04.02.1957
Sameinað þing: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (2584)

94. mál, þingrof og nýjar kosningar

Flm., (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, og ég höfum borið fram í Sþ. svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að skora á forsrh. að leggja til við forseta Íslands, að Alþingi verði rofið og efnt til nýrra, almennra þingkosninga svo fljótt sem við verður komið og eigi síðar en í júnímánuði næstkomandi“.

Í stuttri grg., sem till. fylgir, segir, að stjórnin hafi vanefnt flest kosningaloforð sín, henni beri því að leggja gerðir sínar undir kjósendur, svo að úr því fáist skorið, hvort þeir vilji enn fela slíkum mönnum að fara með umboð sitt á Alþingi.

Í grg. felst ekki dómur um það, hvort snarsnúningur ríkisstj. í þar greindum málum sé til góðs eða ills. Það er mál út af fyrir sig. En krafan um þingrof og nýjar kosningar byggist á þeirri skoðun okkar sjálfstæðismanna, að það séu hyrningarsteinar lýðræðis og þingræðis, að sérhverri ríkisstj., sem þverbrýtur í höfuðefnum öll þau fyrirheit, sem hún gaf kjósendum landsins fyrir kosningar, beri að leita álits kjósenda að nýju og spyrja þá, hvort þeir enn vilji fela þeim mönnum umboð sitt á Alþ., sem í öllu, sem mestu máli skiptir, hafa framkvæmt alveg þveröfugt við það, sem þeir lofuðu og voru kosnir upp á.

Ég ætla, þar til annað reynist, að treysta því, að enginn dirfist að mótmæla réttmæti þessarar kenningar. Eftir er þá aðeins að sannprófa, hvort staðhæfingarnar um vanefndir stjórnarinnar eru réttar eða rangar, hvort réttmætt sé, að nú eftir hálfs árs völd skuli ekki lengur um það spurt, hvað stjórnin eigi eftir að efna, heldur spyrji menn, hvað hún eigi eftir að svíkja af fyrirheitum sínum.

Áður en ég vík að þeim tveim stórmálum, sem um er rætt í grg., varnarmálunum og efnahagsmálunum, þykir mér rétt að minna á, að fyrir kosningarnar gáfu leiðtogar Hræðslubandalagsins á flestum kosningafundum skýr og ótvíræð fyrirheit um, að þeir mundu aldrei vinna með kommúnistum. Rak formaður Alþfl. lestina, þegar hann síðastur ræðumanna við útvarpsumræðurnar rétt fyrir kosningar áréttaði öll þessi fyrirheit í umboði Hræðslubandalagsins. Lokaorðið hafði þó höfuðmálgagn Framsfl., Tíminn, er hann á sjálfan kjördaginn birti svo hljóðandi yfirlýsingu varðandi Alþb.:

„Ekkert samstarf verður haft við þetta bandalag kommúnistanna um stjórn, af því að þeir eru ekki hóti samstarfshæfari en áður, þótt þeir hafi skipt um nafn.“

Engum vafa er undirorpið, að margir hatrammir andstæðingar kommúnista festu trúnað á þessa margendurteknu svardaga og létu því til leiðast að kjósa Hræðslubandalagið, enda þótt þeir væru lengi í vafa, vegna þess að þeir höfðu Hermann Jónasson forsrh. og raunar fleiri grunaða um græsku í þessum efnum.

Sjón er sögu ríkari. Þeir, sem þessum eiðum treystu, urðu reynslunni ríkari, þegar kommúnistar tóku sér bólfestu í híbýlum ríkisstjórnar Íslands.

En gjöf skal gjaldast, ef vinátta á að haldast. Hér skal ekki að þessu sinni deilt á Hræðslubandalagið vegna kosningaklækjanna. Þjóðin vissi um þá fyrir kosningar og getur þess vegna ekki stefnt kröfunni um nýjar kosningar vegna þess athæfis að Hræðslubandalaginu. Hér er nýr sökudólgur kominn fram á sjónarsviðið, hið svonefnda Alþb. — kommúnistarnir.

Enn er í fersku minni fordæming og fúkyrði kommúnistanna fyrir og eftir kosningar vegna atferlis Hræðslubandalagsins og svardagarnir um, að aldrei skyldi það þolað, að Hræðslubandalagið fengi uppbótarþingmenn nema sem einn flokkur. Það ætti að vera óþarft að eyða tíma í að rifja upp þau ummæli, brigzlyrði kommúnistanna um „svik“, „pretti“, „þingmannarán“ o.s.frv., þau skipta hundruðum. Aðeins sem smásýnishorn nefni ég þetta úr Þjóðviljanum 29. maí s.l.:

„Það tiltæki Hræðslubandalagsins að skila tveimur landslistum, enda þótt um sé að ræða sameiginlegt framboð í öllum kjördæmum landsins, hafði þann eina tilgang að ræna miklu fleiri þm. en atkvæði heimila. Það tiltæki er í eðli sínu ekkert annað en kosningasvik og er í fyllstu andstöðu við ákvæði stjórnarskrár og kosningalaga.“

Hér er skýrt að kveðið. En það er meira blóð í kúnni. Alþb. fór að gera því skóna, að við sjálfstæðismenn ætluðum að svíkja loforð okkar og mundum taka gild kjörbréf, sem uppbótarþingmenn Hræðslubandalagsins kynnu að fá, ef Hræðslubandalagið vildi tryggja okkur sæti í ríkisstj. Um svo hræðilegan glæp segir Þjóðviljinn þennan sama dag:

„Menn eru ýmsu vanir af leiðtogum Sjálfstfl., en þó verður vart öllu lengra komizt í tvöfeldni og óheiðarleika, í fullkomnu skeytingarleysi um réttan málstað. Hvað segir fólkið, sem kosið hefur Sjálfstfl. í góðri trú, um jafnbotnlaus óheilindi?“

En nú komu meinleg örlög til sögunnar og léku kommúnistana grátt. Þeim buðust nefnilega sætin, sem þeir óttuðust að við mundum þiggja. Þau voru dálítið dýr. Þeir þurftu að taka gild öll kjörbréf uppbótarmanna Hræðslubandalagsins. Þeir þurftu að færa stimpil „óheiðarleika, ráns og refja“ — svo að ég noti þeirra orð — af okkur og yfir á sig. Það gekk eins og skot.

Fjórum ræningjum, sem kommúnistar höfðu dæmt til dauða, gáfu þeir nú líf. Einn eða tveir settust í ráðherrastólana við hliðina á lífgjöfunum, kommúnistunum. Hinir urðu að láta sér nægja þingmannabekkinn og formennsku í nefndum og ráðum, og nú taka allir sæmilegir menn undir með kommúnistum og spyrja: „Hvað segir fólkið, sem kosið hefur slíka menn, um jafnbotnlaus óheilindi?“ Því fæst svarað, ef stjórnarliðar þora að ganga fyrir dómara sinn, kjósendur landsins.

Við komum þá að varnarmálunum. Þau hafa verið svo nýlega og ýtarlega rædd, að óhætt er að fara fljótt yfir sögu.

Í þáltill. þeirri, sem Alþ. samþ. 28. marz s.l., er kjarninn sá, að varnarsamningnum verði tafarlaust sagt upp og varnarliðið sent úr landi svo fljótt sem ákvæði samningsins leyfðu, „því að betra væri að vanta brauð en þola erlenda hersetu á friðartímum“, eins og Hermann Jónasson forsrh. svo fagurlega mælti.

Það þótti réttast, að þingið ákvæði fyrst, að varnarliðið færi úr landi, en spyrði svo á eftir um álit utanrrh. bandamannaríkjanna. Þótti sumum það viðlíka vinnubrögð eins og ef dómari dæmdi mann til dauða og léti hengja hann, en ákvæði jafnframt að láta síðar rannsaka, hvort hann hefði verið sekur.

Þessar sögulegu staðreyndir skulu ekki raktar hér frekar. En ég get þess aðeins, að mér dettur ekki í hug að brigzla núverandi valdhöfum um, að þeir hafi nokkru sinni gengið þess duldir, að ófriðareldurinn logaði alls staðar undir og hafði raunar víða gosið upp. Spurningin var aðeins, hvenær og hvar bálið brytist út og hvort úr yrði alheimsbruni.

Ég ætla ekki í dag að rökstyðja dóminn yfir þeim mönnum, sem ákváðu að skipta á öryggi landsins og ráðherrastólunum. Það bíður síns tíma. Það má líka segja, að það skipti ekki höfuðmáli í þessu sambandi, hvaða hvatir réðu gerðum þeirra, heldur hitt, að það voru ekki aðeins kommúnistar, heldur líka Hræðslubandalagið, sem fyrir kosningar lofaði að reka varnarliðið tafarlaust úr landi. Og þó að fullvíst sé, að margir kusu Hræðslubandalagið, ekki vegna, heldur þrátt fyrir óskynsamlega og óábyrga ákvörðun í varnarmálunum, þá var sú ákvörðun samt sem áður einmitt tekin til þess að tryggja því atkvæði margra einfaldra sakleysingja, sem heldur vildu steypa yfir þjóðina ógnþrunginni áhættu varnarleysis en að þola fámennt varnarlið í landinu, — manna, sem trúðu orðum forsrh., að „betra væri að vanta brauð en þola varnarlið í landinu“.

Eru þá ótaldir hinir trúu þjónar ofbeldisaflanna, sem nú töldu sig sjá hilla undir óskastundina, þegar Ísland yrði óvarið, svo að hægara væri að ryðja trú þeirra braut með vopnavaldi. Þessir menn, allir þessir menn, og þeir eru nokkuð margir, telja sig nú svikna og eru það. Þessum svikum lýsir höfuðblað stærsta stjórnarflokksins hinn 11. des. s.l. þannig:

„Það stoðar lítið að semja fagrar stefnuyfirlýsingar og birta loforðaskrá, ef allt annað birtist þjóðinni í verki, þegar á reynir. Það er góð regla að láta verkin tala, og framburður þeirra hefur ekki verið ánægjulegur síðustu vikurnar. Þetta er dagvaxandi áhyggjuefni vinstri manna um land allt, en þeir gera sér þá jafnframt vonir um, að öðruvísi verði tekið til hendi á næstunni, þegar úrræðin í efnahagsmálunum verða birt. Alþfl. og Framsókn halda væntanlega betur tryggð við loforð sín í innanlandsmálum heldur en fyrirheit sín um brottför hersins. Að öðrum kosti er ljóst, að forustumenn þessara flokka hafa einvörðungu litið á vinstri stjórn sem vörumerki til að fela hægri stefnu“.

Þetta eru orð Þjóðviljans. Þetta er skýrt að kveðið. En það er mikill misskilningur, ef kommúnistar telja sig geta þvegið hendur sínar af svikunum með látalátum eins og þeim að láta einstök verkalýðsfélög krefjast þess harðlega, að varnarliðið fari. Þeir sitja áfram í stjórninni, sem svikin framdi. Og þeir virtust ekkert óróast, þótt utanrrh. segði þeim, að dvöl varnarliðsins gæti orðið nokkuð löng og hann hefði þess vegna samið um skipan fastrar sex manna nefndar Íslendinga og Bandaríkjamanna til að jafna misklíðarefnin, sem í framtíðinni kynnu að rísa milli varnarliðsins og Íslendinga.

Það er svo kapítuli fyrir sig, sem hér skal ekki rakinn, að stjórnin varð margsaga í málinu. Allir neituðu ráðh. þó því, að farið væri að selja réttinn til að verja landið, því að það væru alger ósannindi, að minnzt hefði verið á lán við Bandaríkin í sambandi við framlengingu varnarsamningsins.

Þess er svo getið hér til fróðleiks, að nýverið fékk stjórnin lán í Bandaríkjunum til ýmissa framkvæmda, sem fyrrv. stjórn gat ekki fengið hjá Alþjóðabankanum, og nú eru þessi lán veitt úr sjóði, sem „forseti Bandaríkjanna ræður yfir og aðeins má nota til ráðstafana, sem forsetinn telur mikilvægar fyrir öryggi Bandaríkjanna“, svo sem segir orðrétt í opinberri tilkynningu Bandaríkjastjórnar um lánveitingu þessa.

Um þetta sagði Þjóðviljinn, að hér væri um undarlega tilviljun að ræða, en að oft væru líka „tilviljanirnar bezt undirbúnar“ — og það er rétt.

Er nú verið að semja um fleiri og stærri lán í Bandaríkjunum. Er þá svo komið, að við fáum herinn og brauðið í kaupbæti, þótt hinn hugumstóri og stolti forsrh. vor ynni hjörtu þegna sinna með kjörorðinu: „Betra er að vanta brauð en þola varnarlið í landinu“.

Þeir, sem vildu óvarið land, munu telja sig svikna. Það er von.

En hefur þá stjórnin kannske bætt málstað sinn með því að bera fram til sigurs varanleg úrræði í efnahagsmálunum, sem hún gaf ótvíræðust fyrirheitin um? Eða hefur hún e.t.v. svikið það líka?

Til glöggvunar skal ég minna á örfá ummæli stjórnarliða fyrir kosningar, svo að hægara sé að átta sig á, hvað það var, sem núverandi stjórnarflokkar fordæmdu og lofuðu að láta sig aldrei henda.

Ég gef Framsfl. orðið. Tíminn sagði 8. júní þetta:

„Niðurgreiðsluleiðin er engin framtíðarlausn, heldur hættuleg svikaleið, sem brátt hefnir sín“.

Og daginn fyrir kosningar voru orð Framsfl. þessi:

„Þess vegna er hugmynd sjálfstæðisforingjanna að halda áfram sem fyrr eftir kosningar. Þá verður haldið áfram með bráðabirgðaúrræði eins og síldaruppbæturnar síðustu, aukna skattheimtu af almenningi í einni eða annarri mynd, meðan sárustu kvalirnar minnka með gróða af hernaðarframkvæmdum og hernum“.

Og enn fremur segir Tíminn:

„Gegn þessum voða þarf þjóðin að rísa, áður en það er of seint“.

Hér er í stuttu máli sýndur kjarninn úr loforðum Framsfl. og Alþfl. fyrir kosningarnar. Ekki spöruðu kommúnistar heldur stóryrðin, þegar fyrrv. ríkisstj. var tilneydd að leggja 150 millj. kr. nýja skatta á þjóðina, útveginum og ríkissjóði til bjargar, né fyrirheitin um ný og betri úrræði, ef þeir fengju að ráða. Töldu kommúnistar þá útveginum mikla ofrausn sýnda, þótt þeir nú segi sig hafa gert hlut útgerðarmanna miklu betri en nokkur fyrrverandi ríkisstj., a.m.k. þegar þeir tala við útgerðarmennina sjálfa, og þá þóttust kommúnistar líka kunna nóg ráð til að afla fjár, án þess að farið væri í buddu almennings.

Um þetta sagði Þjóðviljinn 31. jan. 1956, þegar verið var að ræða um úrræði fyrrv. stjórnar:

„Ræddi Lúðvík Jósefsson sérstaklega um hinar nýju og óhemjulegu álögur ríkisstj. Sýndi hann fram á, að hér væri ekki aðeins um að ræða einhverja stórfelldustu árás, sem gerð hefur verið á lífskjör vinnandi fólks á Íslandi, heldur efnahagslegt glapræði, sem draga mundi enn meiri ófögnuð á eftir sér“.

Og ekki höfðu kommúnistar linnt á sprettinum við kosningarnar í júní s.l. Þá sagði Lúðvík Jósefsson í útvarpsræðu:

„Embættismannaklíka Alþfl. gekk þannig til liðs við tollaflokkinn, skattaflokkinn, gengislækkunarflokkinn, kaupbindingarflokkinn“, þetta er Framsfl., sem hann er að tala um, flokkurinn, sem hann sjálfur er í samstarfi við, — „en hún sveik verkalýðshreyfinguna“. Þetta eru orð Lúðvíks Jósefssonar þá.

Hinn ráðh. kommúnista, Hannibal Valdimarsson, hafði líka skoðun. Hún var þessi orðrétt: „Það er bjargföst skoðun núverandi stjórnar

Alþýðusambands Íslands, að nú ríði verkalýðshreyfingunni lífið á að eignast svo sterkan þingflokk á Alþingi, skuldbundinn af stefnuskrá Alþýðusambandsins, að gengislækkun, lögbindingu kaups, vísitöluskerðingu eða nýju skattaflóði verði ekki með neinu móti fram komið á Alþingi“.

Ég skýt því hér inn í, að þessar heitu óskir alþýðuvinanna rættust. Alþb. fékk 8 þm. kjörna og þar með neitunarvald um skatta og allt annað innan ríkisstj. Þetta bið ég menn að hafa hugfast, þegar dómur er felldur um „jólagjöfina“ svonefndu, þær drápsklyfjar nýrra skatta, sem stjórnarliðið — jafnt Alþýðubandalagsmenn sem aðrir — lagði á allan almenning núna fyrir jólin.

Ég hef nú látið hljóma eina og eina rödd úr samstilltum fordæmingarkór núverandi stjórnarflokka yfir gerðum fyrrv. stjórnar. Mun margur hafa metið það við Framsfl. að ganga svona hispurslaust til skrifta í alþjóðaráheyrn, játa syndir sínar jafnafdráttarlaust, og að fremur fyrir það, að hann átti sannarlega sinn helming af ábyrgðinni fyrir gengisfallið og bátagjaldeyrinn, að ekki séu nefndir blessaðir skattarnir.

Framsóknarmenn létu sér skiljast, að svo bersyndugir menn fengju ekki fyrirgefningu nema að lofa bót og betrun. Flokkurinn lét þá heldur ekki á því standa. Í sjálfri kosningastefnuskrá Hræðslubandalagsins segir um þetta orðrétt:

„Nú verður að brjóta í blað í íslenzkum stjórnmálum. Ef ekki verður gripið fast í taumana, skapast algert öngþveiti í efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar. Þess vegna ber nú brýna nauðsyn til þess, að tekin sé upp ný stefna í efnahagsmálum þjóðarinnar“.

Hér liggur allt ljóst fyrir. Því er heitið, að tekin skuli upp ný stefna í efnahagsmálunum, svo skelegg, að brotið skuli blað í íslenzkum stjórnmálum, og nýja stefnan átti að tryggja, að svikaleið niðurgreiðslnanna skyldi nú lokað. „Deyfilyf íhaldsins“, þ.e.a.s. þau úrræði, sem

Framsfl. og Sjálfstfl. höfðu beitt, skyldu dauðadæmd. Engar „síldaruppbætur“, engin „skattheimta af almenningi í einni eða annarri mynd“, því að verkalýðnum „ríður lífið á, að gengislækkun, lögbindingu kaups, vísitöluskerðingu eða nýju skattaflóði verði ekki með neinu móti fram komið á Alþ“, eins og segir orðrétt í kosningaloforðum stjórnarflokkanna.

Ekki er að furða, þótt kjósendur sæju framtíðina í hillingum.

Í júlílok var mynduð ný stjórn. Nú skyldu vinstri úrræðin reynd. Varanleg lausn efnahagsmálanna eftir nýjum leiðum beið á tröppunum. „Úttekt þjóðarbúsins“ hófst, erlendir sérfræðingar voru sóttir til aðstoðar, hendur stóðu fram úr ermum. Eftir 21/2 mánuð komu fyrstu stóru fréttirnar frá vígvöllunum, þar sem stjórnarliðið var að murka lífið úr verðbólgunni eftir nýju leiðunum. Yfirhershöfðinginn, forsrh., flutti liði sínu gleðiboðskapinn á fundi 7. október. Hann skýrði frá því, að efnahagslífið væri að vísu „helsjúkt“ eftir nær 10 ára stjórnarsetu Framsfl„ en þó væri leikur einn að ráða fram úr vandanum. „Ef rétt er á haldið“, sagði forsrh., „þarf hér ekki að vera um að ræða neina kjaraskerðingu“. Menn yrðu aðeins að leggja inn á nýjar leiðir, það yrði gert, sagði forsrh., og svo bætti hann við, að „enda hefði stjórnin verið stofnuð til samstarfsins á grundvelli nýrrar stefnu“. Og loks sagði Hermann Jónasson: „Það er prófsteinn stjórnarinnar, hversu tekst að leiða þjóðina út úr þeim ógöngum, sem alröng og tækifærissinnuð stjórnarstefna liðinna ára hefur leitt út á“. Þetta er skýrt. Engin kjaraskerðing. Engir skattar. Prófsteinn á stjórnina. Og nú beið þjóðin varanlegu úrræðanna í ofvæni.

Enn liðu 10 vikur, þá kom næsta fréttin frá vígstöðvunum: Engar nýjar leiðir. Engin varanleg úrræði. Prófsteinninn var orðinn legsteinn allra loforða og raunar líka stjórnarinnar sjálfrar, ef hún þekkti nokkurt pólitískt velsæmi. Fyrst kaupbinding til bráðabirgða, síðan lögsvipting umsaminna kauphækkana, þar næst 250–300 millj. kr. nýir skattar á almenning ofan á alla skattana, sem fordæmdir höfðu verið, stórhækkaðar niðurgreiðslur, margfalt gengi og raunveruleg gengisfelling, nýjar nefndir, von hafta, banna og svartamarkaðs, og alveg sérstakar ráðstafanir gerðar til að svíkja vísitöluna með því að sjá um, að hún hækki lítið eða ekkert, enda þótt 2/3 hlutar þess, sem flutt er til landsins, stórhækki í verði og jafnvel um allt að 70%.

Þetta eru þá efndirnar, eða réttara sagt svikin. Hér á það við, sem Lúðvík Jósefsson sagði um skattahækkanir fyrrverandi stjórnar: „Hér er um að ræða einhverja stórfelldustu árás, sem gerð hefur verið á lífskjör vinnandi fólks á Íslandi“. Þetta eru orð að sönnu hjá Lúðvík Jósefssyni.

Þegar minnzt er fagurgalans og fyrirheitanna fram undir áramótin, hefur þó Gylfi Þ. Gíslason hitt naglann enn betur á höfuðið með þessum orðum: „Hæstv. stjórn leggur til að gera það, sem hún var búin að segja þjóðinni að aldrei mætti gera. Sú stjórn, sem slíkt gerir, á að fara. Hún getur ekki haft traust þjóðarinnar“. Aldrei fór það svo, að við Gylfi Þ. Gíslason yrðum ekki sammála.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki aðeins svikið öll sín fyrirheit, heldur virðist hún beinlínis hafa leitazt við að gera þveröfugt við það, sem hún lofaði. „Sú stjórn, sem slíkt gerir, á að fara“, eins og Gylfi Þ. Gíslason segir.

Ég þarf ekki að rökstyðja brigðmælin í efnahagsmálunum frekar en ég hef gert, og hefði raunar kannske alls ekki þurft að vera svo margorður um þau, einfaldlega vegna þess, að þjóðin veit, að aldrei hefur nokkur stjórn á Íslandi leyft sér svo augljósar og herfilegar vanefndir á fyrirheitum um meginmálin sem núverandi stjórn hefur gert í efnahagsmálunum.

Stjórnin veit þetta líka sjálf. Ef nokkur er í vafa um það, þá skal ég enn leiða fram þrjú vitni.

Þegar ríkisstj. í ágústlok s.l. bannaði hækkanir kaupgjalds og afurðaverðs til ársloka 1956 og taldi sig gera það í umboði aðila, sagði Þjóðviljinn hinn 28. ágúst:

„Samkomulagið er til þess gert og bundið því skilyrði, að samið verði um varanlega framtíðarlausn efnahagsmálanna fyrir áramót“.

Og enn fremur 30. ágúst:

„Endanlegar aðgerðir ber auðvitað að gera á kostnað þeirra auðfélaga og braskara, sem rakað hafa saman óhemjulegum gróða á undanförnum árum“.

Sama dag sagði Alþýðublaðið:

„Og fresturinn fram að næstu áramótum mun skera úr um það, hvort hægt verði að gera drauminn um róttækar ráðstafanir í efnahagsmálunum og stöðvun dýrtíðarinnar að veruleika“.

Hér er um ekkert að villast. Samið er um „varanlega frambúðarlausn efnahagsmálanna fyrir áramót“ „á kostnað auðfélaga og braskara“, og fyrir áramót skyldi „gera drauminn að veruleika“.

Getur nú allur almenningur spreytt sig á að átta sig á því, hvort heldur sé, að hlutaðeigandi sé einn af „bröskurunum“ eða stjórnin hafi steingleymt „auðfélögunum og bröskurunum“, en látið þá, sem minnsta hafa gjaldgetuna, borga brúsann, en stjórnin hefur nú lagt a.m.k. 8–9 þús. kr. á hvert heimili í landinu.

Vitnaleiðslunni er að ljúka. Eftir er nú aðeins sá, sem mestu lofaði og valdið hefur. Ég gef nú forsrh. orðið. Hann ætlar í áheyrn alþjóðar að skýra okkur frá því, hverjar kröfur hann gerði til valdhafanna, og þá um leið að kveða upp dóminn yfir sjálfum sér og stjórn sinni, segja okkur frá því, hvort hann hafi efnt heitin eða svikið þau, sé saklaus eða sekur, eigi að vera við völd eða segja af sér, minnugur orða Gylfa Þ. Gíslasonar, að sú stjórn, sem svíkur loforð sín, á að fara.

Í útvarpsræðu þeirri, sem forsrh. flutti 28. ágúst, þegar hann tilkynnti þjóðinni fyrstu bráðabirgðaráðstafanirnar, mælti hann á þessa leið:

„Ráðstafanir síðasta Alþ. voru með þeim hætti, sem kunnugt er, að ekki varð hjá því komizt að leggja álögurnar sumpart á lífsnauðsynjar þjóðarinnar. Um leið og þær komu framleiðslunni af stað til bráðabirgða, leiddu þær af sér sjálfkrafa vaxandi dýrtíð, aukinn framleiðslukostnað og undirbjuggu þar af leiðandi auðvitað hættu á stöðvun framleiðslunnar að nýju.

Ég hygg, að þjóðin hafi þegar gert sér ljóst, að atvinnulíf og fjármálakerfi með sívaxandi dýrtíð er helsjúkt og að þessi sjúkdómur leiðir til fjárhagslegs ósjálfstæðis, ef ekki er að gert.

Nú þarf meginþorri þjóðarinnar að vera samtaka um að búa sig undir þær ráðstafanir, sem til frambúðar mega verða. Ef það tekst — og því aðeins að það takist, mun þjóðin skapa sér heilbrigða atvinnuvegi“.

Þetta eru orð forsrh., og hann veit, hvað hann segir.

„Álögur á lífsnauðsynjar þjóðarinnar . . leiða af sér sjálfkrafa vaxandi dýrtíð og undirbúa stöðvun framleiðslunnar að nýju“. En slíkt fjármálakerfi er „helsjúkt og leiðir til fjárhagslegs ósjálfstæðis“. Þess vegna ber nú tafarlaust að gera „þær ráðstafanir, sem til frambúðar mega verða“. „Ef það tekst og því aðeins að það takist“, er okkur lífs auðið. „Það er prófsteinninn á stjórnina“, eins og forsrh. sagði 7. okt.

Þetta er krafa forsrh. til sérhverrar ríkisstj., sem tekur við stjórnartaumunum, til að rétta hag þjóðarinnar, lækna helsýkina, en ekki aðeins til þess að stilla sjálfum sér í ráðherrastóla og hanga þar í máttvana sýndarmennsku.

Og nú er enn að láta staðreyndirnar tala. Afrekaröðin er þessi: Stjórnarsamstarf við Sjálfstfl. rofið út af ágreiningi um efnahagsmál, sem raunar enginn vissi hver var. Kosningar. Loforð um nýjar leiðir og varanlega lausn efnahagsmálanna. Ný stjórn. Óvinsæl bráðabirgðaúrræði réttlætt með fyrirheitum um varanleg úrræði fyrir áramót. Enga skatta á almenning. Braskararnir borga. „Ef það tekst — og því aðeins að það takist“, eins og forsrh. sagði, á stjórnin að vera, „annars að fara“, eins og menntmrh. sagði.

Dómurinn er fallinn. Varanlegu úrræðin týndust. Braskararnir gleymdust. Almenningur fékk 250–300 millj. kr. í nýja skatta, sem forsrh. réttilega sagði að leiddu til „sjálfkrafa vaxandi dýrtíðar“. Eru þá ótalin skiptin á hernum og brauðinu, samstarfið við kommúnistana, samþykki þeirra á þingmannaráninu o.m.fl. Stjórn, sem þannig hegðar sér, hlýtur að vera „helsjúk“ og ber að leita nýs lífs með nýjum kosningum eða lognast út af, kafna í eigin brigðmælum.

Ég bið nú hv. hlustendur að veita því athygli, hvort heldur stjórnin reynir að sýna fram á, að hún hafi efnt heit sín, eða freistar þess að fela sig í reykskýi með því að þvæla um, að við sjálfstæðismenn höfum engin úrræði borið fram, en ráðizt á úrræði, sem við sjálfir höfum áður beitt með framsóknarmönnum. Allt er þetta málinu gersamlega óviðkomandi, því að hér er spurt um efndir eða svik valdhafanna. En til fróðleiks get ég þess, að stjórnin sá um, að við gætum ekki gert till., með því að leyna okkur öllum upplýsingum. Hitt er svo aðeins vítaverð blekkingartilraun, þegar þeir, sem fordæmdu nýja skatta í fyrra og hétu nýrri stefnu og varanlegum úrræðum, þykjast sýknir saka með þeim rökum, að úr því að sjálfstæðismenn leystu þörf útvegsins í fyrra með 150 millj. kr. sköttum, séu þeir nú skyldugir að aðhyllast, að nú sé bætt ofan á 250–300 millj. kr. nýjum sköttum.

Ég lýk máli mínu með því að staðhæfa, að stjórnin hefur vanefnt flest sín fyrirheit og öll, sem mestu skipta, eins og ég hef fært rök að.

Ég tek enn undir með Gylfa Þ. Gíslasyni: „Sú stjórn, sem gerir slíkt, á að fara“. Við krefjumst þó ekki annars eða meira en þess, að stjórnin leggi mál sitt undir dóm kjósenda. Kemur nú í ljós, hvort stjórnin hefur manndóm til að ganga fyrir dómara sinn eða aðeins vesaldóm til að lafa í ráðherrastólunum, þar til þeir velta.