16.11.1956
Sameinað þing: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (2622)

43. mál, endurskoðun varnarsamningsins

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. „Engin þjóð hefur ríkari ástæður til þess en Íslendingar að óska þess, að friður haldist í heiminum, því að enginn er þess ómegnugri en við að verja land okkar og þjóð, ef í odda skerst. Ef ófriðarhættan er raunverulega úr sögunni, höfum við sannarlega ástæðu til að gleðjast. En friðurinn er þess virði, að nokkur áhætta sé tekin hans vegna. Að þessu sinni er áhættan ekki önnur en sú, að við bíðum með að gera land okkar varnarlaust, þangað til við sjálfir höfum að beztu manna yfirsýn og við rólega íhugun sannfærzt um, hvort viðhorfin séu svo breytt í raun og veru, að víkja megi af verðinum.

Er flóðalda kommúnismans í sannleika sjötnuð, eða hefur hún aðeins stöðvazt við varnarvegginn og smýgur í gegnum hverja sprungu, sem í honum verður? Við skulum vona; að verstu hríðarbyljum kalda stríðsins sé slotað og að fram undan sé sumar afvopnunar og allsherjar friðar. En jafnvel hinir bjartsýnustu játa, að enn sé vorið naumast byrjað. Allra veðra er von, svo sem á útmánuðum tíðkast, og næsta áfangann er áreiðanlega öruggast að vera í fylgd með öðrum, því að það á við um þjóðirnar ekki síður en einstaklingana, að fátt segir af einum.“

Víð þessi ummæli mín frá s.l. vori hef ég í rauninni ekki miklu að bæta, því að aldrei hefur sannazt betur en með örlögum ungversku þjóðarinnar, að fátt segir af einum. Hróp heillar þjóðar um hjálp endurómuðu að vísu um heim allan, en enginn treysti sér til að veita hinni nauðstöddu þjóð þá hjálp, sem ein hefði dugað, enda vafasamt, hvert gagn Ungverjum hefði orðið að því, þótt stórveldastríð hefði verið hafið um land þeirra, úr því sem komið var.

Allir þessir atburðir eru hörmulegri en svo, að með orðum verði lýst, og því fer fjarri, að ég hælist um, að þeir hafa sannað réttmæti skoðana okkar sjálfstæðismanna í varnarmálum Íslands. Vissulega hefðum við miklu fremur kosið, að bjartsýnismennirnir hefðu reynzt hafa á réttu að standa. En fram hjá staðreyndunum komumst við ekki, og það eru miklu fleiri en við sjálfstæðismenn, sem telja, að þessir atburðir kalli á endurmat íslenzku þjóðarinnar á alþjóðasamskiptum hennar, þ. á m., að varnir Íslands verði tryggðar með þeirri endurskoðun varnarsamningsins, sem nú er ákveðin.

Að þessu höfum við vikið í grg. till., enda tökum við þetta mál ekki upp til þess að þekkjast við aðra eða metast á við þá um fortíðina, heldur sem sameiginlegt mál allra lýðræðismanna á Íslandi, og viljum sýna, að við metum í því ekki minna annarra rök en okkar sjálfra, svo sem fram kemur í grg.

En þó að ýmsir lýðræðissinnar utan Sjálfstfl. hafi nú látið uppi, að tryggja verði varnir landsins, þá hefur því miður ekkert heyrzt um það frá sjálfri hæstv. ríkisstj. Einn stuðningsflokkur hennar og sá stærsti hefur þó gert um þetta ótvíræða ályktun, hert á því, að varnarliðið hverfi úr landi, og fullyrt, að sjálfur Atlantshafssamningurinn væri í raun réttri úr gildi fallinn. Sá boðskapur var hinn síðasti af þeim, er þjóðinni barst í útvarpinu hinn 5. nóv. s.l. og hófst með ræðu hæstv. forsrh. og lestri á tilkynningu ríkisstj. vegna þessara atburða. Í þeirri tilkynningu eða ræðu ráðh. var ekkert vikið að því, hverja þýðingu þessir atburðir hefðu fyrir Íslendinga, og enn hefur ríkisstj. ekkert látið uppi um, hvort hún er sammála þessari skoðun stærsta stuðningsflokks síns eða ekki. Ég vona raunar, að svo sé ekki, en um það er nauðsynlegt að fá nú ótvíræða vitneskju.

Íslenzka þjóðin á heimtingu á því að fá að vita, með hvaða hug hefja á samningana um endurskoðun varnarsamningsins.

Er tilætlunin sú, að þar sé fylgt ákvörðun einasta stjórnarflokksins, sem hefur látið til sín heyra um málið, eftir að þeir atburðir gerðust, sem glöggir menn hafa sagt að breytt hafi ásýnd heimsins, eða er ætlunin sú, að með samningunum verði varnir landsins tryggðar, svo sem yfirgnæfandi meiri hl. Íslendinga ætlast til að gert verði?

Till. sú, sem hér er fram borin, er flutt til þess, að Alþingi Íslendinga skeri úr þessu.