26.03.1957
Sameinað þing: 47. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (2414)

140. mál, Loftleiðir h/f til flugvélakaupa

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Íslendingar hafa að ýmsu leyti mjög góða aðstöðu til siglinga bæði í lofti og á sjó. Það gerir lega landsins. Enn fremur höfum við hér ágæta siglingamenn, bæði í lofti og eins á hafinu. Á hinn bóginn eru miklir erfiðleikar í báðum þessum starfsgreinum vegna þess, hve mikið fjármagn þarf til þess að byggja þær upp. En ef vel á að vera, verður svo að koma þessum málum, að Íslendingar sigli ekki aðeins í lofti eða á sjó fyrir sjálfa sig, heldur taki einnig að sér víðtæka þjónustu bæði í loftinu og á sjónum fyrir aðra. Nokkuð er nú þegar farið að gera að því að sigla fyrir aðrar þjóðir, og m.a. hefur verið nú um sinn haldið uppi talsverðum ferðalögum á milli fjarlægra landa. Samkeppnin í þessum atvinnugreinum er ákaflega hörð, og framfarir í tækni gera það að verkum, ekki sízt í fluginu, að sífellt þarf að vera á verði um það að geta boðið fullnægjandi vélakost.

Hv. þingmenn hafa orðið þess varir í vetur, að bæði félögin, Flugfélag Íslands og Loftleiðir, hafa verið að vinna að því að eignast nýjar og fullkomnari vélar, og það er ekki langt síðan hér á hv. Alþingi var samþykkt að veita Flugfélagi Íslands ríkisábyrgð til þess að geta keypt tvær góðar og stórar vélar, sem ætlaðar voru m.a. til þess að halda uppi flugsamgöngum milli Íslands og meginlands Evrópu. Menn vissu það þá og hafa vitað það nokkuð lengi, að Loftleiðir hafa verið að undirbúa endurnýjun á vélakosti sínum og hafa verið að semja um kaup á tveimur stórum flugvélum og fullkomnum, sem nefndar eru Electra L 188. Mun þeim takast að ná kaupum á þessum vélum, ef hv. Alþ. vill fallast á að veita ríkisstj. heimild til að ábyrgjast allt að 70% af andvirði þeirra eða um 53 millj. króna.

Þetta er mikið fé, en samt sem áður virðist okkur, sem skoðað höfum þetta mál og þær upplýsingar, sem fyrir liggja, að rekstur vélanna ætti að geta staðið undir þessum lánum, miðað við þau lánskjör, sem út lítur fyrir að hægt sé að fá. Vænti ég þess nú, að hér sé ekki um áhættu að ræða fyrir ríkið, en á hinn bóginn sé hægt með þessu að leggja flugmálum Íslands myndarlegt liðsinni.

Við höfum verið heppnir á margan hátt í flugmálum okkar. Hér hafa myndazt tvö flugfélög, sem hafa leyst verkefni sín af óvenjulegum myndarskap og þannig, að Íslendingar hafa aldrei þurft að leggja neinn beinan styrk af almannafé til flugrekstrarins sjálfs, ekki einu sinni innanlandsflugsins, og mun ekki hafa tekizt svo vel hjá öllum þjóðum, þar sem skilyrði hafa þó verið sízt lakari en hér eru til flugsins. En þessi félög hafa náð að eignast nokkurt fjármagn smátt og smátt, og fyrir bragðið er þeim nú mögulegt að eignast þessar nýju vélar, bæði vélarnar, sem hér var rætt um á dögunum vegna Flugfélags Íslands, og eins þessar vélar, sem nú er verið að ræða um vegna Loftleiða. Þetta er ánægjulegt, en þá líka augljóst, að félögin geta ekki ein og óstudd komizt yfir svo gífurlega dýr tæki sem nú þarf á að halda. Þess vegna er mér það sérstök ánægja að mæla með því, að þessi stuðningur verði veittur Loftleiðum á sama hátt og Flugfélagi Íslands um daginn. En sá er munur á þessum málum, að þessar flugvélar eru mun dýrari en þær, sem þá var rætt um, og stafar það af því, að hér er gert ráð fyrir að festa kaup á flugvélum, sem eiga að halda uppi ferðum yfir Norður-Atlantshafið milli Ameríku og Evrópu, og til þess þarf enn stærri vélar og að ýmsu leyti öðruvísi en til þeirra ferða, sem flugvélum Flugfélagsins var ætlað að starfa að.

Það er alveg vonlaust, að íslenzku flugfélögin geti haldíð velli í þeirri hörðu samkeppni, sem nú er orðin, nema takist að endurnýja vélakostinn, og er það mikið happ að mínum dómi fyrir landið, ef það tekst að koma þessum málum í höfn, eins og nú er áformað.

Ég minntist á það áðan, að hv. alþm. mundi vera þetta mál nokkuð kunnugt, þó að það hefði ekki áður legið hér fyrir þinginu beinlínis. Ég vil taka það fram, að það ríður nokkuð á því, að þetta mál geti fengið skjóta afgreiðslu, því að það hefur ekki legið þannig fyrir, að hægt hafi verið að leggja það fram öllu fyrr, en á hinn bóginn stuttur frestur til þess að ljúka alveg samningum um sjálf vélakaupin. Hefði ég því viljað fara fram á það við hv. fjvn., eftir að málinu hefur verið vísað til hennar hér nú, að hún skilaði áliti svo fljótt, að málið hefði getað verið til síðari umr. á morgun. En þetta fer ég fram á í trausti þess, að þingmönnum er orðið þetta mál vel kunnugt af upplýsingum, sem um það hafa komið fram opinberlega áður, þó að þær hafi ekki komið fram á sjálfu hv. Alþingi, og eins vegna þess, að ég veit, að í stjórnmálaflokkum þingsins hefur þetta mál komið til umræðu.