15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (2492)

33. mál, aðstoð vegna fjárskipta í Dala- og Strandasýslu

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þáltill. þessari var vísað til fjvn. Nefndarmenn urðu allir sammála um afgreiðslu hennar, svo sem sjá má í nál., sem er birt á þskj. 514.

Mér var falið að fylgja nál. úr hlaði. Ég tel, að ekki sé þörf á langri framsögu. Ég geri ráð fyrir því, að þingheim greini ekki til muna á í þessu máli frekar en fjvn. Málið er þess eðlis. Skilmerkileg grg. fylgir líka till. á þskj. 33 frá hendi flutningsmanns, hv. þm. Dal.

Hér er um það að ræða, að athugun verði gerð á því, hvort bændur á fjárskiptasvæðinu í Dala- og Strandasýslum, hinu svonefnda „Dalahólfi“, komist hrakfallalaust af með almenna aðstoð vegna niðurskurðarins á sauðfé þeirra, sem framkvæmdur var í annað sinn á árunum 1955 og 1956 með fyrirskipunum um algerlega sauðlausan búskap árlangt. Öllum hlýtur að vera ljóst, að fjárskipti eru nauðvörn bænda, þótt þeir viti gerst, sem reyna, hvað þau binda þungar byrðar. En önnur úrræði hafa engin fundizt til þess að vinna bug á mæðiveikinni.

Ríkið leggur myndarlega lið við fjárskipti, svo sem vera ber, en samt er það mikið áfall, sem bændurnir sjálfir verða fyrir við að þurfa að skera niður fé sitt. Niðurskurðinum fylgir fjárhagstjón, atvinnutruflun og margháttaðar illar búsifjar, þó að allt sé það betra en að búa við fjárpestina, því að það getur enginn staðizt til lengdar. Að sjálfsögðu verða efnahagsáhrif niðurskurðar misjafnlega þungbær eftir því, hvernig ástæður eru á fjárskiptasvæðinu. Þar sem sauðfé er eini framleiðslustofninn, er vitanlega nær gengið atvinnulífinu en þar, sem fleiri eru búgreinar, er styðjast má við. Í Dalahólfinu var skipt um fé með niðurskurði 1947. Þá var mæðiveikin búin að gera mikinn usla á sauðfé bænda og fækka því stórkostlega. Bændurnir fengu þá stuðning til að kaupa líflömb sem svaraði helmingi þess bústofns, er eftir var orðinn um næstsíðustu áramót á undan niðurskurðinum. Næstu ár gengu svo í það að koma upp nýjum stofni, bæði í skarð vanhaldanna, sem orðið höfðu, og í skarð niðurskurðarins.

Eftir 7 ár kemur svo upp veikin á ný, og nú er í annað sinn búið að farga öllu fé á þessu svæði.

Fyrirskipað var, að svæðið yrði haft sauðlaust árlangt til öryggis. Í þeim sveitum, sem þarna eiga hlut að máli, er sauðfjárbúskapur nálega eini tekjustofninn hjá bændunum. Mjólkursala er engin og hlunnindi ekki teljandi, að sagt er. Sverfur því fast að við hin endurteknu fjárskipti.

Eins og sjá má af skýrslu, sem er í grg. till., hafa flestir bændurnir enn haft smábú þegar hinn nýi niðurskurður fór fram, svo að ætla má, að af litlu sé að taka hjá þeim til að þola áfallið.

Fjvn. sendi sauðfjársjúkdómanefnd till. til umsagnar. Sauðfjársjúkdómanefndin segist ekkert hafa á móti því, sem tili. fer fram á, að athugaður sé fjárhagur bændanna með tilliti til, að þeir kunni að þurfa meiri aðstoð en þeir hafa fengið. Hins vegar segist n. ekki vera sannfærð um, að bændurnir hafi orðið fyrir stórfelldu tjóni almennt séð. Sauðfjársjúkdómanefnd hefur að sjálfsögðu séð um og sér um, að bændurnir hafi fengið og fái hinar lögboðnu bætur vegna niðurskurðarins, — enginn efast um það, — en þegar um niðurskurð í annað sinn er að ræða hjá bændunum og þeir bændur stunda einvörðungu sauðfjárrækt og eru ekki efnalega sterkir á svellinu, þá gefur að skilja, að hinar venjulegu bætur verða ófullkominn stuðningur og miklu ófullkomnari stuðningur en við aðrar aðstæður, og því er rétt að athuga, hvort ekki er sanngjarnt og skylt að auka þarna stuðninginn. Sömu bætur eru vitanlega hlutfallslega minni bætur við síðari niðurskurð en hinn fyrri, ef miðað er við tjónið og áfallaþolið.

Í þjóðfélagi okkar er það og á að vera ráðandi stefna, að hlaupa undir bagga með þeim, sem standa höllum fæti í lífsbaráttunni eða slys henda, enda sem betur fer efnahagur til þess og atvinnulíf. Hér er ekki eingöngu um það að ræða að gefa gaum að því, hvort aðstoð beri að veita einvörðungu vegna þeirra bænda, sem í þrengingunum eru staddir í þetta sinn, heldur líka af þeim þjóðhagslegu ástæðum, að gæta verður þess, að fólk þurfi ekki að hrökklast frá búskap fyrir opinberar aðgerðir eins og niðurskurð vegna sauðfjársýkivarna, - gæta þess af umhyggju fyrir skóginum í heild, að þarna myndist ekki rjóður, svo að talað sé út frá líkingu þeirri, er flutningsmaður till. viðhefur mjög réttilega í grg. sinni á þskj. 33.

Af þeim ástæðum, sem ég hef greint, telur fjvn. við eiga, að Alþ. samþykki till., en leggur hins vegar til, að hún verði orðuð á þann hátt, er segir á þskj. 514, sem ég ætla nú að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, hversu þungbær áhrif á efnahag bænda í Dala- og Strandasýslum hinn nýafstaðni, endurtekni niðurskurður sauðfjár þar hefur haft, og gera að þeirri athugun lokinni till. um sérstaka aðstoð, ef þurfa þykir“.

Í samræmi við þessa umorðun till. leggur n. einnig til, að fyrirsögnin breytist. Fyrirsögnin verði: „Till. til þál. um athugun á nauðsyn aðstoðar til bænda vegna fjárskipta í Dala- og Strandasýslum“.

Með þessari umorðun kemur skýrar fram í till. en áður var, að athugunin sé og eigi að miðast við áhrif hins endurtekna niðurskurðar á efnahaginn og þol bændanna til þess að standast þá raun, sem sú aðgerð hefur lagt þeim á herðar; enn fremur, að gerðar skuli að athugun lokinni till. um sérstaka aðstoð, ef þurfa þykir. Fyrir fram er engu slegið föstu um, að aðstoðar þurfi með, þó að miklar líkur séu til þess, — tvímælalaust svo miklar líkur, að skylt er að gera athugunina.

Eins og ég hef tekið fram, var enginn ágreiningur i fjvn. um afgreiðslu málsins.