15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (2557)

161. mál, stofnun lífeyrissjóðs fyrir sjómenn

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það er í sambandi við eitt atriði í grg. hv. flm. fyrir þessari till., sem ég vildi segja örfá orð, af því að ég óttast, að ella kynnu að verða dregnar af því rangar ályktanir.

Það er minnzt á það, sem er auðvitað að nokkru leyti rétt, að opinberir starfsmenn séu í þessum efnum allmiklu betur settir en aðrir þjóðfélagsborgarar vegna sinna lífeyrisréttinda. Í sambandi við það er rétt að taka fram eitt atriði, sem ég er ekki viss um að öllum hv. þm. sé kunnugt, en það er þetta, að fyrir utan það, að starfsmönnunum er auðvitað gert að greiða sitt tillag til lífeyrissjóðsins, sem dregið er frá launum þeirra, þá hefur það alltaf verið þannig á undanförnum árum, að þegar teknar hafa verið ákvarðanir um laun opinberra starfsmanna, sem gert er með launalögum, þá er það m.a. með tilliti til þeirra lífeyrishlunninda, sem þeir njóta. Það er leitazt við að meta þessi hlunnindi til peninga, og þau laun, sem þeim eru ákveðin, eru svo lækkuð með tilliti til þessa. Eins og gengur, þegar um slíkt er samið, hefur að jafnaði verið um það nokkur ágreiningur, hvernig þessi hlunnindi skyldi meta, þannig að fulltrúar ríkisvaldsins hafa litið þannig á, að þau bæri að meta mikils, en starfsmennirnir og fulltrúar þeirra aftur á móti viljað gera úr þessu minna. Það er ekki annað en eðlilegur hlutur. En niðurstaðan hefur þó alltaf verið sú, að ekki hefur verið ágreiningur um það, að líta bæri á þetta sem hlunnindi, og launin lækkuð meira eða minna eftir því, hvernig um hefur samizt með tilliti til þess. Ég tel rétt, að þetta komi fram þegar á þessu stigi málsins. Ég er síður en svo að ásaka hv. flutningsmenn um það, að þeir hafi viljað gefa um þetta villandi upplýsingar, heldur er það aðeins ókunnugleiki, sem þessu veldur.

Varðandi efni þessarar till., þá álít ég, að hér sé merku máli hreyft, og mun styðja samþykkt hennar. En í sambandi við tryggingamálin er rétt að vekja athygli á því, að það, sem hefur verið mesta hindrunin í veginum fyrir því, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, hafi náð tilgangi sinum, hefur verið vöxtur verðbólgunnar, því að grundvöllur heilbrigðrar tryggingastarfsemi, og á það sér í lagi við, þegar um lífeyristryggingar er að ræða, hlýtur ávallt að vera stöðugt verðgildi peninganna. Ég ætla að leyfa mér að nefna hér örfáar tölur, sem gætu orðið til þess að undirstrika þetta frekar.

Fyrir stríð var talið samkvæmt ákvæðum og reglum, sem þá voru í gildi um lífeyristryggingu, að fullur lífeyrir, eins og það var orðað, á fyrsta verðlagssvæði, en það var hér í Reykjavík, skyldi vera 900 kr. á ári. Þetta var lágmark þess sem talið var þá rétt að greiða, og það var áður en lífeyrissjóðurinn kom til sögunnar, því að eins og hv. frsm. tók réttilega fram, þá var ekki gert ráð fyrir því, að lífeyrissjóðurinn, sem stofnaður var árið 1936, tæki til starfa fyrr en eftir nokkur ár, en fullur lífeyrir átti að vera 900 kr. hér í Reykjavík.

Nú mun lífeyrir hér í Reykjavík fyrir einstaklinga vera um það bil 8400 kr. En miðað við þá verðrýrnun, sem orðið hefur á peningunum frá því fyrir stríð, mun láta mjög nærri, að kaupmáttur ellilífeyris sé svipaður nú og hann var fyrir stríð. M.ö.o. hefur það verið þannig, að þrátt fyrir þau átök, sem gerð hafa verið í þessum málum, bæði með lögunum um almannatryggingar frá 1936 og einnig með lögunum um almannatryggingar frá 1946, stöndum við nákvæmlega í sömu sporum, þannig að hagur ellilífeyrisþega hefur ekki batnað neitt. Og þrátt fyrir það að gera má ráð fyrir því, að raunverulegar þjóðartekjur hafi a.m.k. tvöfaldazt á þessu tímabili, hafa þessir aðilar ekki fengið neina hlutdeild í þessari aukningu þjóðarteknanna, og gerir það atriði einnig víssulega tímabært, að þessi mál séu tekin til athugunar.

Þó ber þess að gæta í sambandi við lífeyrismálin, að ljóst mætti vera, að ef það væru sjóðirnir, sem eingöngu ættu að standa undir þessum greiðslum, þá mundi hagur ellilífeyrisþega vera enn lakari en hann raunverulega er, en ríkið mun leggja allmikið af mörkum fram yfir það, sem raunverulega var gert ráð fyrir samkvæmt almannatryggingalögunum, og það eru þessi framlög úr ríkissjóði, sem gera það að verkum, að hagur ellilífeyrisþega er þó ekki enn verri en hann er.

Sama máli gegnir um gamla embættismenn ríkisins, að hagur þeirra margra er ábyggilega mjög þröngur, og mundi þó vera enn þrengri, ef það væri ekki einnig á því sviði þannig, að ríkið leggur meira eða minna fram þeim til styrktar umfram það, sem lögboðið er.

Þetta sýnir það fyrst og fremst, að undirstaða allrar tryggingastarfsemi hlýtur að vera stöðugt verðgildi peninganna. Það má m.a. sjá af því, að þó að lífeyrissjóður kunni að vaxa t.d. á einu ári um 10%, þá er ekki um neina raunverulega aukningu að ræða, ef verðlagið hefur hækkað að sama skapi.

Í sambandi við lausn þessa máls er það því tvennt, sem mjög miklu máli skiptir, og er það í fyrsta lagi það, að heppnast megi að gera ráðstafanir til þess að stöðva þróun verðbólgunnar. Annað atriði má líka benda á, sem mjög miklu máli skiptir í því sambandi, en það er þetta: að fjáröflun til aukinna almannatrygginga verði ekki með því móti, að það verði til þess að auka verðbólguna. Fyrir tveimur árum var, eins og kunnugt er, stofnaður hér atvinnuleysistryggingasjóður, sem ekki er nema gott eitt um að segja út af fyrir sig, en sá galli var þó á þeirri sjóðstofnun að mínu áliti, að það heppnaðist ekki að útvega þessum sjóði fé með öðru móti en því, sem hlaut að hafa nokkur áhrif, meiri eða minni, til þess að auka verðbólguna. Framlögin til sjóðsins áttu að koma að nokkru leyti frá atvinnurekendum, en að öðru leyti frá bæjar- og sveitarfélögum og ríki, en vitað mál er það, að atvinnurekendur leggja með einhverju móti þessi framlög á vöruverðið, þannig að það kemur til að hækka, og hvað snertir þau framlög, sem komið hafa frá ríki, bæjar- og sveitarfélögum, þá fer ekki hjá því, eins og fjármálakerfið er nú, að þess fjár hefur verið aflað með auknum tollum og sköttum, þannig að það hefur einnig orðið til þess að hækka verðlagið.

Það verður höfuðvandamálið í sambandi við að auka verulega ellitryggingarnar, sem er gott og þarft málefni, að afla þess mikla fjár, sem til þess þarf, á þann hátt, að slíkt hafi ekki verðhækkunaráhrif í för með sér. En slíkt hlýtur að verða mjög erfitt vandamál úrlausnar, eins og okkar fjármálakerfi er nú. En þetta bendir aftur til þess, að erfitt er að leysa þetta mál út af fyrir sig, þannig að viðunandi sé. Lausn þess getur ekki orðið nema í sambandi við allsherjarlausn efnahagsvandamálanna.