06.02.1957
Sameinað þing: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (2440)

91. mál, innflutningur véla í fiskibáta

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Enda þótt það sé athyglisvert, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. N-M., vil ég samt sem áður vara við því að spilla framgangi þessa máls með því að gera það of víðtækt í meðferð þingsins. Það mætti þá halda áfram nánari athugun á málinu í heild og á víðtækara grundvelli, eins og hv. síðasti ræðumaður vék að. Ég er hins vegar sammála þeim öðrum hv. þm., sem tekið hafa til máls um þessa till., að í meðferð þeirrar n., sem hún fer til, þurfi að athuga nokkuð að gera till. víðtækari en hún er orðuð, og þá fyrst og fremst á þeim grundvelli, sem talað hefur verið um, að athugun sé látin fara fram á gæðum og nýtingu véla og samræmdum reglum um vélastærð og ganghraða fiskibáta. Það er og takmarkað að miða hér aðeins við athugun á innflutningi vélanna, því að ef svo heldur áfram sem verið hefur, má alltaf búast við miklum eða allverulegum skipakaupum erlendis frá, og kæmi það að sjálfsögðu einnig til athugunar í þessu sambandi.

Ég held, að það muni láta nærri, að ætla megi, að lánveitingar fiskveiðasjóðs hafi verið eitthvað liðugar 8 millj. kr. á s.l. ári til endurnýjunar á vélum í bátaflotann, og við ýmiss konar verðhækkanir, sem fram undan eru, bæði á heimsmarkaðinum og af öðrum sökum, hefur verið ráðgert, að þessa upphæð mætti ætla um 10 millj. kr. á árinu 1957. Hins vegar er það svo, að fiskveiðasjóður er aðallánastofnunin til endurnýjunar á vélum í bátaflotann, og hafa menn þar fram að þessu, — og verður að vonast til þess, að svo verði áfram, — haft aðgang að því að fá lánaða um 2/3 hluta af verðmæti hinna nýju véla. Þetta er gífurlega há upphæð, að slíkt þurfi að fara til endurnýjunar á hverju ári á vélakost bátanna, og veit ég, að það hefur verið mörgum og eiginlega öllum aðilum, sem hlut eiga að máli, sívaxandi áhyggjuefni að undanförnu. Ég teldi vel koma til mála einnig, að nánari athugun þessa máls, sem till. gerir ráð fyrir að sé gerð í samráði við skipaskoðunarstjóra ríkisins, Fiskifélagið og Landssamband íslenzkra útvegsmanna, sé einnig í samráði við fiskveiðasjóð eða stjórn fiskveiðasjóðs, sem eins og ég sagði er aðallánastofnunin í þessu sambandi hér á landi, og mun núverandi forstjóri fiskveiðasjóðs vera einn af þeim mönnum, sem þessu máli eru kannske hvað gagnkunnugastir, og sérstakt eftirlit hefur verið fyrst reynt að hafa með þessum málum í sambandi við lánveitingar úr þessari lánastofnun. En það er þó sýnilegt að mínum dómi, að það þurfa að koma til einhverjar frekari aðgerðir en verið hafa fram að þessu.

Þessi sjónarmið, sem ég nú hef nefnt, mundi ég vilja leggja til viðbótar því, sem aðrir þm. hafa nú gert, að hv. n. taki til athugunar í meðferð málsins.