16.11.1956
Sameinað þing: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (2599)

44. mál, kosning manna til að semja um endurskoðun varnarsamningsins

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt að rekja höfuðatriði afgreiðslu fyrri till. í ræðu minni áðan vegna þess, hversu þessi mál eru náskyld, og undir afgreiðslu fyrri till. er í raun og veru komin samþykkt hinnar seinni.

Það voru hinar óljósu og óákveðnu yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. í sambandi við fyrri till., sem gera það sérstaklega mikilsvert, að Alþ. einmitt taki nú ákvörðun um skipun samninganefndar, sem vinni ásamt með og undir forustu hæstv. utanrrh. Það skal þó tekið fram, að við hefðum ekki borið fram slíka till., ef við hefðum ekki talið, að hæstv. utanrrh. væri persónulega treystandi í þessu máli, ef hann væri losaður úr þeim nokkuð vafasama félagsskap, sem hann að öðru leyti er nú í.

Hæstv. utanrrh. bar það og sérstaklega fyrir gegn samþykkt till., að þá væri það undir hlutkesti komið, hvort Alþb. fengi þar fulltrúa eða Alþfl.

Ég verð að lýsa því, að það er auðvitað algert innanheimilismál hjá hæstv. ríkisstjórn, hvernig hún mundi láta kjósa þá 3 fulltrúa, sem hún ætti þinglegan rétt til, ef till. væri samþ., og ætti ekki að þurfa minna ráðlegginga þar við og enn síður atkvæðis. En stundum hefur það nú átt sér stað, að atkvæði hafa verið lánuð á milli flokka, jafnvel þó að annar væri í stjórnarandstöðu og hinn með stjórn, og ég held, að það væri ekki útilokað, að Alþfl. gæti áskotnazt eitt atkvæði til þess að bjarga því, að Alþb. fengi ekki mann kosinn, ef allt ylti á því. En þar að auki vil ég benda á, að svo náið sem samstarfið er innan ríkisstj. milli allra 3 flokka, þá vitum við þó fyrir víst, að samstarf 2 þeirra, Alþfl. og Framsfl., er miklu nánara, þar sem þeir gengu í kosningabandalagi fram við síðustu kosningar, og þetta bandalag hefur auðvitað fullan þinglegan styrk til þess að fá 3 menn kosna í þessa nefnd, ef þeir stilla saman, svo að það mundi ekki einu sinni þurfa að leita neins leynisamnings við íhaldið um að tryggja rétt Alþfl., eins og stundum áður hefur þurft að gera. (SkG: En ef þið tækjuð höndum saman við hina?) Já, ég skal lofa því, hv. þm., að það skal ekki verða gert, — en hvort það er hægt að ábyrgjast alla framsóknarmennina, það skal ég ekki segja. — En það er ljóst af þessu, að hæstv. utanrrh. var gaman í huga, þegar hann færði þetta sem átyllu á móti till. Hitt mætti í raun og veru segja og er frekar frambærilegt, sem kemur fram í sjálfri hinni rökstuddu dagskrá, að venjan sé, að ríkisstjórnirnar tilnefni slíkar samninganefndir, og ég get fallizt á þau rök, svo langt sem þau ná.

En ég vil benda á þá sérstöku stöðu þeirrar ríkisstj., sem nú situr, að þrátt fyrir allar yfirlýsingar hæstv. utanrrh. verðum við að ætla, ef lengur er að marka nokkurt mannlegt mál og nokkrar yfirlýsingar, að það sé mjög mikill skoðanamunur innan ríkisstj. á lausn þessa máls, og þó að hæstv. forsrh. hafi ekki fengizt til að lýsa yfir jafneindreginni afstöðu og hæstv. utanrrh., þá sé alls ekki því treystandi, að nema í bezta tilfelli séu Alþfl. og Framsfl. sammála um lausn málsins; en þeir hafa ekki á bak við sig nema réttan þriðjung þjóðarinnar. Ég verð að telja það mjög óvarlegt, svo að ekki sé sagt fullkomna ófæru, ef menn, sem ekki hafa á bak við sig meira þjóðarfylgi, — og er þó vitað, að það hefur stórlega rýrnað frá því í sumar, — ætla nú að setjast einir á rökstóla og semja um hið viðkvæmasta framtíðarmál f.h. íslenzku þjóðarinnar. Sérstaklega tel ég þetta varhugavert, þegar vitað er, að langstærsti flokkurinn, sá, sem hefur orðið og verður enn að bera þunga dagsins um heilbrigða forustu í utanríkismálunum, — því að það hefur nú sannazt, að við höfum haft þar rétt fyrir okkur í öllu, sem við höfum sagt, — að þegar við nú bjóðum fram okkar samstarf með þessum hætti og fulltryggilegt er, að hægt er að útiloka Alþb. úr þessari kjörnu þingnefnd, þá eru þau efnisrök þyngri á metunum heldur en þó að hitt sé óvenjulegt, að Alþingi kjósi slíka nefnd, sem ég játa. En óvenjuleg aðstaða krefst óvenjulegra aðgerða, eins og hér eru fullkomin rök til.

Eftir yfirlýsingar hæstv. utanrrh. sjálfs og eftir það, sem hann lagði áherzlu á í ræðu sinni um þetta mál, að við mundum telja hans yfirlýsingar allsendis fullnægjandi um málið, þá get ég ekki fallizt á, að lengur ríki nokkur sá skilsmunur okkar í milli, sem ætti að gera það útilokað, að slík samvinna lýðræðisflokkanna væri nú reynd og endurnýjuð, sem svo mörgu góðu til vegar kom, meðan hún stóð. Hitt er svo annað mál, að yfirlýsingar ráðherrans eru ekki alveg eins skýrar og hann vildi vera láta, og það er algerlega ranghermt hjá honum og hæstv. forsrh., þegar þeir segja, að við séum að heimta yfirlýsingar ríkisstj. um einstök atriði þessarar samningagerðar. Við höfum aldrei farið fram á að heimta vitneskju um einstök atriði samningagerðarinnar. Við spurðum aðeins: Stendur sú yfirlýsing óbreytt, sem lýst var á Alþingi 28. marz, að þessir samningar eigi að miða að því, að varnarliðið hverfi á braut strax og samningafrestir leyfa? — Þetta er sú yfirlýsta stefna, sem ætla verður að stjórnin muni reyna að ná, ef skýr og ótvíræð gagnyfirlýsing fæst ekki, enda var það, að svo miklu leyti sem nokkur meining var fólgin í því, sem hæstv. félmrh. sagði, þetta, sem hann vildi halda sér við. En hæstv. utanrrh. er aftur á móti að gefa í skyn, að hann vilji alls ekki fallast á það, að varnarliðið hverfi, og telji það mjög óráðlegt. Og nú spyr ég enn og aftur: Hver er ákvörðun hæstv. ríkisstj. varðandi þetta meginatriði? Ætlar hún að láta endurskoðunina fyrst og fremst miða að þessu, eða er það eitthvað annað, sem á að ná?

Ég lýsi því yfir, að ef ríkisstj. telur, að nú sé rétti tíminn til þess að bera fram þá kröfu, að varnarliðið hverfi, þá er reginmunur á minni skoðun og hans. En þá er það líka alger misskilningur hjá honum, ef hann telur, að sínar yfirlýsingar séu okkur fullnægjandi. En ég vildi einmitt skilja hans yfirlýsingar á þann veg, að hann teldi, að þetta atriði þyrfti a.m.k. að athuga miklu betur, áður en það væri gert að meginefni samninganna, — og ég vil fullvissa um það, að hann fær enga hollari ráðgjafa um skynsamlega íhugun þess heldur en okkur sjálfstæðismenn.