13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (2454)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það var einu sinni sagt um einn ágætan stjórnmálamann, sem þótti stundum fara dálítið ónákvæmt með staðreyndir, að hann hefði sagt sögu af atviki, sem átti að hafa gerzt, og snúið gersamlega við staðreyndum málsins, — og þegar hann var spurður að þessu, hvort þetta hefði ekki raunverulega verið á þveröfugan veg við það, sem hann sagði, þá sagði hann, að það gæti nú vel verið rétt, en hann hefði ekki hirt um að hafa það nákvæmar.

Mér kom þetta til hugar, þegar ég hlustaði á ræðu hæstv. félmrh. nú áðan, sem sannast sagna var ekki sérstaklega ráðherraleg, vegna þess að mér finnst það fara verst þeim mönnum, sem með æðstu stjórn fara í þjóðfélaginu, og verði að gera meiri kröfur til þeirra um að fara rétt með hluti heldur en jafnvel annarra. A.m.k. er ekki við góðu að búast, ef þeir brjóta svo þau lögmál sem hæstv. ráðh. gerði.

Ég skal náttúrlega játa það, að ég sá ekki svipinn á sjálfum mér, þegar ég flutti ræðuna áðan, þannig að hv. þingmenn verða að sjálfsögðu að gera það upp við sig, hvort ég hafi verið með mikinn ólundarsvip eða ekki. En það kemur mér ákaflega kynlega fyrir sjónir, ef ræða mín hefur getað talizt andstaða gegn því máli, sem hér er um að ræða. Andstaðan er kannske helzt í því fólgin, að ég var að vitna i viðhorf hæstv. félmrh., sem hann hafði á sínum tíma til málsins. Og ef það er andstaða við málið, þá er það hans mál, en ekki mitt. Ég var að ræða um hans ummæli, sem hann lét þá falla. Það kann vel að vera, að það hafi á sínum tíma ekki sýnt sérstakan áhuga hjá honum til málsins, en ég hef þó alls ekki viljað halda því fram og hélt því aldrei fram í minni ræðu, að hann væri áhugalaus i málinu. Síður en svo. Það eina, sem ég sagði, var, að mér fyndist dálítið brosleg auglýsingastarfsemi í kringum þetta mál, því að ég held, að það verði að teljast næsta fátítt í málum, að það sé löngu fyrir fram skýrt frá því, að ráðh. hafi hugsað sér að gera till. á Alþingi einhvern tíma í náinni framtíð um þetta eða hitt. Það er heldur fátítt. Annars skiptir það engu máli um efnismeðferð málsins.

Það, sem ég áðan sagði, var fyrst og fremst það, að ég lýsti yfir stuðningi mínum við, að jafnrétti í launamálum karla og kvenna kæmist í framkvæmd og það sem skjótast. En ég benti hins vegar á hitt atriðið, að það auðvitað ylti fyrst og fremst á því, hvenær þetta raunverulega kæmist í framkvæmd, en ekki hinu, hvort jafnlaunasamþykkt væri staðfest árinu fyrr eða síðar. Og þetta var það sjónarmið, sem ríkti hér á Alþingi, að því er mér skilst, nokkurn veginn einróma 1954, að það væri sjálfsagt að fylgja þeirri reglu að gera fyrst hinar nauðsynlegu ráðstafanir til þess, að jafnlaunaákvæðið yrði að raunveruleika, áður en jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar yrði endanlega staðfest. Þetta var kjarni míns máls, og ég var með því einu að túlka það viðhorf, sem hér hafði komið fram á hinu háa Alþingi og markað þessa tillögu. Og þegar hæstv. ráðh. segir, að sú till., sem samþ. var þá, hafi verið gagnslaus, þá finnst mér það harla einkennilegt, vegna þess að í þeirri till. segir beinlínis, að ríkisstj. sé falið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jöfn laun karla og kvenna geti orðið staðfest á Íslandi. Hafi fyrrverandi ríkisstj. unnið eitthvað illa í þessu máli, þá er auðvitað hægurinn hjá fyrir jafnmikinn áhugamann í málinu og hæstv. félmrh. að taka upp þráðinn og beita sér fyrir þeim ráðstöfunum, sem hann taldi líklegastar til að koma þessu skjótlega í framkvæmd. Hann segir, að Alþ. hafi 1954 farið inn á þá braut að lýsa því yfir, að það teldi, að lagasetning ætti ekki að koma til greina. Og mér skilst, að það hafi verið ástæðan fyrir því, að hann fór nú ekki þá braut að leggja hér fram frv. til laga um málið. Ef það hefur ekki verið ákvörðun ráðherrans að gera neitt annað eða meira en það, sem var markað með samþykkt Alþingis 1954, þá hefði hann átt að fylgja þeirri ályktun og gera fyrst ráðstafanirnar, sem gera þurfti, til þess að geta svo komið hér fram fyrir Alþ. og sagt: Ja, nú er þetta orðið að veruleika. Nú skulum við gerast aðilar að þessum sáttmála, og nú getum við uppfyllt öll þau skilyrði, sem þar eru sett. — Þar sem hann hins vegar hefur ekki farið þá leið að leggja hér fram lagafrumvarp, þá virðist annað tveggja, að hann telji það ekki sjálfur heppilega leið í málinu eða þá að hann hefur ekki fengið stuðning í hæstv. ríkisstjórn fyrir slíkri lausn málsins. Ég skal ekkert um það segja, en það a.m.k. liggur alveg ljóst fyrir, að hæstv. ráðh. er hér að gera hluti, sem hann taldi 1954 að væru fánýtir og það eina, sem þá gæti gilt og verið afgerandi i málinu, væri lagasetning.

Nú upplýsti hæstv. ráðh. að vísu, þó að hann fyrst héldi því fram, að ekkert hefði gerzt í málinu síðan 1954, að því hefur töluvert mikið þokað áleiðis. Bæði hefur verið sett löggjöfin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, þar sem mjög ákveðið er tekið fram um rétt kvenna til jafnra launa og karlar hafa við jafnverðmæt störf, og jafnframt upplýsti hann sjálfur, að nú tvö síðustu árin hefði þokað mjög áleiðis undir hans forustu að koma þessum málum áfram í frjálsum samningum verkamanna og vinnuveitenda.

Ég vakti hér aðeins athygli á því áðan, að hann væri forseti Alþýðusambands Íslands og væri því mikill áhrifamaður um málið, en ég hélt mig hafa tekið fram, að ég væri ekki með því að halda því fram, að hann hefði ekki gert sitt til þess að hrinda því máli þar áleiðis, þannig að það er algerlega rangt hjá ráðherranum, að ég hafi verið með mínum orðum að reyna að koma einhverri sök yfir á hann fyrir það, að ekki væri komið lengra áleiðis en raun ber vitni um.

Af því að það virðist vera nokkuð erfitt að koma því inn í höfuð hæstv. ráðh., hver sé skoðun mín á þessu máli, og hann eigi sérstaklega torvelt með að skilja það, sem sagt er, vil ég aðeins endurtaka það að lokum í stuttu máli: Skoðun mín er óbreytt frá því, sem hún var 1954, um það, að jöfn laun karla og kvenna víð sambærileg störf eigi að vera sú meginregla, sem gilda eigi hér á Íslandi. Og ég gleðst yfir sérhverri viðleitni í þá átt að koma þessu í framkvæmd. Ég taldi það hins vegar ekki vera neitt til þess að auglýsa fjandskap á málinu, þó að ég leyfði mér að vitna til ummæla, sem hæstv. félmrh. hafði haft um málið áður. Og ég bið hann vissulega afsökunar á því, ef það getur skilizt sem einhver andstaða gegn málinu að vitna í fyrrverandi skoðanir hans. Hann getur því fyllilega treyst því, að hvað mig varðar mun ég standa með því, að þessi samþykkt verði staðfest, þó að ég hins vegar bendi á það, sem ég held að allir hljóti að geta skilið, að samþykktin út af fyrir sig hefur ekki gildi, nema ráðstafanir séu gerðar til þess að koma henni í framkvæmd, og að það sé óviðunandi að staðfesta samþykktina, nema vera tryggur með að geta uppfyllt þær kvaðir, sem hún leggur okkur á herðar.