06.02.1957
Sameinað þing: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (2474)

101. mál, nauðungarvinna

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Í þessari till. er lagt til, að ríkisstj. fái heimild til þess f.h. Íslands að fullgilda samþykkt nr. 29 um nauðungarvinnu eða skylduvinnu. Þessi samþykkt var gerð á 14. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf þann 28. júní 1930, en Ísland er aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni.

Nálega allt efni þessarar alþjóðasamþykktar er á þann veg, að það snertir að litlu eða engu leyti Ísland, og svo mikið er víst, að það fer á engan veg í bága við íslenzk lög, að Ísland gerist aðili að henni. Efni hennar er hins vegar að ýmsu leyti svo framandi okkur og okkar þjóðfélagsháttum, að sums staðar er erfitt að orða þýðingu textans svo, að við hnjótum ekki um það sem fjarstæðu. Í tilefni af þessu m.a. vil ég geta þess, að þýðing 7. gr., eins og hún er hér í hinum prentaða ísl. texta, hefur valdið því, að menn hafa hnotið um þá þýðingu, og hefur það gefið tilefni til þess, að ísl. þýðingin hefur verið borin saman við norska og sænska þýðingu af þessari sömu alþjóðasamþykkt og eftir nána yfirvegun og samráð skjalaþýðenda gerð smábreyting á þýðingunni. Hefur sú breyting á þýðingunni verið send skrifstofustjóra Alþingis með tilmælum um það, að sú breyting verði gerð á skjalapartinum, þegar samþykktin verður birt þar. Það þótti ástæðulaust vegna þessarar einu breytingar að fara að láta prenta allt fskj. upp aftur. Þetta er um það, að i staðinn fyrir orðin „ekki hafa aðgang að“ í 7. gr. skuli koma: skal ekki heimilt að færa sér í nyt — og síðar í sömu grein einnig sömu orð enska textans og i þessum fyrsta lið. Í öðrum lið er einnig í þessari breytingu orðatiltækið „að færa sér í nyt“ í ísl. þýðingunni.

Ég skal geta þess, að þessi alþjóðasamþykkt hefur nú verið fullgilt af 31 þjóð, og meðal þeirra þjóða, sem hafa nú þegar fullgilt hana, eru allar Norðurlandaþjóðirnar, en upphaflega gekk hún í gildi á alþjóðavettvangi 1932, eða fyrir á milli 20 og 30 árum.

Þau ríki, sem fullgilda þessa alþjóðasamþykkt, skuldbinda sig í fáum orðum sagt til þess að útrýma nauðungarvinnu, en með því er átt við vinnu eða þjónustu, sem látin sé í té vegna hótana um refsingu og einstaklingurinn vinnur ekki af fúsum vilja. Um slíka nauðungarvinnu er ekki að ræða í íslenzku þjóðfélagi, en ýmsar þær þjóðir, sem eru aðilar að Alþjóðavinnumálastofnuninni, hafa því miður ekki þá sögu að segja að hafa útrýmt því ástandi, hafa nauðungarvinnu í allstórum stíl margar hverjar. Mikið af orðalagi þessarar samþykktar miðast við þær þjóðir, sem horfast nú í augu við það viðfangsefni að útrýma slíkri vinnu hjá sér. Þar af leiðir, að í samþykktinni eru einnig ákvæði um það, með hvaða aðferðum skuli útrýmt nauðungarvinnu.

Það, sem einna helzt nálgast það í íslenzkum lögum að geta komizt í snertingu við þessa samþykkt, er vinna, sem föngum er gert að skyldu að inna af hendi. Þá má geta þess, að það er heimild í framfærslulögunum frá 1947 fyrir sveitarstjórnir hér á landi til að afla sér úrskurðar valdsmanns um, að styrkþega, sem er vinnufær og ekki aflar sér sjálfur atvinnu, sé skylt að gegna þeirri vinnu, sem sveitarstjórn vísar honum á, að því tilskildu, að vinnan sé honum tilhlýðileg og honum sjálfum ekki um megn. Slíkri ákvörðun valdsmanns má skjóta til ráðherra. Þá er og í framfærslulögunum heimild til handa sveitarstjórn til þess að fá úrskurð valdsmanns um, að styrkþega, sem hefur ekki fyrir heimili að sjá, skuli vera skylt að vinna af sér á vinnuhæli meðlag eða barnalífeyri, sem sveitarstjórn hefur orðið að greiða með barni hans, enda þótt hann hafi verið fær til þess að inna slíka greiðslu af hendi. Hlutaðeigandi valdsmaður á að ákveða, hve lengi slík vinna skuli standa. Vinnutíminn á að vera miðaður við það, að styrkþeginn hafi kaup, sem ekki sé lægra en greitt er fyrir almenna verkamannavinnu í landinu í heimilissveit hans.

Það virðist vera auðsætt, að þessi þvingun, sem hér er heimiluð í íslenzkum lögum, er fyllilega innan allra þeirra ákvæða, sem eru fram tekin í alþjóðasamþykktinni sem undantekningarákvæði.

Það virðist því ekki vera neitt því til fyrirstöðu, að Ísland geti fullgilt þessa samþykkt og skuldbundið sig þar með til þess að sjá um, að nauðungarvinna eða skylduvinna, sem samþykktin leggur bann við, verði ekki framkvæmd hér á landi og ekki komið á hér á landi.

Ég legg því til, að þessi alþjóðasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hljóti fullgildingu íslenzka ríkisins. Það er kannske rétt, að hún fari til nefndar, og legg ég þá til, að hún fari til hv. allshn.