13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2452)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég sé nú ekki beint ástæðu fyrir hæstv. félmrh. til að tala sig upp í mikinn æsing i þessu máli. Hann hefur ósköp lítið tilefni til þess. Ég skal alls ekki á neinn hátt gera lítið úr þeim áhuga, sem hann hefur sýnt á þessu máli fyrr og síðar, þó að nú sýnist sannast sagna ganga nokkuð broslega langt viðleitni hans til þess að slá sig til sérstaks riddara og auglýsa það, að hann einn hafi haft skilning á þessu máli og það sé í rauninni svo, að það sé honum persónulega að þakka, að það langt er komið áleiðis hér á Íslandi, sem raun ber vitni um, að koma á í raunveruleika jafnrétti kvenna og karla í launamálum.

Um þetta atriði skal ég ekki karpa sérstaklega við hann. Það er honum velkomið að auglýsa svo sem hann vill forustu sína um það efni. En ástæðan til þess, að ég tek hér til máls, er sú, að það hefur borið hér á góma till., sem samþykkt var hér á Alþingi 1954 og er eina almenna samþykktin, sem Alþingi hefur gert um þetta mál, og hæstv. félmrh. hefur endurtekið hér þær fullyrðingar, sem hann bar þá fram um það, að sú till. hefði harla litla þýðingu og nánast hefði verið borin fram til þess að sýnast.

Nú skulum við segja, að svo hafi verið sem hæstv. ráðh. nú heldur fram, og taka góð og gild öll hans rök og jafnframt þá fullyrðingu hans, sem hann þá flutti í umr. um það mál, þar sem hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

Þáltill. ein í yfirlýsingarformi eins og þetta hefur ákaflega lítið gildi út af fyrir sig. Það er löggjöfin, sem þarf að koma um þetta efni, og ekki aðeins þá gildandi að því er varðar konur í þjónustu ríkisins, heldur við öll störf í þjónustu atvinnuveganna“.

En ef það er svo, að það sé fyrst og fremst löggjöfin, sem þýðingu hafi, þá verður að segja, að það sé næsta broslegt, þegar það er auglýst sem stórkostlegt skref í þessu máli hjá hæstv. ráðh., að hann hafi ákveðið, eins og var tilkynnt, löngu áður en þessi till. var lögð fram, sem einhver stór frétt, að leggja til við Alþingi að staðfesta sáttmála Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um þetta efni. Annað og meira hefur ekki hæstv. ráðh. gert. Hann hefur gert það sama sem hann taldi 1954 að væri gersamlega þýðingarlaust í málinu og hefði engin áhrif til að þoka því áleiðis, því að það, sem gilti, væri að koma þessu í framkvæmd með löggjöf eða á annan hátt og annað væri í rauninni sýndarmennska. Ef við eigum að taka góð og gild rök hæstv. ráðh., ef rök skyldi telja, sem hann flutti, þegar sú till. var til meðferðar, þá held ég, að verði að álykta, að nákvæmlega þau sömu rök hljóti að gilda nú, þegar þessi till. er flutt fram, án þess að henni fylgi þá ákveðnar ráðstafanir af hálfu hæstv. ráðh. til þess að koma þessu máli í höfn.

Hæstv. ráðh. segir nú, að það sé nauðsynlegt undirbúningsstarf til þess að hrinda málinu í framkvæmd að staðfesta þessa samþykkt. Það var till. okkar, sem fluttum þáltill., sem samþykkt var 1954, að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar yrði þá staðfest. En það var samróma niðurstaða þeirrar n., allshn., sem hafði till. til meðferðar, að það væri nauðsynlegt að koma þessu máli i framkvæmd fyrst í raunveruleika, þ.e., að fyrir lægi í löggjöf eða með samningum, að launajafnrétti væri komið á, áður en samþykktin yrði staðfest. Og það voru ekki aðeins sjálfstæðismenn, sem lögðu þetta til. Frsm. þeirrar n. var hv. núv. þm. Hafnf., Emil Jónsson, sem gerði grein fyrir þessu sjónarmiði n. og lagði til, að till. yrði breytt í þá átt, að í stað þess að samþykktin yrði staðfest, yrði ríkisstj. falið að undirbúa nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að samþykktin gæti orðið staðfest.

Ég skal ekkert deila um það við hæstv. ráðh., að það kunni að hafa verið lítið gert í þessa átt. Ég býst við, að svo hafi verið, og skal ég ekki á neinn hátt afsaka það. Ég vil þó benda á, að síðan þetta gerðist hafa verið sett þau lög, sem hann hér vitnaði í, varðandi opinbera starfsmenn, þar sem það er afdráttarlaust staðfest, að konur og karlar skuli þar fá sömu laun fyrir sams konar vinnu, þannig að málinu hefur þokað áleiðis hvað þetta snertir. Hins vegar mun þetta ekki nema að nokkru leyti vera komið í framkvæmd í samningum stéttarfélaga, sem hæstv. félmrh. núv. mun annars hljóta að hafa æði mikil áhrif á sem forseti Alþýðusambands Íslands. Ég skal ekkert vefengja það, að hann hafi þar að sínu leyti sýnt fullan áhuga á að koma því í framkvæmd. Það atriði hef ég ekki kynnt mér nægilega vel til þess að geta um það nokkurn hlut fullyrt. En það mun a.m.k. vera staðreynd, að enn þá vantar töluvert á, að það sé komið í framkvæmd.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni hér áðan, að ef sjálfstæðismenn hefðu haft áhuga á málinu 1954, þá hefðu þeir ekki flutt till. sína, sem þeir fluttu þá, um að staðfesta jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, heldur hefðu þeir greitt atkv. með frv. því, sem hann þá hefði flutt.

Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. ráðh., hvort það er þá ekki á sama hátt að tefja fyrir málinu að láta sér nægja nú að staðfesta þessa samþykkt, en bera ekki fram það frv., sem hæstv. ráðh. var að tala um að væri afgerandi í málinu. Nú skal ég ekkert um það fullyrða, hvort það er heppilegt til lausnar málinu, og ég býst við, að það sé alveg rétt, sem hv. núv. þm. Hafnf. sagði í framsöguræðu sinni um till. okkar sjálfstæðismanna, að það væri það bezta, ef hægt væri að koma þessu í framkvæmd án löggjafar. En ef skilja á orð hæstv. félmrh. eins og þau voru sögð, þá virðist það hafa verið skoðun hans, að það væri rétt að fylgja þessu fast eftir með löggjöf og það eitt væri trygging fyrir því, að hér væri ekki um einhverja sýndarmennsku að ræða.

Þessu tel ég nauðsynlegt, að menn geri sér grein fyrir.

Í þessu felst ekki frá minni hálfu nokkur fordæming á því, að þessi till. hæstv. ráðh. er hér flutt nú. Ég lit svo á, að i till. þeirri, sem samþykkt var 1954, eins og hún var orðuð, hafi raunverulega falizt heimild til handa ríkisstj. til þess að staðfesta þessa samþykkt, eftir að búið væri að gera ráðstafanir af Íslands hálfu til, að hún kæmist í framkvæmd, en yrði ekki aðeins pappírsgagn, — og það er óneitanlega alltaf leiðinlegt fyrir hvaða ríki sem í hlut á að staðfesta alþjóðasamþykkt, án þess að hafa örugglega tryggt sér það að geta uppfyllt ákvæði samþykktarinnar.

Þyki það hins vegar nauðsynlegt, og það er vafalaust nauðsynlegt, úr því að ekki er búið að uppfylla þau skilyrði, sem sett voru í ályktuninni frá 1954, að Alþingi geri sérstaka samþykkt um að staðfesta jafnlaunasáttmálann, án þess að búið sé að uppfylla skilyrðin, því að mér skilst á hæstv. ráðh., að ekki sé búið að uppfylla þau, þá álít ég, að það sé grundvallaratriði fyrir hv. Alþingi að gera sér grein fyrir því, hvort hægt sé á tilsettum tíma að uppfylla ákvæði jafnlaunasamþykktarinnar, áður en till. þessi er samþykkt, og að fyrir þurfi að liggja frá hæstv. ráðh. afgerandi upplýsingar um það atriði, vegna þess, eins og ég áðan sagði, að samþykktin út af fyrir sig hefur ekkert lagagildi á Íslandi. Ef hún aðeins á að verða til í okkar skjölum sem að vísu mjög ánægjuleg og virðingarverð viljayfirlýsing, en ekki að fullu að komast í framkvæmd, þá álít ég, að það væri mjög miður farið, að samþykktin yrði staðfest eins og hún liggur fyrir.

Það er mikilvægt fyrir okkur í sambandi við þá sáttmála, sem við gerumst aðilar að, hvort sem það er á þessu sviði eða öðru, að við uppfyllum allar þær skyldur, sem sáttmálarnir leggja okkur á herðar, og ég get þess vegna fyllilega fallizt á það sjónarmið, sem kom fram hjá hv. þm. Emil Jónssyni í framsöguræðu hans fyrir málinu á sínum tíma, að það væri mjög mikilvægt, áður en sáttmálinn yrði staðfestur, að tryggja örugglega, að ákvæði hans kæmust í framkvæmd hér á Íslandi.

Ég vil taka það skýrt fram, að hvað mig snertir er að sjálfsögðu mín skoðun óbreytt, frá því að ég stóð að þeirri till., sem samþ. var hér 1954, um að sú regla ætti að komast í framkvæmd hér á Íslandi, að konur og karlar fengju sömu laun fyrir jafnverðmæt störf, þannig að hæstv. ráðh. getur fyllilega treyst því, að ég mun styðja hann í því efni. En ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram, vegna þess að mér sýnist, að viðhorf hans til þessa máls sé nokkuð breytt og að hann leggi nú orðið meiri áherzlu á gildi samþykkta eða yfirlýsinga frá þinginu, sem hann áður taldi vera næsta fánýtar. Í því sambandi vildi ég leggja áherzlu á það, sem ég býst við að okkur hæstv. ráðh. greini heldur varla á um, að eigi þetta að verða annað en, eins og hann sagði á sínum tíma, hátíðleg yfirlýsing, sem ekki hafi réttarlega þýðingu, þá verður að sjálfsögðu að gera ráðstafanir til þess, að þetta komist í framkvæmd. Og ég legg áherzlu á það, að ef Alþ. á að samþykkja nú afgerandi breytingu frá því, sem samþ. var 1954, að nú eigi að staðfesta samþykktina, áður en ráðstafanirnar séu gerðar, eins og var ákveðið þá, þá verði að liggja fyrir mjög ákveðnar upplýsingar um, að það sé ekki hætta á, að við séum hér að staðfesta samþykkt, sem sé þó ekki raunverulega hægt að koma í framkvæmd innan þess tíma, sem gert er ráð fyrir af Alþjóðavinnumálastofnuninni.