14.11.1956
Sameinað þing: 9. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (2490)

33. mál, aðstoð vegna fjárskipta í Dala- og Strandasýslu

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Það hefur mjög færzt í vöxt á undanförnum árum, að ríkissjóður hefur verið látinn létta byrðarnar, þar sem þær hafa þótt falla nokkuð þungt á þegna þjóðfélagsins. Það er einnig vitað mál, að togarar njóta styrks til að veiða og það er varið uppbótum vegna síldveiða, bæði vegna bræðslu og söltunar, og sjúkdómar og tíðarfar hafa valdið því, að fækka hefur orðið búfé. Á öllum þessum sviðum má segja að ríkissjóður hafi verið látinn hlaupa undir bagga að einu eða öðru leyti. Það hefur verið upplýst á þessu þingi, að núv. ríkisstj. hafi í athugun ýmsar skuldasafnanir, sem hafa myndazt vegna þess ástands, sem ríkt hefur í þessum efnum á undanförnum árum, og m.a. vegna þess hef ég borið fram þessa till., sem hér liggur fyrir, því að þeir bændur, sem þarna eiga hlut að máli, búa við nokkuð sérstæðar aðstæður.

Að vísu má segja, að þessi till. nái ekki nema til örfárra bænda í þessu landi, en þó það margra bænda, að það mundi þykja skarð fyrir skildi, ef þeir hyrfu frá því að stunda landbúnað og yfir til einhverra annarra atvinnuvega og þarna myndaðist auðn og tóm, sem áður hefur verið blómlegt atvinnulíf. En þessir menn hafa með þrautseigju og dugnaði stundað búskap á undanförnum árum við mjög erfið skilyrði, og þeir trúa því og treysta, að ríkisvaldið rétti þeim hjálparhönd nú til þess að geta áfram stundað sína atvinnugrein.

Fyrir nokkru var útbýtt hér á hv. Alþingi grg. frá hinni svokölluðu jafnvægisnefnd, eða þeirri n., sem átti að semja frv. að lögum um jafnvægi í byggð landsins. Þar kemur í ljós, að meðalnettótekjur á íbúa í hinum einstöku sýslum og bæjum landsins eru mjög ólíkar, og vil ég nefna nokkrar tölur. Þær eru frá árinu 1953, og í Dalasýslu eru meðalnettótekjur á íbúa 8091 kr. og í Strandasýslu 7804 kr., og er það tekjulægsta sýsla landsins eða lægstar nettótekjur á íbúa þar. Þá koma nokkrar nálægar sýslur, þ.e. Snæfellsnessýsla með 9632 kr., Mýrasýsla með 10678 kr. og Barðastrandarsýsla með 10429 kr. Gullbringu- og Kjósarsýsla er með 13554 kr. og Rvík, höfuðborg landsins, með 15648 kr., en Keflavík, sem hefur hæstar meðalnettótekjur á íbúa, er með 17190 kr. Meðalnettótekjur á íbúa á öllu landinu eru 12869 kr.

Það sést fljótlega, þegar þessar tölur eru athugaðar, að Strandasýsla, sem er tekjulægsta sýsla landsins, er með um það bil helmingi minni meðalnettótekjur á íbúa en höfuðborg landsins, Reykjavík. Og Dalasýsla, sem er næsttekjulægsta sýsla landsins, er með um 5 þús. kr. meðalnettótekjur undir því, sem er meðallag á öllu landinu.

Þessar tvær sýslur, sem eru tekjulægstu sýslur landsins, eru mun lægri en nágrannasýslur þeirra. Það liggja vafalaust margar orsakir til þess, að þetta er svona, en ég tel þó, að það, sem mestu hefur valdið í þessum efnum, sé það, hversu framleiðslan í þessum héruðum hefur verið einhæf. Bændurnir á þessum slóðum hafa svo að segja eingöngu frá upphafi stuðzt við sauðfjárræktina sem einu búgreinina, og eftir að mæðiveikin fór að geisa í búfénu, gefur að líta, að þarna hefur orðið miklu meiri tekjurýrnun en annars staðar, þar sem landbúnaðarframleiðslan var fjölþættari. Og það er ekki nóg með, að bændur hafa þolað mikið fjárhagslegt tjón af völdum sauðfjársjúkdómanna, heldur sigldi í kjölfar þess fjárhagslega tjóns það, að unga fólkið glataði trúnni á landbúnaðinn og hvarf frá þessum byggðarlögum til annarra staða á landinu, þar sem var hægt að bjóða glæsilegri lífskjör, og auk þess fóru jarðir í eyði.

Þegar svo var komið, var horfið til skipulegra fjárskipta í landinu, og þessum fjárskiptum hefði verið fyrir nokkru lokið, ef allt hefði farið eins og búizt var við, þau hefðu tekizt sem skyldi. En svo varð ekki, því að bændur á þessum slóðum, í Dala- og Strandasýslum, í þessu Dalahólfi, sem kallað er, vöknuðu við það einn góðan veðurdag, að mæðiveikin var komin í búféð að nýju og fyrirskipaður niðurskurður með eins árs sauðleysi hjá hverjum og einum.

Það var því ekki lengi, sem bændur á þessu svæði byggju við það að hafa óskertan bústofn og gætu öruggir haldið áfram þeim framkvæmdum, sem þeir voru byrjaðir á, eftir að hafa orðið að dragast verulega aftur úr bændum almennt í landinu vegna þeirra fjárhagsörðugleika, sem sköpuðust meðan mæðiveikin herjaði á árum áður, enda sýnir það, og ég hef bent á það í grg. fyrir till., að fjöldinn af bændum, eða um 2/3 af bændum, hefur ekki að meðaltali nema 65 fjár. Það er nokkurn veginn augljóst mál, að bændur, sem ekki hafa stærri bú en þetta, eiga örðugt með að koma upp búi að nýju, auk þess sem þeir dragast nú enn á ný aftur úr með allar framkvæmdir, sem þeir voru byrjaðir á, svo að í þessum efnum ríkir hjá mörgum hverjum bóndanum vonleysi, þegar horft er til framtíðarinnar. Mér er það vel ljóst, að ef ekki verður nú strax hlaupið undir bagga með þessum mönnum, þá verða verulega margir, sem heltast úr lestinni og hverfa frá búskap.

Þetta tvennt, sem ég hef hér nefnt, fjártalan annars vegar hjá bændum og tekjurnar miðað við tekjur annars staðar á landinu, sýnir glögglega, að þarna eru algerlega sérstæðar aðstæður, sem bændur eiga við að búa.

Við finnum ekki hliðstæð dæmi, þó að við leitum annars staðar á landinu, þegar héruð eru tekin sem heild, og á þeim grunni hef ég lagt fram þessa till. hér, í trausti þess, að Alþingi og ríkisstj. komi á móts við þessa menn með svo ríflegri aðstoð, að þeir geti á nýjan leik hafið búskap með glæsilegri brag en þeim hefur tekizt til þessa.

Þegar umr. lýkur nú, vil ég mælast til þess, að málinu verði frestað um sinn og vísað til fjvn.