10.04.1957
Sameinað þing: 50. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (2443)

91. mál, innflutningur véla í fiskibáta

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. allshn. fyrir þá afgreiðslu, sem þetta mál hefur hlotið í nefndinni. Sú breyting, sem n. gerir á till., sýnist mér vera mjög til bóta. Hér er um náskyld mál að ræða að því leyti til, að ef hægt er að koma í veg fyrir óhóflega kappsiglingu, þá verður auðvitað ending véla í fiskibátum miklu meiri og þannig meiri möguleikar til að uppfylla þá þjónustu, sem nauðsynleg er við vélarnar. Hins vegar er auðvitað öllum ljóst, að fyrra atriðið er mjög margþætt mál og þarf að athugast mjög gaumgæfilega af sérfróðum mönnum á þeim sviðum.

Varðandi síðara atriðið, sem ég hafði fyrst og fremst í huga, þegar ég flutti þessa till., þá sé ég, að n. hefur fallizt á nauðsyn þess, að athugun sé gerð á þessum málum um það, hvort mögulegt sé að haga þannig innflutningi á vélum í fiskibáta, að tryggt sé, að beztu vélar séu keyptar, og ekki síður hitt, að tryggt sé, að varahlutar séu til og aðstæður til þjónustu við vélarnar, en á það hygg ég að hafi oft mjög vantað, með því, eins og kemur fram í grg., að umboðsmenn hafa ekki sinnt um það sem skyldi.

Aðalatriðið, sem vakti fyrir mér með flutningi þessarar till., var, að þessi mál kæmust á meiri hreyfingu en þau eru hingað til. Ég tel vafalaust, að ef sérfróðir menn á þessum sviðum fá öll þessi mál til nákvæmrar athugunar, þá muni koma árangur af þeirri athugun, og að það megi vænta þess, að fastara skipulag komist á þessi mál, sem áreiðanlega verður til hagsbóta bæði fyrir útgerðarmenn sjálfa og ekki þó síður fyrir sjómennina á skipunum.