08.05.1957
Sameinað þing: 55. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2476)

101. mál, nauðungarvinna

Frsm. (Björn Jónsson):

Till. sú til þál. um fullgildingu á alþjóðasamþykkt um nauðungarvinnu eða skylduvinnu, sem hér liggur fyrir til síðari hluta umr., hefur verið til athugunar hjá allshn., og mælir n. eindregið með því, að till. verði samþykkt.

Nauðungar- eða skylduvinna, eins og hún er skilgreind í þessari samþykkt, er með öllu óþekkt hér á landi og óheimil að íslenzkum lögum. Efni þessarar samþykktar fjallar fyrst og fremst um það, hversu nauðungarvinnu skuli útrýmt og eftir hvaða reglum hún skuli fara fram, þar sem henni hefur ekki verið að fullu útrýmt áður. Efni hennar snertir okkur því harla lítið og leggur engar nýjar skyldur á herðar Íslendinga. Fullgilding samþykktarinnar af okkar hálfu er því í raun réttri ekki annað en formsatriði, sem staðfestir það, að Ísland hafi hreinan skjöld hvað vernd þessara mannréttinda, sem hér ræðir um, við kemur. Það er okkur Íslendingum því útlátalaust og að sjálfsögðu ljúf skylda að verða við óskum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem hún hefur beint til aðildarríkja sinna, að fullgilda þessa samþykkt, eins og þáltill. gerir ráð fyrir, og skuldbinda sig því með því til að sjá um, að skylduvinnu eða nauðungarvinnu verði ekki komið á í landinu.