr og gera breytingu á einum þætti um löggæzlu á skemmtisamkomum og veitingahúsum, heldur bæri nauðsyn til að endurskoða í einu lagi lagaákvæði um þessi efni, og í samræmi við það hefur n. flutt þessa þáltill., sem hér er á dagskrá.

Þrír nm. hv. allshn. eru sýslumenn úr þrem landsfjórðungum og hafa því talsverðan kunnugleika á þeim vandamálum, sem hér er um að tefla. Það er einn þáttur í starfi okkar að reyna að halda uppi ráðstöfunum í löggæzluskyni í sveitum þeim, sem við höfum lögsögu yfir, annast dómsrannsóknir, þegar umferðarslys ber að höndum, og stýra margs konar málarekstri í sambandi við slíka hluti.

Í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 27 frá 1951, eru æði ýtarlegar reglur um lögreglumenn almennt. Þær miðast aðallega við almenna framkvæmd löggæzlu i kaupstöðum, þar sem föstu lögregluliði er á að skipa, og þau lúta meir að framkvæmd löggæzlu og rannsókn brotamála en að skipulagi löggæzlunnar í landinu. Slík ákvæði er hins vegar að finna í lögum um lögreglumenn, nr. 50 frá 12. febr. 1940. Þau lög eru að sjálfsögðu góð og gagnleg, svo langt sem þau ná, en 17 ár eru nú liðin síðan þau voru sett, og á þeim tíma hafa orðið stórfelldar breytingar í landinu, samgöngur eru orðnar miklu greiðari og fjöldi ökutækja er orðinn margfaldur á við það, sem þá var. Aðstæður allar hafa breytzt það mikið, að full þörf er á, að ákvæði þessi verði endurskoðuð og löggjöf um þessi efni verði miðuð við ástandið í dag.

Ég skal aðeins nefna tvö atriði í sambandi við þessi mál til frekari glöggvunar, annað um löggilta gæzlumenn skv. 10. gr. laga nr. 50 1940. Sá háttur hefur verið hafður um þóknun þessara manna, að þeir hafa fengið helming hennar greiddan úr ríkissjóði. Um hinn helminginn hefur á ýmsu oltið. Sums staðar hefur sá hluti verið greiddur úr viðkomandi sveitarsjóði eða jafnvel úr sýslusjóði, og annars staðar hefur sá, sem stofnar til skemmtunar og stendur fyrir henni, orðið að greiða þennan helming kostnaðar við löggæzluna. Upphæð þóknunar löggæzlumanna hefur verið á reiki og enginn fastur taxti, sem gilt hefur um allt land. Þessum löggæzlumönnum hefur verið látin í té einkennishúfa á kostnað ríkissjóðs, en ekki önnur einkenni lögreglumanna. Stundum hafa þeir fengið einkennisbúning á kostnað sveitarsjóðs eða jafnvel á kostnað ríkissjóðs, en stundum alls engan eða þeir hafa fengið sér einkennisbúninga á eigin kostnað. Þetta m.a. hefur orðið til þess, að löggæzlumennirnir hafa uppgefizt á starfinu og enginn fengizt til að taka við af þeim.

Fyrir nokkrum árum var efnt til námskeiðs á Akureyri fyrir löggæzlumenn á skemmtisamkomum og mannfundum í sveitum með það fyrir augum, að þeir tækju að sér slíka löggæzlu. Aðalkennari námskeiðsins, sem var vel menntaður lögreglumaður héðan úr Reykjavík, brýndi það fyrir nemendum eða þeim, sem á námskeiðinu voru, að taka ekki að sér löggæzlu, nema þeim væru látin í té einkennisföt lögreglumanna. Afleiðingin af þessu varð sú, að menn þessir fengust ekki til löggæzlustarfa, þótt þeir hefðu samvizkusamlega lokið sínu námskeiði, vegna þess að engin tök voru á því að láta þeim í té einkennisföt lögreglumanna. Þau fengust ekki greidd úr ríkissjóði né á annan hátt.

Í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og í Skagafjarðarsýslu hafa fengizt staðfestar reglugerðir um löggæzlu í sveitum. Óeðlilegt sýnist, að hver sýsla í landinu hafi sínar sérstöku reglur meira eða minna mismunandi í þessum efnum. Hitt er á allan hátt eðlilegra, að samhljóða reglur gildi hér um í öllum sýslum landsins.

Hitt atriðið, sem ég vildi benda á í þessu sambandi, er um bifreiðaeftirlitsmenn. Þeir hafa starfað hér á landi nokkra áratugi; og í bifreiðalögum eru ákvæði um skipun þeirra og störf og lagt í vald ráðherra að ákveða þar um. Í framkvæmdinni hefur þetta verið þannig, að lögreglustjórinn í Reykjavík hefur a.m.k. hin síðari ár haft á hendi stjórn bifreiðaeftirlits ríkisins undir yfirstjórn ráðherra. Þetta er að vísu framkvæmdaratriði, en athugunarmál er, hvort ekki sé ástæða til þess að setja löggjöf um eftirlit þeirra á þjóðvegum og að bifreiðaeftirlitsmenn lúti stjórn viðkomandi sýslumanns eða bæjarfógeta. Lögreglustjórinn í Reykjavík, þótt ágætur sé, hefur vitanlega enga aðstöðu til að fylgjast með störfum bifreiðaeftirlitsmanna úti á landi og því óheppilegt, að honum sé falin stjórn þeirra bifreiðaeftirlitsmanna, sem starfa utan Reykjavíkur.

Ég hef drepið hér aðeins á örfá atriði af mörgum um þessi mál. En við, sem flytjum þessa þáltill., erum sammála um, að þessi mál þurfi að takast til athugunar með setningu nýrrar löggjafar fyrir augum. Lög og reglur hér um verði samræmdar betur en nú á sér stað og fullt tillit verði tekið til aðstæðna þeirra í þessum málum, sem við búum við í dag.

Hv. þm. Barð. (SE) flytur á þskj. 348 brtt. við þáltill. hv. allshn., sem hér er á dagskrá. Brtt. þessi er í því fólgin, að inn í þáltill. verði skotið einni setningu á þessa leið:

„Við þessa endurskoðun skal að því stefnt, að dregið verði úr áfengisneyzlu á samkomum.“

Nú liggur það í augum uppi og má hverjum manni ljóst vera, að þótt þessi setning væri ekki í þáltill., væri það m.a. hluti af verkefni þeirra, sem falin yrði sú endurskoðun, sem þáltill. ráðgerir, að hlutast til um lagasmið, sem m.a. hefði það að markmiði að draga úr ólöglegri áfengisneyzlu á samkomum. Hins vegar ætti þessi væntanlega lagasmíð að fjalla um marga aðra hluti, margs konar annað eftirlit en um áfengisneyzlu á samkomum, m.a. áfengissölu á skemmtistöðum, ölvun við akstur, eftirlit með því, að samkvæmi sé slitið á tilteknum tíma, og margt fleira, sem hér þarf athugunar við og endurskoða þyrfti, eins og við flytjendur þáltill. leggjum til.

Ef brtt. hv. þm. Barð. yrði samþ., þá sé ég ekki betur en verkefni þeirra, sem endurskoðunina önnuðust, yrði þrengt. Mér virðist, að i þessu sé fólgin nokkur efnisbreyting. Þó að þessi brtt. kunni að líta sakleysislega út, þá sýnist mér hún hafa í sér fólgna nokkra efnisbreytingu, sem væri til þess fallin að þrengja verkefni þess aðila, sem endurskoðunina kæmi til með að annast. Ég get því ekki á hana fallizt, sökum þess að mér sýnist hún spilla tillögunni og ganga að nokkru leyti i aðra átt en flytjendur hennar ætluðust til, enda þótt það að sjálfsögðu sé viðurkennt og augljóst mál, að þessi þáttur löggæzlunnar komi til endurskoðunar eins og aðrir þættir hennar, ef þessi þáltill. okkar verður samþykkt. Ég vildi aðeins gera grein fyrir þessari afstöðu minni til tillögunnar, og af þeim sökum mun ég greiða atkv. gegn henni.