31.05.1957
Sameinað þing: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (2571)

118. mál, endurheimt íslenskra handrita frá Danmörku

Pétur Ottesen:

Ég vil f.h. okkar flutningsmanna þessarar þáltill. um endurheimt íslenzkra handrita frá Danmörku þakka fyrir það, að í nál. því, sem till. fylgir, kemur fram sá sami einhugur sem ávallt hefur ríkt, þegar mál þetta hefur borið á góma hér á Alþingi, um að halda þessari kröfu áfram, þessari réttlætiskröfu Íslendinga, halda henni áfram, unz yfir lýkur og handritin eru komin heim. Þetta kemur hér skýrt fram í nái. og einnig í þeirri ræðu, sem hv. frsm. flutti um málið.

Brtt. sú, sem gerð hefur verið hér, skiptir ekki máli, af því að það er ekki nein efnisbreyting, og satt að segja sé ég ekki ástæðuna fyrir breytingunni, en með henni er heldur í engu slegið undan. Annars hefðum við flutningsmenn þessarar till. ekki getað sætt okkur við hana. Það eru að vísu felld hér niður orðin „orðið við ítrekuðum kröfum Íslendinga“, en vitnað er í fyrri samþykktir, og þessar fyrri samþykktir eru ítrekaðar kröfur Íslendinga um, að handritunum verði skilað. Þess vegna er ekki í neinu breytt að því leyti til með þessari orðalagsbreytingu.

Íslendingar hafa nú um hálfrar aldar skeið haldið uppi baráttu fyrir endurheimt handritanna. Nú á síðustu árum hefur verið allmikið unnið að því af hálfu Íslendinga að undirbúa þetta mál í Danmörku, og þar er vakin sterk hreyfing meðal alþýðu manna, sem styður kröfur vorar í þessu efni. Nú er ekki nema herzlumunurinn að fá málið leyst í samræmi við óskir Íslendinga, og það er skoðun okkar flm. þessarar þáltill., að föst og ákveðin sókn af okkar hálfu í málinu muni skjótlega leiða til þess, að þessum dýra menningararfi, sem Íslendingar eiga nú í söfnum í Danmörku, verði skilað aftur og við fáum þessa vora dýrmætu menningarfjársjóði til varðveizlu og hagnýtingar í okkar eigin æðstu menntastofnun, háskóla landsins. Þar eiga þeir heima, en hvergi annars staðar.