15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (2518)

154. mál, atvinnuleysi

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég viðurkenni, að nokkurt álitamál er, í hvaða n. þetta mál eigi að fara. Við heyrðum, að hæstv. félmrh. lagði til, að það færi til heilbr.- og félmn., en hún er ekki til í Sþ., og þess vegna ber hæstv. forseti fram þá till., að þetta fari til allshn. En nú stendur þannig á, að ein mikilsverð n. hér í þinginu hefur ekkert mál fengið til meðferðar og aldrei haldið nema einn fund og ekki lokið því að fullskipa sjálfa sig samkvæmt lögum, og það er utanrmn. Og þar sem hér er málefni, sem varðar alþjóðlegan samning og um leið atvinnuleysi, þá finnst mér hér einstakt tækifæri að bæta nú úr því atvinnuleysi, sem utanrmn. hefur auðsjáanlega liðið undir í vetur, og vísa málinu til hennar.