31.05.1957
Sameinað þing: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (2616)

80. mál, lán til íbúðabygginga

Frsm. meiri hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Húsnæðismálin hafa verið mjög rædd hér á Alþingi að undanförnu, og það væri að bera í bakkafullan lækinn að fara að ræða þau við umr. þessa máls, enda þótt af skyldum stofni sé. Ég mun því ekki haga máli mínu á þann veg.

Þáltill. á þskj. 126 var send til fjvn. til fyrirgreiðslu. N. hefur athugað málið og leitað álits hjá Landsbanka Íslands og húsnæðismálastjórn, en hvorugur þessara aðila hefur svarað.

Eins og fram kemur á þskj. 600 og 611, urðu fjvn.-menn ekki á eitt sáttir um afgreiðslu málsins.

Í lögum frá 1955 um húsnæðismálastjórn svo og í 4. gr. laga þeirra um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins o.fl., sem afgr. voru frá Alþingi fyrir viku, er heimild til handa húsnæðismálastjórn til lántöku erlendis í þessu skyni. Það er því verkefni húsnæðismálastjórnar að sjá um framkvæmd í þessu máli og mat hæstv. ríkisstj. hverju sinni, hvort nota á það erlenda lánsfé, sem við kunnum að ná til, til þessara verka eða annarra þeirra, sem ríkisstj. er með á döfinni.

Það er álit meiri hl. fjvn., að það skorti hvorki lagaheimild né viljayfirlýsingu Alþingis til framdráttar þessu máli. Það eru önnur atriði, sem þar munu ráða ferðinni.

Samkvæmt því, sem að framan er sagt, leggur meiri hl. fjvn. til, að þessi till. verði afgr. með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Þar sem í l. nr. 55 frá 1955, 3. gr., er heimild til handa veðdeild Landsbanka Íslands til lántöku erlendis til íbúðabygginga og sömu ákvæði eru í 4. gr. frv. til l. á þskj. 565, telur Alþingi samþykkt þessarar þáltill. óþarfa og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“