30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (2508)

64. mál, jarðboranir í Vestmannaeyjum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ásamt hv. 2. landsk. þm. hef ég leyft mér að bera hér fram till. á þskj. 87 varðandi fjárveitingu til jarðborana í Vestmannaeyjum, og hljóðar hún þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að afla sér heimíldar fyrir 500 þús. kr. fjárveitingu til að standast kostnað við jarðboranir á næsta ári til öflunar neyzluvatns í Vestmannaeyjum.“

Í grg. er tekið fram, að á undanförnum árum hafi verið gerðar nokkrar tilraunir til þess að bora eftir neyzluvatni í Vestmannaeyjum með þeim tækjum, er fyrir hendi voru, en árangur eigi orðið sá er skyldi. Má ætla, að þurft hefði miklu betri tæki til þessara borana en völ hafði verið á fram að því.

Nú er svo komið, að ríkið hefur eignazt tæki til svokallaðra djúpborana, en þau eru miklu öflugri og leita lengra niður eftir vatni, og má ætla, að fullkomin tilraun til þess að afla neyzluvatns á þessum stað komi ekki að gagni, nema hún sé framkvæmd með þeim djúpborunum, sem ríkið á nú tæki til, en það hefur áður ekki verið fyrir hendi, þegar reynt hefur verið að afla þessa vatns fyrir Vestmannaeyjar.

Það hefur verið rætt við forráðamenn jarðborana ríkisins um þetta mál, og hefur þar komið í ljós, að þeir hafa trú á, að til neyzluvatns mundi mega ná með því að viðhafa svo kallaða djúpborun.

Um þörfina fyrir neyzluvatn á þessum þýðingarmikla stað þarf ég eigi að fjölyrða fyrir hv. þingmönnum. Ég hef oft minnzt á það mál hér á hinu háa Alþingi, og þingið hefur á sínum tíma tekið vel í það, en eins og ég áður lýsti, hafa ekki hingað til verið fyrir hendi svo fullkomin tæki sem skyldi, svo að sá góði vilji, sem þingið hefur sýnt í þessu efni, hefur eigi borið þann árangur, er til hefði mátt ætlast.

Nú er svo komið, að fiskiðnaður í Vestmannaeyjum er mjög kominn í stóriðjuhorf og mikið unnið með vélum, sem ekki má þvo úr sjó, heldur verður að þvo úr fersku vatni, ef ekki á illa að fara. Er það enn ein ástæðan í sambandi við almenna neyzlu vatns og almennt hreinlæti, að þessum mjög svo þýðingarmikla framleiðslustað verði séð fyrir hæfilegum forða af vatni.

Ég skal ekki með tilliti til þess, hvað tíminn er orðinn áliðinn nú á fundinum, fjölyrða meira um þetta mál, enda mun þess ekki þörf fyrir hv. þm., að ég haldi um það langa ræðu. Ég vona, að það verði tekið vel í það, og ég vil biðja um, að málinu verði vísað til hv. fjvn. að þessari umr. lokinni eða frestaðri, eftir því sem hæstv. forseti ákveður. Ég vil vænta góðra undirtekta hjá þeirri hv. nefnd.