13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (2451)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég er þakklátur hv. 8. þm. Reykv. fyrir að mæla með þessari þáltill. og vil vona, að hún hafi gert það fyrir hönd Sjálfstfl. alls og að maður eigi þannig von á atkv. alls þingheims með tillögunni.

Viðvíkjandi fyrirspurnunum skal ég aðeins segja þetta: Þegar hinir sjö ágætu sjálfstæðisþingmenn báru fram sína þáltill., hafði í mörg ár legið fyrir hv. Alþingi frv. til laga um sömu laun kvenna og karla. Hver sá hv. alþm., sem vildi koma því máli í framkvæmd, hafði því átt þess kost í mörg ár að samþ. það frv. og koma málínu heilu í höfn. Það var enginn sýnilegur tilgangur með þáltill. annar en sá að tefja fyrir frv., enda kynntist ég því mætavel í nefnd þá, eftir að till. hafði verið flutt. Þá var vísað til flutnings till. og sagt: Það nær ekki nokkurri átt, að Alþingi samþykki frv. um sömu laun kvenna og karla, því að nú er ríkisstj. að byrja að rannsaka málið. — Og þessi rannsókn stóð á annað ár. Þá kom niðurstaðan. En komu þá ekki jafnframt till. um að framkvæma þetta? Nei, hvorki frá sjömenningunum né neinum öðrum hv. þm. á Alþingi, ekki heldur þeim konum, sem þá sátu á Alþingi, og þess vegna hefur jafnlaunasamþykktin ekki verið fullgilt enn, af því að það hefur verið tregða í málinu, þrátt fyrir það að ríkisstj. Íslands tilkynnti Alþjóðavinnumálastofnuninni með bréfi strax á árinu 1950, að ríkisstj. Íslands mælti með setningu alþjóðasamþykktar um sömu laun kvenna og karla. Ríkisstj. Íslands á hverjum tíma, sem tæki þetta mál til afgreiðslu, yrði því að ganga á bak orða fyrrverandi ríkisstj., þáv. forsrh. og félmrh., Steingríms Steinþórssonar, ef tregða væri á því að fullgilda samþykktina. En samt hefur þessi dráttur orðið á því, allt þangað til í dag, og það hefur alltaf legið jafnaugljóslega fyrir, að Ísland gæti samkv. skilyrðum samþykktarinnar fullgilt hana. Það þarf ekki annað en vitna til 2. gr., eins og ég gerði áðan. Þar segir, að aðildarríkin skuli stuðla að því að tryggja það, að svo miklu leyti sem það samrýmist þeim aðferðum, sem hafðar séu á um ákvörðun launa í landinu, að koma á sömu launagreiðslum kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf.

Hér ákveðst þetta með samningum milli vinnuveitenda og verkalýðssamtaka, og innan þess ramma á ríkisstj. Íslands, eftir að hún hefur fullgilt svona alþjóðasamþykkt, að beita sér fyrir því, að að þessum leiðum verði fullu launajafnrétti náð. Það er skuldbindingin, sem leggst á Ísland við fullgildingu þessarar samþykktar.

Um það var spurt, hvað ég ætlaðist til að yrði gert. Ég sagði frá því í minni framsöguræðu. Ég teldi alveg sjálfsagt hér, að undireins og við hefðum fullgilt, beitti Ísland sér fyrir því að hafa áhrif á þá aðila, sem ákveða kaupgjald í landinu, með því að skipa opinbera nefnd, skipaða fulltrúum frá ríkisvaldinu, fulltrúa frá Vinnuveitendasambandi Íslands og fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands, sem ætti að vinna saman að því að koma málinu í framkvæmd. Og ef Sjálfstfl. nú ýtir vel á sína menn í Vinnuveitendasambandi Íslands, þá örvænti ég ekki um málið. En það hlýtur Sjálfstfl. að gera, eftir að hann hefur staðið að fullgildingu samþykktarinnar. Málið á því að vera örugglega í höfn að þessari leið. En brygðist það mót von minni, þá er fljótlega tiltækur sá undirbúningur, sem ég fyrir mörgum árum hef gert í þessu máli, frumvarpið um sömu laun kvenna og karla, sem ég vænti þá að ég fengi hv. 8. þm. Reykv. til að vera meðflm. minn að, — og það yrði þá lokaskrefið í því að sjá, hvort þá fylgdist ekki allur þingheimur líka að í að lögfesta jafnrétti kvenna og karla í launamálum, ef Vinnuveitendasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands með atbeina ríkisstj. hefðu ekki fengizt til að koma málinu heilu í höfn.