31.05.1957
Sameinað þing: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (2617)

80. mál, lán til íbúðabygginga

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hl. tók fram, hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessarar till. Meiri hl. n. leggur til, að henni verði vísað frá, en við fulltrúar Sjálfstfl. í n. leggjum til, að till. verði samþykkt óbreytt.

Frávísunartill. er byggð á því, að heimild sé í lögum til umræddrar lántöku, bæði í þeim húsnæðismálalögum, sem í gildi voru, þegar till. var flutt og gengið var frá nál., og enn fremur í þeim lögum, sem sett hafa verið nú á Alþingi.

Svo sem þáltill. ber með sér, hefur flm. hennar verið fullkomlega ljóst, að þessi heimild væri fyrir hendi. Hins vegar hefur heimildin ekki verið notuð og ekki kunnugt um, að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar í þá átt, og af því leiðir, að það er á engan hátt óeðlilegt að Alþingi láti í ljós vilja sinn um það, hvort það óskar eftir, að heimildin sé notuð eða ekki. Ríkisstj. hefur víða ýmsar heimildir til lántöku og það fleiri heimildir en notaðar hafa verið og ekki víst, hvenær þær verði notaðar, og það er því á engan hátt óeðlilegt, að Alþingi lýsi vilja sínum í þessu efni eða hverju því tilfelli, þar sem því þykir sérstök ástæða til, að umræddar heimildir séu notaðar. Enn fremur er þess að gæta, að í þessari þáltill. er gert ráð fyrir enn frekari fyrirgreiðslu, þ.e.a.s., að ríkisstj. verði falið að stuðla að því, að aðrir aðilar í landinu, sem kynnu að hafa aðstöðu til lántöku erlendis, gætu notað sér þá aðstöðu, þannig að sem allra mest fé fengist til húsnæðiskerfisins.

Ég held, að það liggi í augum uppi, að sú lausn, sem hefur verið fundin á húsnæðismálunum á þessu þingi, sé víðs fjarri því að leysa þann mikla vanda, sem þar er við að stríða, þannig að það er sízt vanþörf á, ef verulegt átak á að gera í þeim efnum, sem einmitt er mikil þörf að gera nú, að þá verði reyndar allar þær leiðir, sem tiltækar eru, í því skyni. Af þessum sökum höfum við í minni hl. n. viljað leggja til, að till. yrði samþ. eins og hún liggur fyrir á þskj. 126.