31.05.1957
Sameinað þing: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í D-deild Alþingistíðinda. (2618)

80. mál, lán til íbúðabygginga

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. minni hl. gerði réttilega grein fyrir, þá er þáltill., sem hér er um að ræða, ekki um það að veita heimild, heldur að Alþingi álykti, að heimild, sem fyrir hendi er, skuli notuð. Þeir, sem þessa till. flytja, telja, að miðað við gang þessara mála eigi það ekki að vera undir mati ríkisstj., hvort þessi heimild verður notuð, heldur taki Alþingi ákvörðun um það að fela ríkisstj. að beita sér fyrir, að þessi lánsheimild verði notuð. Það eru þess vegna skakkar forsendur fyrir þeirri rökstuddu dagskrá, sem borin er fram af meiri hl. fjvn.

En alveg sérstakt tilefni til þess að ræða nokkru nánar um þetta mál gefur mér sú afgreiðsla eða þær yfirlýsingar, sem fram komu af hálfu hæstv. ríkisstj. í sambandi við afgreiðslu húsnæðismálanna hér ekki alls fyrir löngu. Þá sagði hæstv. félmrh. eða lýsti því yfir, og það er í samræmi við það, sem stendur í grg. þess frv., að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því og hefði tekið á sínar herðar þá skuldbindingu að tryggja 44 millj. kr. frá bönkum og sparisjóðum til íbúðarhúsalána á síðari hluta þessa árs.

Ég beindi þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj. og hæstv. félmrh., hvað stjórnin hefði fyrir sér í því að gefa yfirlýsingu eins og þessa, að hún hafi skuldbundið sig til að sjá um 44 millj. kr. lán til íbúðarhúsabygginga frá bönkum og sparisjóðum. Ég spurði hæstv. félmrh., hvernig ríkisstj. ætlaði að standa við þessa skuldbindingu, ef sparifjáraukning yrði ekki í landinu síðari hluta ársins, hvort hún þá hefði það í huga að gefa út eða láta prenta seðla, sem engin raunhæf verðmæti væru á bak við, eða hvort ríkisstj. hefði hitt í huga, ef svona færi, að leysa sig frá þessari yfirlýsingaskuldbindingu með erlendum lántökum.

Þessari ákveðnu fsp. svaraði hæstv. félmrh. ekki, og hæstv. ríkisstj. hefur ekki svarað henni enn. Og það er mjög nauðsynlegt, að Alþingi ljúki ekki öðruvísi en að mönnum sé ljóst, hvað fyrir hæstv. ríkisstj. vakir í þessu efni, og það er algerlega að mínu áliti ósæmilegt af hæstv. ríkisstj. að lýsa því yfir í þskj. og við umr. um húsnæðismálin, að ríkisstj. skuldbindi sig til að útvega 44 millj. kr. úr peningastofnunum landsins, án þess að gera nokkra frekari grein fyrir því, þegar beinlínis er spurt eftir því. Það er rétt, að hæstv. ríkisstj. hefur tryggt sér yfirráð yfir peningastofnunum landsins, en það tryggir ekki hins vegar peninga í þessar peningastofnanir. Þvert á móti má búast við, að aðgerðir hæstv. ríkisstj. í bankamálunum á þessu þingi verði fremur til þess að draga úr sparifjársöfnun í landinu heldur en hitt að mínum dómi.

Það er mjög eftirtektarvert, að þróun þessara mála er því miður ekki í því horfi, sem æskilegt væri, og mig furðaði mjög á yfirlýsingu hæstv. sjútvmrh. í eldhúsdagsumræðunum þar að lútandi, að sparifjáraukningin hefði aldrei verið meiri í landinu en nú, eða eitthvað í þá átt. Sannleikurinn er sá, að á fyrsta ársfjórðungi s.l. árs var sparifjáraukningin í bönkunum tæpar 50 millj. kr., eða 48.6 millj. kr., en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er aukningin ekki nema 20 millj. kr. Hún verður 21/2 sinnum meiri á fyrsta ársfjórðungi s.l. árs heldur en hún er nú. Og þetta er þeim mun athyglisverðara vegna þess, að venju samkv. hefur dregið úr sparifjáraukningu síðari hluta ársins hér bæði fyrr og síðar, svo að þetta er í sjálfu sér íhugunarefni og nokkuð ískyggilegt. Ég sé ekki, hvernig hæstv. ríkisstj. getur skotið sér undan því að gera hv. þingheimi grein fyrir, hvað vakir fyrir henni í þessu máli, þegar ofan á þetta bætist, að hér er borin fram þáltill. um erlenda lántöku til íbúðarhúsabygginganna og hv. meiri hl. fjvn. eða stjórnarsinnar leggja til, að henni verði vísað frá.

Ef við tökum s.l. ár, þá er þróun þessara mála þannig, að fyrstu sjö mánuði ársins var sparifjáraukningin í fyrra 98.3 millj. króna í bönkunum og 67.7 millj. kr. sömu mánuði ársins 1955, en síðari hluta ársins í fyrra eða síðustu fimm mánuðina minnkuðu spariinnlögin í bönkunum um nærri 24 millj. kr. Þessi þróun hefur ekki átt sér stað á undanförnum árum, ekki fyrr en á s.l. ári, að beinlínis hafi runnið út spariféð úr bönkum landsins, þó að hitt sé rétt, að sparifjáraukningin hefur hlutfallslega undanfarin ár verið minni síðari hluta árs en fyrri hluta ársins. Og það er líka mjög eftirtektarvert, að einmitt þeir bankar, sem hæstv. stjórnarsinnar hafa gert sína aðför að í sambandi við bankamálin, dragast nú mjög ört aftur úr í sparifjáraukningu, miðað við aðrar peningastofnanir í landinu, og það er hvergi nærri, að þeir haldi þeim sömu hlutföllum í sparifjáraukningu og þeir hafa áður haft, miðað við aðra banka og peningastofnanir í landinu, og er þetta þó annar þjóðbankinn og hinn næststærsti bankinn í landinu.

Ég held, að ég þurfi ekki fleiri orðum um þetta að fara. Hér er alvarlegt mál á ferðinni, og það stendur upp á hæstv. ríkisstj. að gera grein fyrir því og svara þingmönnum, og það er lítilsvirðing fyrir Alþingi Íslendinga, þegar hæstv. ríkisstj. skýtur sér undan því að svara beinum fyrirspurnum í jafnalvarlegu máli og hér er um að ræða. Hjá því verður ekki komizt, að eftir slíku verði tekið, ef hæstv. ríkisstj. gerir ekki betur hreint fyrir sínum dyrum en hún hefur gert fram að þessu.