13.03.1957
Sameinað þing: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (2565)

118. mál, endurheimt íslenskra handrita frá Danmörku

Flm. (Pétur Ottesen):

Þrátt fyrir það, þótt við flm. þessarar þáltill. á þskj. 259 höfum þar gert nokkra grein fyrir efni till., þykir okkur samt ástæða til að bæta þar nokkru við nú, er við leggjum þetta mál fyrir hæstv. Alþingi.

Við höfum í grg. rakið að nokkru þá rás viðburðanna, sem leiddi til þess, hve mikið af handritum og bókum og bréfasöfnum biskupsstólanna og klaustranna, ásamt fleiru fluttist til Danmerkur.

Við það, sem um þetta er sagt í grg., viljum við þó nokkru bæta, og er þá fyrst að geta þess, hver drög lágu að því, að Brynjólfur biskup Sveinsson í Skálholti, sem hafði undir höndum mikið af fornum skjölum og handritum, þ. á m. Flateyjarbók, sendi mikið safn þessara fjársjóða vorra til Danmerkur. Meðal þeirra handrita, sem með þeim hætti bárust til konungs, má nefna auk Flateyjarbókar Konungsbók Sæmundar-Eddu, Snorra-Eddu og hin stórmerku handrit þjóðveldislaga vorra, auk margs annars. Hafði Brynjólfur ákveðið að hefja hér heima prentun handritanna, en fékk því ekki framgengt sökum þess, að þótt prentsmiðja væri á Hólum, voru ekki, þegar til kastanna kom, aðstæður til þess að prenta þessi handrit og skjöl hér. En þá lézt konungur Dana og Íslendinga hafa hug á að gefa út þessi fornrit í Danmörku, en það varð til þess að ýta undir, að þessi fornrit og miklu fleira var sent út til Danmerkur í söfn, svo að eitthvað yrði úr prentun þeirra. En eins og kunnugt er, urðu engar efndir á því, að handritin yrðu prentuð, þegar þau voru komin til Danmerkur, en Íslendingar höfðu hins vegar af þeim misst.

Það má segja, að ekki væri óeðlilegt, að konungur geymdi handritin í söfnum sínum í Kaupmannahöfn, eftir því sem staðhættir voru í þá daga. En nú er þetta gerbreytt, eins og að er vikið í grg. Háskóli vor er nú sá staður, sem handritin tilheyra. Hann er, eins og nú er komið, kjörinn vettvangur til hagnýtingar og varðveizlu handritanna. Hann er meira að segja eini staðurinn í veröldinni, þar sem þessir menningarfjársjóðir vorir verða hagnýttir til hlítar.

Það, sem konungum var á einveldistímanum falið til varðveizlu eða þeir tóku í sínar hendur með sjálfsvaldi, hvort heldur var af þegnum sínum í Danmörku, Íslandi eða hertogadæmunum, átti að sjálfsögðu, er einveldinu var lokið, að afhenda því þjóðlandi, sem var réttur eigandi þessara varðveizlu verðmæta eða geymslufjár, en eitt ríkið gat alls ekki eignazt það, sem hinu ríkinu bar, nema þá að löglegir samningar væru um það gerðir. En svo hefur ekki verið að því er Ísland snertir.

Réttur Íslendinga til þess að krefjast afhendingar á þeim bókmenntafjársjóðum, er til konungs bárust, er því hvort tveggja í senn skýr og alveg óvefengjanlegur.

Annar er sá staður í Kaupmannahöfn en konunglega bókhlaðan og ríkisskjalasafnið, þar sem mikill grúi íslenzkra handrita og bréfasafna er geymdur, en það er Árnasafnið svokallaða. Það er að því vikið í grg., hve öfluglega Árni Magnússon gekk fram í því að safna íslenzkum handritum og skjölum alls konar á þeim meira en áratug, sem hann ásamt Páli Vídalín vann hér að samningu jarðabókarinnar, og í sambandi við það ferðaðist hann hér um allt land og hafði því mjög góða og sterka aðstöðu til þessarar söfnunar. Barst með honum, svo sem alkunnugt er, til Danmerkur mikill og merkilegur bókmenntafjársjóður frá Íslandi. En það óhapp skeði, að Árnasafn lenti í stórbruna í Kaupmannahöfn, og talið er, að eigi hafi verið bjargað nema 1/3 af prentuðum bókum og eigi yfir helming af handritum i þessum gífurlega eldsvoða í Árnasafni, sem varð árið 1728.

Var með þessum stórbruna og þegar fórst i hafi á leið til Danmerkur skip, sem hafði innanborðs mikið af handritum, fornum skjölum og fornum gripum úr kirkjum og klaustrum, sem Kristján V. hafði látið safna hér, höggvið stórt skarð í bókmenntaauðlegð Íslendinga og merkisgripasöfn þeirra.

Árni Magnússon hafði fengið mikið að láni af handritum og skjölum og sett merki á sumt af þessu a.m.k., er sýna skyldi, að svo væri ástatt um þessi skjöl.

Nokkru af embættisskjölum, er svona stóð á um, hefur verið skilað hingað aftur, en það er ekki nema mjög óverulegur hluti þess, sem hér er um að ræða. Það er sagt um Árna Magnússon, að hann hafi ekki verið jafnmikill framkvæmdamaður að skila bókum og handritum og að afla þeirra.

Það er til merkileg skrá um öll íslenzk handrit og skjöl í Árnasafni og fleiri söfnum í Danmörku eftir dr. Jón Þorkelsson, þar sem einnig er frá því skýrt, úr hvaða skjalasöfnum hér á landi handritin og bréfasöfnin eru runnin.

Það er talið, að Árni Magnússon hafi á dánardægri sínu ánafnað háskólanum danska þetta safn sitt með gjafabréfi, sem reyndar er talið nokkuð tortryggilegt. Dr. Páll Eggert segir, að erfðaskrá hans á deyjanda degi sé marklítil í þessu efni. Sama segir dr. Jón Þorkelsson, og í þingræðu 1907 segir Hannes Þorsteinsson þjóðskjalavörður, er hann ræðir um endurheimt íslenzkra skjala úr Árnasafni:

„Ég skal ekki fara út í það að tala um erfðaskrána sjálfa, þótt ekkert frumrit sé til af henni, svo að hún stendur nú á nokkuð völtum fæti.“

Þetta er álit þessara okkar miklu fræðimanna um það mál. Hitt er augljóst mál, að íslenzk handrit og skjöl, sem eru í Árnasafni og hann hefur fengið hér að láni eða íslenzkir menn hafa falið honum til varðveizlu í þeirri trú, að þau væru betur og tryggilegar geymd í hans vörzlu en hér heima, getur Árni ekki hafa hugsað sér að gefa eða ánafna öðrum, enda vafalaust aldrei ætlazt til, að svo færi, því að Árni var, svo sem alkunnugt er, góður Íslendingur, og honum átti að vera það flestum eða öllum ljósara, um hve dýrmæta fjársjóði hér var að ræða, sem hann að sjálfsögðu unni engum betur en Íslendingum að halda áfram að vera eigendur að.

Réttur vor er því einnig sterkur til þess að ganga eftir því, að íslenzki hlutinn í Árnasafni verði fluttur hingað heim.

Benedikt Sveinsson, fyrrv. bókavörður og forseti, kemst svo að orði 1930, er hann í þingræðu ræddi um tjón það, sem Íslendingar biðu við brunann í Árnasafni, — hann segir svo:

„Og þetta verður ekki bætt með öðru móti en því, að allt Árnasafn, sem eftir er, verði flutt heim til Íslands og geymt hér, og enn fremur, að allar íslenzkar bókmenntagersemar konungs verði geymdar hér á landi sem eign íslenzka konungsins og íslenzku þjóðarinnar.“

Þetta er sagt, eins og orðalagið ber með sér, áður en fram fór skilnaður Íslands og Danmerkur og konungssambandinu var slitið.

Það liggur í hlutarins eðli, að hér var um að ræða málefni, sem tók ekki að neinu leyti til annarra en Íslendinga og konungs þeirra í Danmörku. Af því leiddi, að er Íslendingar slitu sambandi við konung sinn, bar honum að skila Íslendingum aftur þessum fjársjóðum.

Dönsk stjórnarvöld hafa aldrei með neinum réttarfarslegum hætti öðlazt neina aðild að þessu máli. Þeir hafa ranglega slegið hendi sinni hér á annarra eign.

Málsvegur Íslendinga í því að krefjast þess, að þessum menningarverðmætum okkar verði skilað aftur, er því traustur og öruggur. Það er að því vikið í grg. þeirri, sem till. þessari fylgir, að orðið hafi nú um hríð hlé á því að Íslendingar gerðu að því gangskör að krefjast þess, að handritunum yrði skilað í hendur hins rétta eiganda þeirra. En leiðin til þess að hefja nýja sókn í máli þessu er að sjálfsögðu sú, að Alþingi feli ríkisstj. að hafa á hendi framkvæmdina í því efni, eins og við flm. þessarar till. leggjum til.

Það, sem mun hafa valdið því, að málið hefur legið í nokkru þagnargildi nú um skeið, er, að hilla þótti undir stefnubreytingu í málinu hjá dönskum stjórnarvöldum, er þau skipuðu fyrir nokkru nefnd manna til athugunar á þessu máli. En það kom í ljós síðar, að niðurstaðan af starfi þessarar dönsku nefndar var engan veginn á þá lund að ýta undir eða greiða götu þess, að danska stjórnin yrði við sanngjörnum og eðlilegum tilmælum Íslendinga um að skila aftur þessum menningarfjársjóðum.

Tilboð það, sem danska stjórnin lét berast íslenzku ríkisstjórninni um lausn þessa máls 1953, var þess eðlis, að Alþingi og ríkisstj. vildi ekki við því líta og vísaði því algerlega á bug.

Þá er einnig í grg. minnzt á það, að almenningsálitið í Danmörku er Íslendingum hliðhollt í þessu máli, enda hefur, eins og að er vikið í greinargerðinni, allmikið verið gert af hálfu Íslendinga til þess að fræða danska alþýðu um undirstöðuatriði þau, sem kröfur vorar um heimflutning handritanna eru reistar á.

Eftir að till. þessi kom fram á Alþingi og kunnugt varð um það í Danmörku, hafa undirtektir þær, sem hún hefur fengið þar, fært Íslendingum heim sanninn um það, hvernig háttað er almenningsálitinu í Danmörku hvað þetta mál snertir. Öll þau ummæli, sem hingað hafa borizt fréttir um, lúta að því, að Danir eigi að verða við þessum óskum Íslendinga, og kveða sumir svo að, að danska stjórnin ætti að hafa að því frumkvæðið að skila aftur þessum sögulegu verðmætum Íslendinga.

Þessi ummæli vekja ánægju og gleði meðal Íslendinga og eru vafalaust fyrirboði þess, að ekki líði á löngu, að Íslendingar fái hér vilja sínum framgengt og að eftirleiðis geti fræðimenn hvarvetna að úr hinum bókmenntaunnandi heimi kynnt sér í háskóla vorum, sem er miðstöð allra íslenzkra fræða, og rannsakað hinn dýrmæta arf forfeðra vorra, þar sem er tunga vor, bókmenntir og mannvit.

Vil ég loks, er ég lýk máli mínu, vitna til ummæla, sem Tryggvi Þórhallsson, þáverandi forsrh., lét falla í þingræðu 1930, er rætt var um handritamálið, en þau ummæli voru á þessa lund :

„Það er sorg yfir landinu, meðan þessir dýrgripir vorir eru ekki geymdir hér.“

Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði þessari till. vísað til hv. allshn. Og það er ósk okkar flm., að n. taki vel á þessu máli og afgreiði það fljótt frá sér, því að með því er orðið við ósk, sem allir Íslendingar óskiptir standa að.