16.11.1956
Sameinað þing: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (2623)

43. mál, endurskoðun varnarsamningsins

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Tillaga þessi, sem fram er borin af öllum hv. þm. Sjálfstfl., fer fram á, að Alþingi ákveði við endurskoðun varnarsamningsins, sem nú er í undirbúningi, að svo skuli frá málum gengið, „að nauðsynlegar varnir landsins séu tryggðar“, eins og það er orðað í tillögugreininni sjálfri.

Tilefni og forsendur þessarar niðurstöðu tillögumanna er, að eftir hina seinustu ógnþrungnu atburði sé nauðsynlegt endurmat á afstöðu þjóðarinnar til alþjóðasamskipta.

Að því er varðar atburði þá, sem gerzt hafa seinustu vikurnar í Ungverjalandi og fyrir botni Miðjarðarhafsins og enn eru að gerast, þá fer því vissulega víðs fjarri, að ég vilji á nokkurn hátt draga úr eða vanmeta þýðingu þeirra. Þau átök, sem átt hafa sér stað í þessum hluta heims, eru öll með þeim hætti, að enginn getur neitt um það fullyrt á þessari stundu, hvert framhald þeirra kann að verða. Öll vonum vér að sjálfsögðu, að Sameinuðu þjóðunum megi auðnast að leysa þennan vanda, sem í er komið fyrir botni Miðjarðarhafsins, og öll fylgjumst við af samúð og aðdáun með baráttu ungversku þjóðarinnar fyrir frelsi og almennum mannréttindum. En allt þetta eru aðeins frómar óskir, og þeir, sem fara með og bera ábyrgð á okkar eigin vörnum, hljóta að fylgjast af gaumgæfni og með vaxandi áhyggjum með þeim atburðum öllum og haga sér eftir þeim staðreyndum, sem fyrir liggja, eins og þeir vita þær sannastar og réttastar.

Í tillgr. þál. segir, að við fyrirhugaða endurskoðun varnarsamningsins skuli þannig frá málum gengið, „að nauðsynlegar varnir landsins séu tryggðar“. Þessi ummæli gefa til kynna, að fyrirhugað sé að skilja þannig við málið, að nauðsynlegar varnir landsins séu ekki tryggðar. Þessu vil ég algerlega mótmæla. Slíkt hefur aldrei verið áformað og kemur ekki til mála. Hins vegar hefur verið ágreiningur um það á milli Alþfl. og Framsfl. annars vegar og Sjálfstæðisfl. hins vegar, hvað væri nauðsynlegar varnir.

Alþfl. og Framsfl. hafa haldið því fram. að á friðartímum, þegar ekki þykir ástæða til að óttast, að ófriður kunni að brjótast út, sem stofni öryggi landsins og Norður-Atlantshafssvæðinu í hættu. þurfi hér ekki erlent herlið, heldur geti Íslendingar sjálfir annazt rekstur og viðhald varnarstöðvanna og haldið þeim þannig, að þær séu ávallt viðbúnar að taka fyrirvaralaust við varnarliði, ef hættuástand kynni að skapast. Jafnákveðnir og þessir tveir flokkar hafa verið í því, að hér væri ekki herlið á tímum, sem ekki gefa tilefni til slíks, hefur hitt og verið stefna þeirra, að á Íslandi væri varnarlið, þegar öryggi landsins krefst þess.

Í s.l. júlímánuði, nokkrum dögum eftir að núverandi ríkisstjórn var mynduð, gaf utanrrn. út tilkynningu, þar sem gerð var grein fyrir stefnu ríkisstj. í utanríkis- og öryggismálum. Þar segir svo: „Stefna ríkisstjórnarinnar í utanríkis- og öryggismálum er ekki ný stefna af Íslands hálfu. Stefnan var mörkuð árið 1949, áður en Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið, og henni hefur verið fylgt fram síðan og er enn fylgt.“ Þar segir og: „hér eftir sem hingað til skuli við það miðað að hafa vinsamlega sambúð við allar þjóðir og að um öryggismál eigi Íslendingar samstöðu við nágrannaþjóðir sínar, m.a. með samstarfi í Atlantshafsbandalaginu, og þá einnig við þær þjóðir, er að því standa.“ Um varnar- og öryggismálin segir í stefnuyfirlýsingunni: „Að því er varðar varnarmálin er það stefna ríkisstj., að endurskoðuð skuli sú skipan, er tekin var upp 1951, er varnarsamningurinn var gerður. Höfuðtilgangur þeirrar endurskoðunar á að vera sá, að Íslendingar taki í eigin hendur gæzlu og viðhald varnarstöðvanna, þannig að þær séu ætíð og án fyrirvara við því búnar að gegna hlutverki sínu, ef horfur í heiminum breytast til hins verra, en að herinn hverfi úr landi.“ Stefnan er hér greinilega og ótvírætt mörkuð. Hún er óbreytt frá 1949. Við viljum samstöðu og samstarf í öryggismálum með Atlantshafsbandalaginu og þjóðum þess. Vera varnarliðsins í landinu fer eftir því, hvort friðarhorfur í heiminum gera slíkt nauðsynlegt eða ekki. Á friðartímum, þegar ekki þykir ástæða til að óttast um, að öryggi landsins eða Norður-Atlantshafssvæðisins sé í hættu, þarf hér ekki varnarlið. Á slíkum tímum skulu Íslendingar standa fyrir rekstri og viðhaldi varnarstöðvanna, þannig að þær séu ætíð og án fyrirvara við því búnar að gegna hlutverki sínu og taka við varnarliði, ef horfur í heiminum breytast til hins verra, og að varnarstöðvarnar fullnægi þannig ætíð þörfum okkar og Atlantshafsbandalagsins.

Af því. sem hér hefur verið sagt, vænti ég þess, að ljóst sé. að ágreiningur er ekki um það út af fyrir sig, að þannig skuli á málum haldið við endurskoðun varnarsamningsins, að nauðsynlegar varnir landsins séu tryggðar, og með því, að till., sem hér liggur fyrir, felur ekki neitt í sér annað en að slá þessu föstu, þá flytur hún ekki neitt nýtt inn í málið, og legg ég því til, að henni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.