15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (2485)

25. mál, jarðgangagerðir og yfirbyggingar á fjallvegum

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram fyrir mína hönd og aðalflm. till., að við getum fallizt á það, sem hv. n. leggur til, að rannsóknin verði framkvæmd með það í huga, að hún verði takmörkuð við þá vegi eða vegarstæði, þar sem telja má líklegt, að jarðgangagerð eða yfirbygging sé viðráðanleg af fjárhagsástæðum.

Ég vil svo leyfa mér að fara örfáum orðum um álit vegamálastjóra, þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Einu jarðgöngin, sem byggð hafa verið á vegi hér á landi, eru 34 metra löng göng, sem gerð voru á Súðavíkurvegi 1949.“ Í sambandi við það vil ég taka það fram, að þar hagar svo til, að blágrýtisgangur gengur þvert yfir veginn, en jarðgöngin eru gerð í gegnum hann. Alllöng jarðgöng hafa verið gerð á Vestfjörðum vegna brúnkolavinnslu og fékkst þar mjög mikilvæg reynsla. M.a. kom þar í ljós, að það kostar a.m.k. helmingi meira að sprengja göng gegnum blágrýtisganga en önnur jarðlög á því svæði. Með það í huga mætti ætla, að ef látið væri nægja að hafa jarðgöngin, sem talað er um hér seinna í dæminu, sem tekið er, með 25 metra þversniði eins og á Súðavíkurvegi með einhverjum útskotum, þar sem nauðsynlegt væri, eins og nú eru á veginum, sem liggur vestur yfir Breiðadalsheiði, mætti ætla, að jarðgöng þessi kostuðu í kringum 3 millj. kr., eða eins og væn brú, og verð ég að segja, að það eru góðar fréttir og gefa von um, að bráðlega verði unnt að hefja framkvæmd á þessari mjög mikilsverðu samgöngubót milli Ísafjarðar og Önundarfjarðar. Þetta er mjög mikilsverð flutningaleið, um hana fara fram mjólkurflutningar til Ísafjarðar frá öðru aðalmjólkurframleiðslusvæði Ísfirðinga þann tíma ársins, sem hún er fær.

Ég vil þakka fjvn. fyrir afgreiðslu málsins og vona, að hv. Alþingi samþykki till.