22.05.1957
Sameinað þing: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (2537)

180. mál, síldarverksmiðja á Seyðisfirði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Öllum þeim, sem eru nokkuð að ráði kunnugir síldveiðum, er það ljóst, að verulegt tjón hefur orðið af því nú um nokkurt skeið, hversu síldarbræðslukostur er takmarkaður fyrir sunnan Langanes. Fyrir nokkuð löngu var sett löggjöf, sem heimilaði ríkisstj. að láta byggja síldarverksmiðju á Austurlandi. Á hinn bóginn hefur verið þannig ástatt um síldveiðar hér yfirleitt, að þær ríkisstj., sem setið hafa síðan, hafa ekki lagt út í það að láta byggja nýja stóra verksmiðju. Því hafa þessi lög í raun réttri aldrei orðið framkvæmd.

Á hinn bóginn er á Seyðisfirði lítil bræðsla, og í fyrra var samþ. hér á hv. Alþingi að styðja kaupstaðinn til þess að efla nokkuð þá bræðslu og eignast hana, en áður hafði hún verið í eigu hlutafélags. Nú hafa forráðamenn bræðslunnar verið að leita eftir því að efla hana enn meir og stækka hana og hafa nú orðið þess varir, að þeir geta fengið keyptar innanlands góðar vélar, sem bræða 2500 mál á sólarhring, með allgóðum kjörum, og mundu geta komið þessu máli í kring, ef þeir fengju ríkisábyrgð.

Af þessum ástæðum leggur ríkisstj. til, að það verði veitt ríkisábyrgð, svo sem greinir í þáltill., og fénu varið til þess að kaupa þessi tæki, sem fást hér innanlands, og koma þeim upp. Það er jafnvel vonazt eftir því, að það gæti tekizt að koma þessari stækkun upp fyrir síldarvertíð, ef snarlega er í. þetta snúizt.

Þetta sýnist vera mjög skynsamleg ráðstöfun, og vil ég leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjvn. að lokinni þessari fyrri umr.