04.02.1957
Sameinað þing: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (2585)

94. mál, þingrof og nýjar kosningar

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þá hefur formaður Sjálfstfl. lokið framsögu fyrir þeirri kynlegu till., sem hann og formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Bjarni Benediktsson, hafa hér lagt fyrir Alþ. Þessi till. þeirra félaga er á ýmsan hátt óvenjuleg. Hún er ekki um vantraust á ríkisstj. og því ekki hér til afgreiðslu sem slík. En hún krefst nýrra alþingiskosninga á komandi sumri. Till. þeirra félaga er ótímabær, enda augljóslega lögð fram í fáti og fumi.

Till. kom fram síðasta starfsdag þingsins fyrir jól, þegar þm. voru almennt að fara í jólaleyfi og sumir enda farnir af stað heim. Þá hafði Alþ. nýlokið við lagasetningu um einn þýðingarmesta þátt efnahagsmálanna og þar með lagt grundvöll að því, að útgerð gæti hafizt með fullum krafti strax um áramót. Afstaða Sjálfstfl. hafði verið hin furðulegasta til þessa máls. Foringjalið flokksins vissi ekki sitt rjúkandi ráð, stóð klumsa í öllum umr. og bar helzt við skilningsleysi, tímaskorti og ýmsu því um líku, rétt eins og vandamál atvinnuveganna væri þeim framandi eða með öllu ókunnugt. Og svo fór, að hin harða stjórnarandstaða hafði ekkert til þessa stórmáls að leggja á Alþ., gat enga till. flutt, hvorki varðandi bætur eða bótarétt atvinnuveganna né heldur varðandi þá tekjuöflun, sem frv. byggir á. Flokkurinn, sem stjórnað hafði sjávarútvegsmálunum og veitt hafði fyrrverandi ríkisstj. stjórnarforustu, skildi sem sagt ekki vandamál atvinnuveganna og hafði ekkert fram að leggja til lausnar þeim vandamálum annað en það að greiða atkv. á móti málinu sem heild og lýsa þar með yfir, að hann teldi allt í lagi og vildi láta arka að auðnu.

Það var upp úr þessu gjaldþroti, sem íhaldsforingjarnir hentust fram á síðustu stundu, rétt eins og menn, sem eru að tapa af strætisvagni, og lögðu fram þessa kynlegu till. sína um kosningar til Alþ. á næsta sumri.

Till. þeirra sjálfstæðismanna gefur nokkurt tilefni til að rifja upp viðskilnað þeirra í fyrrverandi ríkisstj. og viðbrögð þeirra í stjórnarandstöðunni, síðan hún hófst. Hvernig var t.d. komið hag sjávarútvegsins, þegar formaður Sjálfstfl. lét af stjórn þeirra mála? Segja má í sem fæstum orðum, að þar hafi allt verið komið í strand. Framleiðslusjóður, sem standa átti undir greiðslum til útgerðarinnar, hafði tekið á sig greiðsluloforð 20 millj. kr. umfram væntanlegar tekjur. Hann var því kominn í vanskil og fyrirsjáanlegt greiðsluþrot. Togaraútgerðin var almennt komin að stöðvun, þar sem ráðstafanir þær, sem gerðar voru henni til hjálpar í byrjun ársins, voru allar af henni teknar, um leið og þær voru veittar, með stórhækkandi útgjöldum á öllum sviðum. Grípa varð því til viðbótaraðstoðar við togarana strax eftir stjórnarskiptin. Engir samningar höfðu verið gerðir við útvegsmenn um síldveiðina suðvestanlands, og ekkert fé var fyrir hendi til aðstoðar í þeim efnum. Það varð verk hinnar nýju stjórnar að leysa þann vanda. Afurðasalan var í ólestri, síldarsöltun var stöðvuð norðanlands, vegna þess að ekki var búið að selja nægilega mikið magn, og brýn nauðsyn var á að selja a.m.k. 8 þús. tonn af frystum fiski til viðbótar eldri sölum, ef ekki átti að stöðvast frysting og móttaka á fiski í frystihúsum landsins.

Þannig var ástandið í öllum greinum. Núverandi ríkisstj. tókst að tryggja viðbótarsölur bæði á síld og frosnum fiski og fá nægilega fljótar afskipanir, en Ólafur Thors hafði ekki getað komið þessum sölum fram.

Fram að stjórnarskiptunum fór verðlag innanlands jafnt og þétt hækkandi. Vísitalan blátt áfram rauk upp, og af þeim sökum var öll framleiðsla, sem byggði á erlendu verðlagi, að stöðvast. Það má telja alveg fullvíst, að allur fiskiðnaður í landinu hefði stöðvazt s.l. haust, ef stöðvunarlög ríkisstj. hefðu ekki komið til.

Þannig var viðskilnaður Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálunum, og er þó aðeins lítið eitt upp talið hér.

Það er svo að vonum, að þeir íhaldsforingjarnir heimti völdin að nýju og krefjist þess, að núverandi stjórn víki, sem þó hefur leyst þann vanda, sem þeir höfðu komið atvinnuvegunum í.

Og hvernig hafa viðbrögð sjálfstæðismanna verið í stjórnarandstöðunni? Hvernig hafa þeir snúizt við þeim till., sem fram hafa komið um lausn á þeim vanda, sem þeir bera manna mest ábyrgð á og hrökkluðust frá án þess að geta leyst? Ég hef minnzt á viðbrögð þeirra gagnvart till. ríkisstj. um að tryggja rekstur atvinnuveganna á yfirstandandi ári. Í þeim efnum hafði Sjálfstfl. ekkert til málanna að leggja. Hann lét sem hann sæi ekki vandamálin. En síðan lögin voru sett, hefur hann afflutt þau og rangtúlkað á öllum sviðum, eins og hann hefur haft getu til. Hann hefur haldið því fram, að hér væru engin ný úrræði á ferðinni, heldur sömu gömlu ráðin og áður, og þó gerir flokkurinn sig hlægilegan með því að vera á móti þessum sínum gömlu ráðum.

Ástæðan er einmitt sú, að hann finnur, að hér er gersamlega á annan veg haldið á málunum en áður var. Núv. ríkisstj. leysti vandamál útvegsins í tæka tíð fyrir jól, en í tíð íhaldsins var allt látið reka á reiðanum langt fram á vertíð. Núv. stjórn byggði lausn sína á málunum á víðtæku samkomulagi við alla þá aðila, sem mestu ráða um rekstur atvinnuveganna. Hún náði samkomulagi við útgerðarmenn bátanna, við útgerðarmenn togaranna, við eigendur frystihúsanna, við sjómenn á bátunum, við sjómenn á togurunum, við verkalýðssamtökin í landinu og við bændasamtökin. Þannig var traust undirbygging gerð að vinnufriði og óhindraðri framleiðslu.

Í tíð íhaldsins var ýmist við engan samið eða gert málamyndasamkomulag við einn aðila, en síðan þurfti að taka upp samninga við þann næsta, og vitanlega hlutust framleiðslustöðvanir venjulega af slíkum vinnubrögðum.

Hér var um grundvallarmun á vinnubrögðum að ræða, og viðurkenna það allir nema íhaldsforingjarnir einir. Nú var samið um verulega bættan rekstrargrundvöll bæði báta og togara, og mun íhaldsforingjunum ganga illa að finna nokkurn útvegsmann, sem ekki viðurkennir, að nú hafi gersamlega skipt um frá því, sem verið hefur. Gott dæmi um hið breytta viðhorf útvegsmanna er það, að nú hefur t.d. einn af kunnustu togaraútgerðarmönnum landsins sótt um tvo af þeim nýju togurum, sem ráðgert er að kaupa til landsins. Fram að þessu hafa togaraeigendur ekki metið aðstöðu sína svo, að þeir vildu leggja fé í ný skip. Nú var samið um, að bátagjaldeyriskerfið, sem dró orðið á eftir sér eins árs skuldahala, yrði lagt niður og yfirtekið af sjóði, sem tryggðar voru nægar tekjur til þess að leysa út gömlu skuldasúpuna. Nú var samið um verulegar bætur handa sjómönnum á fiskiskipum. Fiskverð þeirra hækkaði. Þeir fengu fullt orlof, og þeim voru tryggð allveruleg skattfríðindi. Dettur nokkrum í hug að bera þessar ráðstafanir saman við ráð íhaldsins eða öllu heldur ráðleysi þess á undanförnum árum? Ég hygg, að þeir verði fáir.

En voru þá ekki lagðir á gífurlega háir nýir tollar og skattar til þess að standa undir þessum ráðstöfunum, og var þá ekki farin gamla íhaldsleiðin? Það er að vísu rétt, að lögð voru á ný gjöld, því að mikið fé skorti, ef tryggja átti rekstur atvinnuveganna, greiða upp gömlu skuldahrúguna og tryggja uppbyggingu atvinnulífsins. En teknanna var að þessu sinni aflað með allt öðrum hætti en áður hafði verið og á þann hátt, sem íhaldið hefði aldrei getað samþykkt.

Í tíð íhaldsins voru ný gjöld lögð þannig á, að allar vörur, þarfar og óþarfar, báru sama gjald. Nú eru gjöldin lögð fyrst og fremst á minnst nauðsynlegu vörurnar og þó mest á lúxusvörur. Nú eru 36% af öllum vöruinnflutningi með öllu undanþegin nýjum gjöldum. Nú er lagður skattur á bankana. Heldur nokkur, að íhaldið hefði samþykkt slíkt? Nú er lagður á sérstakur stóreignaskattur. Trúir nokkur, að íhaldið hefði samþykkt slíkt? Og nú er jafnframt hlutazt til um, að heildsalar og aðrir milliliðir beri fyllilega sinn hluta af byrðunum. Nú hefur verið fyrirskipuð stórfelld lækkun á heildsöluálagningu, og þannig verður hægt að láta heildsalana taka á sig stóran hluta af hinum nýju gjöldum. Dettur nokkrum manni í hug, að íhaldið hefði samþykkt slíka ráðstöfun? Nú verður tekið upp verðlagseftirlit með öllum vörum og stefnt að lækkandi álagningu bæði í heildsölu og smásölu. Í tíð íhaldsins var allt verðlagseftirlit afnumið, og í flestum tilfellum gátu heildsalar og smásalar tekið sér þá álagningu, sem þeir vildu. Slíkt hét á máli íhaldsins verzlunarfrelsi.

Blöð íhaldsins hafa af miklu kappi rógborið stjórnina að undanförnu fyrir afskipti hennar af verðlagsmálunum. Dag eftir dag hafa þau birt áætlanir um væntanlegar verðhækkanir, sem leiða muni af lagasetningu stjórnarinnar. Þessi skrif íhaldsblaðanna eru hin furðulegustu. Verð er fært upp á vörum, sem enn hefur ekki verið ákveðið hvaða gjald eiga að bera, og auðvitað í engu tillit tekið til þess, að ákveðið hefur verið að lækka álagningu bæði í heildsölu og í smásölu í sumum tilfellum. Þannig er vísvitandi skrökvað upp verðhækkun, sem enginn fótur er fyrir.

Eitt þekktasta dæmið af þessum söguburði íhaldsins er dæmið af nælonsokkum kvenna. Samkvæmt frásögn íhaldsblaðanna eiga þeir að hækka um yfir 50%. Slíkt er vitanlega sagt gegn betri vitund, í fyrsta lagi vegna þess, að enn hefur ekki verið gefin út reglugerð, sem ákveður, í hvaða gjaldflokk sokkarnir eiga að koma, og í öðru lagi vegna þess, að ekkert tillit er tekið til lækkunar, sem verður á álagningu á sokkana bæði í heildsölu og smásölu. Allar líkur benda til þess, að verðhækkun verði lítil sem engin á þessum sokkum. En þessi sokkasaga íhaldsins hefur þótt sérstaklega kröftugt áróðursefni, enda óspart notuð af ræðumönnum þess á öllum fundum.

Hér á Alþingi þrumaði einn af aðalræðumönnum íhaldsins þessa sögu fyrir skemmstu og lagði þunga áherzlu á, að nælonsokkar kvenna ættu að hækka um 50%. Í sambandi við þessi ræðuhöld er sagt, að einn alþm., sem á hlýddi og tók eftir hinni þungu áherzlu ræðumannsins á hækkun sokkanna, hafi snúið sér að sessunaut sínum og sagt: Já, mikið er að heyra um kvensokkana, eiga að hækka um 50%. Hvert skyldu þeir ná eftir hækkunina? — Við því má að vísu búast, að sokkar íhaldsins verði nokkuð háir á næstunni, en ég á samt von á, að almennt hækki kvensokkar ekki tilfinnanlega.

Þessar sögur íhaldsblaðanna um óbærilega verðhækkun á öllum vörum, sem í vændum sé, gefa hins vegar tilefni til þess að nefna hér nokkur dæmi úr verðlagsmálunum, dæmi, sem eru raunveruleg, en ekki neinar íhaldsspár fram í tímann.

Eins og kunnugt er, hefur heildsöluálagning verið lækkuð mjög verulega með tilkynningu verðlagsyfirvaldanna. Nemur lækkun heildsöluálagsins svo að tugum og jafnvel hundruðum þúsunda skiptir á hverri vörusendingu. Hér skulu nefnd nokkur dæmi:

Gúmmískófatnaður kostar í innkaupi 310 þús. kr. Heildsöluálagning var á þessari vörusendingu 84 þús. kr., en nú er heildsöluálagningin ákveðin 48 þús. kr., eða hefur lækkað á þessari sendingu um 36 þús. kr. Þessi lækkun á heildsöluálagningunni þýðir raunverulega, að allt nýja gjaldið, sem á var lagt, lendir á heildsölunni. Útsöluverð vörunnar verður óbreytt. Þannig er stefnt að því, að milliliðirnir beri sinn hlut af nýju gjöldunum.

Annað dæmi: Bifreiðavarahlutar kosta í innkaupi 512 þús. kr. Heildsöluálagning, sem í gildi var, nam 549 þús. kr. Heildsöluálagning nú heimiluð nemur 426 þús. kr. Lækkun nemur því 123 þús. kr. á þessari vörusendingu. En það þýðir, að í rauninni geta varahlutar þessir lækkað í verði frá því, sem verið hefur fram til þessa.

Þriðja dæmi: Búsáhöld, sem í innkaupi kosta 177 þús. kr., báru 83 þús. kr. í heildsöluálagningu. En nú verður heildsöluálag 47 þús. kr. Það er lækkun, sem nemur 36 þús. kr.

Eitt dæmi skal ég nefna enn. Það eru matvörur í pökkum. Innkaupsverð sendingarinnar er 816 þús. kr. Heildsöluálagning hefur verið 420 þús. kr., en verður 284 þús., eða lækkar um 136 þús. kr.

Þannig hefur þegar verið ákveðið að velta nýju gjöldunum í mörgum tilfellum yfir á heildsöluna.

Í þessum dæmum er eingöngu tilfærð sú lækkun, sem ákveðin hefur verið í heildsölunni. Enn hefur í fæstum tilfellum verið ákveðin álagning í smásölu, en fullyrða má, að hún lækkar einnig í ýmsum greinum. Frá þessum staðreyndum eru blöð íhaldsins ekki að segja. Hér þurfti þó engar spár fram í tímann, aðeins að skýra frá staðreyndum. En þessi dæmi og önnur fjöldamörg af sama tagi eru orsökin til óþæginda íhaldsins og illra láta í verðlagsmálunum. Þarna er að finna skýringuna á hrópum og köllum að stjórninni vegna afskipta hennar af efnahagsmálunum. Íhaldið finnur nefnilega til, þegar heildsalarnir eiga að borga. Árásir íhaldsins á ríkisstj. vegna verðlagsmálanna eru gott dæmi um ófyrirleitni þess og ósvífni. Það þykist vera málsvari almennings og þykist berjast fyrir lágu vöruverði, en í rauninni kemur það fram í gervi heildsalans, kaupmannsins, olíufélaganna og hinna stóru skipafélaga og krefst af verðlagsyfirvöldunum hækkunar á öllum sviðum og hótar stöðvun að öðrum kosti.

Íslenzka ríkisstj. hefur nú um 5 mánaða skeið bannað nær allar verðhækkanir með lögum. Hér hefur í rauninni gilt verðstöðvun. Í öllum nálægum löndum hefur vöruverð farið stórhækkandi á þessum tíma. Ýmsar vörur hafa hækkað þar um 40–50%, einkum þær, sem mjög ákvarðast í verði af flutningsgjöldum skipa. Þessar miklu og almennu verðhækkanir stafa af Súez-stríðinu og þeim truflunum, sem af því hefur leitt. Það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi, að verðlag hækkaði minna hér á landi en í nágrannalöndum okkar. En þrátt fyrir þessa staðreynd reynir íhaldið að sækja að ríkisstj. á þeim grundvelli, að hún spenni hér upp allt verðlag.

Tollar þeir og skattar, sem lagðir voru á fyrir áramótin til stuðnings framleiðslunni, hljóta auðvitað að segja til sín í ýmsum greinum í vöruverðinu, en aðallega mun það verða á miður nauðsynlegum vörum. Eins hljóta verðhækkanir erlendis, sem stafa af stríðsvöldum og flutningaerfiðleikum, að segja til sín einnig hér á landi; hjá slíku verður ekki komizt. En um það verður ekki deilt, að ríkisstj. hefur miðað sínar aðgerðir við það, að nauðsynjar bæru sem minnstan hlut af álögunum, en hins vegar ætlað milliliðum, stóreignamönnum, bönkum og öðrum slíkum sinn fulla hlut. Slíka tilhögun gjaldanna hefði íhaldið aldrei samþykkt.

Ein af fullyrðingum íhaldsins, sem formaður Sjálfstfl. endurtók hér í ræðu sinni, er sú, að við Alþýðubandalagsmenn hefðum nú kyngt okkar stóru orðum frá í fyrra um það, að leggja ætti byrðarnar á olíufélögin, bankana, skipafélögin, verzlunina og stórgróðamennina, en þess í stað hefðum við nú samþykkt að leggja gjöldin á almenning. Hér standa staðreyndir hans á haus eins og fyrri daginn. Hið sanna er, að nú er lagt á bankana. Nú er lagt á stóreignamenn. Nú er verzlunin látin borga. Nú hafa olíufélögin verið látin taka á sig milljónir króna á þann hátt, að hér er haldið óbreyttu olíuverði þrátt fyrir stórfelldar hækkanir erlendis, og nú eru skipafélögin einnig látin leggja sitt fram með því að neita þeim um fragthækkanir, sem þau krefjast, en á þau hafa fallið stóraukin útgjöld. Nú hefur einmitt verið tekið tillit til okkar tillagna frá í fyrra, enda bera þeir stóru sig illa. Það má bezt heyra á röddinni frá Sjálfstfl.

Eitt af ásökunarefnum íhaldsins á ríkisstj. er það, að hún hafi svikið kjósendur sína í samningunum við Bandaríkin. Ásökun þessi kemur úr hörðustu átt, og hefði mátt ætla, að íhaldsforingjarnir hefðu verið ánægðir, ef stjórnin hefði svikið stefnu sína í þeim málum. En íhaldið er ekki ánægt. Það veit, að samþykkt Alþingis frá 28. marz um endurskoðun varnarsamningsins á þeim grundvelli, að herinn fari úr landi, er enn í fullu gildi. Samningum hefur að vísu verið frestað. En það er skoðun okkar Alþýðubandalagsmanna, eins og við lýstum yfir, þegar fresturinn var ákveðinn, að bezt væri, að herinn færi sem fyrst úr landinu og að landsmenn byggju hér einir að sínu. Frýjunarorð íhaldsins og annarra hernámsmanna í okkar garð látum við ekki á okkur fá, en munum vaka yfir réttu tækifæri til þess, að samíð verði á heiðarlegum grundvelli eða samningsréttar neytt til þess að losa landið við allt erlent herlið. Afstaða íhaldsins til hernámsmálanna hefur löngum miðazt við gróðasjónarmið gæðinga þess. Eitt af mörgu, sem veldur skapillsku íhaldsins um þessar mundir, er sú truflun, sem orðið hefur á hernámsbraskinu.

Núverandi ríkisstj. hefur átt við mörg og erfið vandamál að glíma. Nokkur þeirra hefur hún leyst, en ýmis eru enn óleyst og á undirbúningsstigi. Full ástæða er til að vona, að þau málefni, sem stjórnin hefur heitið að leysa, verði leyst. Hún hefur þegar komið fram löggjöf um kaup á 15 togurum og 6 stórum fiskibátum og lögákveðið að efna til ríkisútgerðar í atvinnujöfnunarskyni. Togarakaupin eru í undirbúningi, en 6 fiskibátar, 230 lestir hver að stærð, hafa þegar verið keyptir. Bátar þessir verða búnir fullkomnustu tækjum til veiða og siglinga. Það er von margra, að bátar þessir geti starfað sem smærri togarar, einmitt fyrir ýmsa þá staði á landinu, sem ekki geta haft gagn af hinum stóru togurum okkar. Fiskibátar þessir ásamt með ríkisreknum togurum munu verða mikilvægir við uppbyggingu atvinnulífsins úti á landi. Þá hefur ríkisstj. tryggt atvinnujöfnunarsjóði stóraukið fé frá því, sem verið hefur, og ætti það að verða atvinnuframkvæmdum úti á landi til stuðnings.

Þrátt fyrir allar hrakspár íhaldsins er ástæða til bjartsýni. Rekstur framleiðslunnar er tryggður og hagur hennar gerður mun betri en áður. Tekizt hefur að gera stóra og þýðingarmikla viðskiptasamninga, sem tryggja örugga sölu og reglulegar afskipanir á aðalútflutningsvöru okkar. Við höfum samið til þriggja ára við Sovétríkin um sölu á 32 þús. tonna af frosnum fiski á ári. Telja má örugga sölu nú liggja fyrir á 60–65 þús. tonna af frosnum fiski á þessu ári, en það er allmiklu meira magn en nokkru sinni hefur verið framleitt hér á einu ári. Þessi afurðasala skapar mikið öryggi og hefur mikið að segja í rekstrarafkomu fiskiðnaðarins í landinu.

Eins og ég hef nú lítillega drepið á, hefur stjórnarandstaða íhaldsins birzt með æði einkennilegum hætti á stundum. Það skammar stjórnina fyrir að fresta samningum um brottför hersins, en þó vill það sjálft hafa hér herinn sem lengst. Það skammast út í stöðvunarlögin, sem komu í veg fyrir hækkun kaupgjalds og vöruverðs á s.l. hausti, en þó segir það, að of hátt kaupgjald valdi öllum erfiðleikum atvinnuveganna. Það skammast út í efnahagsráðstafanir stjórnarinnar og segir, að þær séu aðeins gömlu íhaldsúrræðin, en samt er það á móti þessum sínum eigin úrræðum. Það skammast út af of háu verðlagi, en krefst þó sjálft hækkunar á flestum sviðum. Það gerist jafnvel verkalýðsflokkur og deilir á stjórnina fyrir árásir á kaup verkamanna, en í framkvæmd berst íhaldið alls staðar gegn sanngjarnri leiðréttingu á kjörum verkafólks. Þannig er stjórnarandstaða íhaldsins. Hún er einkennileg. Hún líkist helzt „rock and roll“ dansi, kippir og köst fram og til baka. Ýmist er þessu haldið fram eða því gagnstæða. Og það er Bjarni Benediktsson, sem er aðalrokkmeistari þessarar stjórnarandstöðu. En ástæðan til þessarar sérkennilegu stjórnarandstöðu er ótti íhaldsforingjanna. Ástæðan er hræðslan við stóreignaskattinn, tilhugsunin til þess, sem heildsalarnir eiga að greiða, tilhugsunin um það, að nú eigi að fara að líta eftir framkvæmdinni á fisksölumálunum, tilhugsunin til þess, að brjóta eigi á bak aftur vald þeirra í bönkum landsins, og vitneskjan um það, að hermangsgróði þeirra er óðum að verða að engu. Íhaldið er óttaslegið, og af því er stjórnarandstaða þess með þessum einkennilega og hlægilega hætti.